þriðjudagur, janúar 25, 2005

Hvítir klósettburstar

Emil losnar við saumana á eftir. Hann er enn með skerminn sinn og virðist alveg nákvæmlega sama um hann. Við tökum hann stundum af honum og þá vill hann bara fá hann aftur um hálsinn. Öllu má venjast greinilega... en við Elli erum hins vegar orðin mjög pirruð á skerminum. Emil fattar nefnilega ekki hvað hann tekur mikið pláss með þessa plastrekt og er alltaf að hlaupa á okkur... hann er sérstaklega hittinn á hásinarnar á okkur. Svo þeytast húsgögnin líka út um alla íbúð þegar hann hleypur fram hjá þeim... dálítið þreytandi. Við Elli verðum sennilega mikið fegnari en Emil þegar skermurinn fer af... en ég hugsa að hvutti verði glaður að losna við saumana og geta sleikt fyrrverandi gersemar (eins og Katrín orðar það) að vild. Það verður sennilega mikill friður fyrir honum í kvöld.
Íbúðin er farin að líta út eins og mannabústaður, nema baðherbergið og bleika gestaherbergið eru enn óbreytt. Við skruppum í bæinn áðan til að sækja síðustu hurðarnar á fataskápinn, fengum bara eikarhurðir í fyrstu ferð en tvær áttu að vera speglar. Við fórum sem sé þriðju ferð í IKEA í dag til að skipta hurðunum og eigum svo eina ferð eftir til að sækja skúffurnar sem aldrei eru til. Þetta er orðinn ansi dýr skápur... og við urðum mikið hissa í dag þegar við sáum að speglahurðirnar eru mikið ódýrari en hinar og ef við hefðum bara tekið spegla hefðum við sparað 12 þúsund kall! En jæja... við höfum ekki gott af að hafa of mikið af speglum :-)
Hvað er svo að frétta af ykkur öllum? Það er eitthvað svo lítið um að vera í bloggheimum þessa dagana... bara Katrín sem stendur sig virkilega vel í blogginu. En Iris er búin að blogga og svara klósettburstakommentunum, hvet alla til að taka þátt í þeirri umræðu :-)


3:37 e.h.
|

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Kúluleysi


Jæja, þá er hann Emil minn orðinn aðeins minna karlkyns. Hann fór að hitta dýralækni í gær og kom sofandi heim. Þegar hann vaknaði vafraði hann um íbúðina eins og ofurölvi og fékk svo kraga til að hann taki ekki saumana úr sér sjálfur alltof snemma. Núna er hann frekar fúll yfir kraganum en virðist alveg hress að öðru leyti. Hann fékk að sofa inni hjá okkur í nótt og við vorum alltaf að vakna við það þegar hann labbaði á veggina. Hann sofnaði svo loksins undir morgun, um það leyti sem Elli fór í vinnuna og við tvö sváfum til klukkan tíu.
Rakel ömmusystir kom í heimsókn áðan og borðaði afganginn af hádegismatnum. Svo fékk hún kaffi og við spjölluðum og skoðuðum myndir... voða gaman. Hún færði okkur innflutningsgjöf og fékk skoðunarferð um höllina í staðinn.
Sjónvarpið sprakk um helgina, fyrst varð myndin bara mjó rönd en hljóðið heyrðist. Svo kom smellur og bæði mynd og hljóð hurfu. Ég skrapp því í Elko í gær og keypti annað sjónvarp. Litla 14 tommu sjónvarpið sem við höfum venjulega í svefnherberginu var nefnilega full lítið í stofuna, hún er svo stór að maður þurfti eiginlega kíki til að horfa á sjónvarpið. Þegar ég var að horfa á “How do you like Iceland” á sunnudagskvöldið þurfti ég að standa upp og fara nær til að lesa listana sem birtust stundum á skjánum... og þeir voru alltaf að koma svo ég var á endalausum hlaupum yfir stofuna.
Ég er í sumarfríi í dag til að hjúkra hundinum mínum... en þarf ekkert að hjúkra honum, svo ég er bara að slæpast. Er að hugsa um að láta renna í bleika baðið og leggjast í bleyti í smá stund. Ha det!


4:12 e.h.
|

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Komin heim...

Þá erum við flutt inn í íbúðina okkar og klofum yfir kassa alla daga. Erum búin að fara í Ikea og kaupa fataskápa og eldhúsborð og stóla. Fataskápakaupin gengu nú ekki alveg eins og við ætluðum, því þeir áttu bara tvær einingar af sex, svo við verðum að bíða eftir restinni. Svo urðu þeir líka mikið dýrari en við gerðum ráð fyrir því verðin í bæklingnum eru bara fyrir skápinn, hurðina og lamirnar. Ef maður vill einhvern lúxus eins og fataslár, höldur, hillur eða skúffur þarf maður að borga extra. En þetta verður voða flott allt saman þegar allt verður komið á sinn stað...
Málningarvinnan gengur svona og svona. Við erum búin að mála svefnherbergið og stofuna, en gangurinn og bleika herbergið bíða enn. Emil er mikið glaður þegar við erum ekki að mála, því þá getur hann spásserað um íbúðina að vild. Við hins vegar settum hann í búrið þegar við vorum með málningu í opnum ílátum, því við höfum lítinn áhuga á litlum hvítum hundafótsporum út um allt.
Emil er líka að koma sér fyrir á nýja heimilinu. Hann er vanur að geyma leikföngin og beinin sín á ákveðnum stöðum og nú er hann að leita að góðum stað. Í Borgarnesi geymdi hann dótið sitt í og undir sófanum, en nú er búið að banna honum að fara upp í sófann, svo hann þarf að finna eitthvað annað. Önnur gluggakistan í stofunni virðist vera ákjósanleg, því þar er venjulega alltaf eins og eitt bein og einn bolti. Hann er enn að venjast hljóðum nágrennisins og geltir ef hann heyrir í fólki. Eins verður hann mjög hávær þegar Fréttablaðið kemur kl. 5.45 á morgnana, sem betur fer erum við alltaf vöknuð þá til að sussa á hann, en þetta gæti orðið pirrandi um helgar...
Jæja, núna ætla ég að fara að tæma eins og einn kassa... er orðin svo leið á kössum, af hverju skyldi það vera?


11:28 f.h.
|

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Flutningur nr. 36 alveg að klárast...

Jæja, þá er ég að eignast húsnæði... í fyrsta sinn, kominn tími til! Við fengum lykilinn í gær að íbúðinni okkar og nú er að byrja að mála og sauma gardínur og fleira skemmtilegt. Mamma, þú mátt koma og redda gardínunum, þú þarft ekki að koma með saumavélina, því ég á svoleiðis :-)
Þetta er mjög spennandi allt saman, við erum búin að velja litina á alla veggi, nema eldhúsið sem fær að vera blátt aðeins lengur og baðherbergið sem fær að vera bleikt og blátt (ég er ekki að grínast) þar til við höfum efni á að henda öllu þaðan út. Öll önnur herbergi verða máluð. Veggirnir í svefnherberginu og stofunni eru grænir með bleikum skellum (ekki heldur að grínast núna) og gestaherbergið/skrifstofan mín er dökkbleik. Hvað var fólk að hugsa??
Þegar við verðum búin að mála getum við bara flutt inn... það verður vonandi fyrir eða um helgina. Svo eru allir velkomnir í heimsókn, bara hringja fyrst svo við verðum heima til að taka á móti gestum :-)
Fleiri fréttir hef ég nú ekki, en þetta hlýtur að vera nóg í bili eða hvað? :-)


1:28 e.h.
|

mánudagur, janúar 03, 2005

Gleðilegt ár!

Þá er nýtt ár gengið í garð og ég er heimilislaus! Við erum enn ekki búin að fá svar með íbúðina sem okkur langar í, vonandi gerist það í dag. Núna bý ég heima hjá mömmu kærastans... við erum bara eins og unglingar :-)
Ég flutti burt úr Borgarnesi að mestu leyti síðasta fimmtudag, fyrst fluttum við búslóðina hennar Irisar í bæinn og svo var brunað aftur uppeftir og minni búslóð hent í bílinn. Hún fór líka í bæinn, þar sem enginn staður var fyrir hana á Suðurnesjunum. Í gær fórum við svo í Borgarnes aftur, tókum síðasta dótið, þrifum íbúðina og skiluðum lyklunum. Ég er sem sé alfarin úr nesinu, dótið mitt komið í Breiðholtið og ég sjálf til Njarðvíkur.
Áramótin voru ljúf, við elduðum lambasteik og borðuðum þrjú saman, svo horfðum við á skaupið sem mér fannst bara alveg ágætt, en Elli svaf yfir hluta af því. Hvernig fannst ykkur skaupið annars? Svo horfðum við á flugeldana og skáluðum í alvöru kampavíni á miðnætti. Ég hafði áhyggjur af hvuttanum mínum þar sem mér gafst aldrei tími til að nálgast róandi töflu handa honum. Allar áhyggjur voru þó greinilega óþarfar, því þegar lætin byrjuðu leit hann aðeins upp, setti annað eyrað upp í loftið og fór svo bara að sofa.
Þegar við höfðum horft nægju okkar á flugeldana settumst við niður og horfðum á Stellu í framboði þar til kampavínið var búið. Þá fórum við í langan labbitúr með hundinn, kíktum aðeins við heima hjá vinnufélaga Ella og svo að sofa.
Núna er ég í vinnunni í Reykjavík, komst í vinnuna þrátt fyrir leiðindaveður en hefði verið veðurteppt ef ég hefði enn búið í Borgarnesi. Ég veit ekki hvernig nettengingamál verða hjá mér næstu daga, svo þið skuluð ekki búast við að ég bloggi mjög oft, eða svari tölvupósti um leið og hann berst.
Best að vinna smá...


9:00 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker