mánudagur, mars 21, 2005

Kanaríííííííííííííííííííííííííí

Jæja, hvað haldið þið? Við erum að fara til Kanarí í næstu viku! Við vorum að skoða tilboð frá Plúsferðum til Portúgal og ákváðum að skella okkur, en þá virkaði ekki bókunarvélin á netinu, svo við færðum okkur yfir til Heimsferða og bókuðum okkur þar til Kanarí. Þarna töpuðu Plúsferðir á því að hafa síðuna ekki lagi.
Emil getur náttúrulega ekki komið með, svo við ætlum að skutla honum norður í Sanda á fimmtudaginn, þar sem hann ætlar að hafa það gott í sveitasælunni þangað til við komum aftur heim.
Ég er í sumarfríi í dag, ætla að skreppa í bæinn á eftir og gefa fullt af rauðmaga sem okkur var gefinn í gær. Svo ætla ég náttúrulega að hitta mömmu eitthvað líka, hef ekki séð hana síðan á laugardaginn. Helgin var viðburðarrík, það var stanslaus gestagangur úr öllum áttum... en það var bara gaman.
Núna ætla ég að fara að horfa á vídeó og hafa það gott. Heyrumst síðar.

10:15 f.h.
|

þriðjudagur, mars 15, 2005

Jææææja....

ARG! Þetta var ekki auðvelt! Ég fékk meira að segja tvo aukadómara í málið og það hjálpaði ekki neitt, því enginn var sammála. Ég myndi persónulega vilja veita ykkur öllum verðlaunin, en ég nenni bara ekki að gera fjórar fígúrur :-)
Eftir miklar pælingar og eftir að hafa lesið allar sögurnar fjórum eða fimm sinnum, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Stefanía sé sigurvegarinn (það var samt ekki hún sem var með mútutilburðina). Til hamingju með það frænka!
Gjörið svo vel, hér kemur sagan:

Sagan af Fíu og Theo.

Ég man auðvitað ekki nákvæmlega hvenær þessi saga gerðist, en alla vega var það á tímabilinu milli manna í mínu lífi, þ.e. líklega sumarið 1986. En hvað um það einhvern veginn svona var hún.

Ég tók að mér að passa fyrir Víði og Regínu, hundinn, börnin og gróðurhúsin á meðan þau fóru á Hásefingaskrall, sem var árlegur viðburður á þessum tíma.
Þau bjuggu í Laugarbakkaskóla á neðri hæðinni og Herdís, Pétur og börn á þeirri efri.
Eitt kvöldið, þegar stelpurnar voru sofnaðar og ég og Bogga vinkona mín úr Keflavík, sem var með mér þarna, vorum að slappa af inni í stofu, þá upphefst mikil hundgá – ekki beint gelt, heldur frekar svona „vuuuuuff“ (erfitt að skrifa þetta hljóð). Á eftir þessu hljóði kom eitthvað annað hljóð sem ég þekkti ekki alveg strax svo ég þaut út í stofuglugga og sé þá Fíu, sem hafði sofið vært við útitröppurnar, alla sperrta og áhugasama yfir konu sem hafði komið fyrir húshornið á kvöldgöngu með köttinn sinn. Konan var alveg í ofboði að reyna að ná taki á kettinum sínum sem var svona heldur í úfnara lagi.
Svona fyrir þá sem ekki þekktu Fíu, þá var það það skemmtilegasta sem hún vissi, að stríða köttum.
Nú nú, ég stekk út á svalirnar og kalla á Fíu, sem var auðvitað horfin ásamt konunni og kettinum fyrir húshornið. Ég hleyp inn og í gegnum íbúðina, út og niður tröppurnar, meðfram húsin og heyrði lætin alltaf magnast í Fíu, konunni og kettinum. Sjónin sem blasti við mér þegar ég kom fyrir húshorn nr. 2, þ.e. sá aðalinnganginn í skólann/hótelið, var óborganleg – þar stóð konan, kötturinn var uppi á höfðinu á henni og leit út eins og galdrakettirnir í ævintýrunum, með kryppu og úfið skott og Fía stóð á afturlöppunum með framlappirnar á öxlunum á konunni og trýnið framaní henni og gelti og gelti. Konan baðaði út höndunum og gargaði, kötturinn stóð ofaná hausnum á henni, setti út klærnar og krafsaði í höfuðið á eiganda sínum og þegar ég náði áttum og gargaði á Fíu í ávítunartón þá stökk kötturinn út í loftið, Fía fór niður á fjórar og setti skottið milli afturlappanna og hausinn niður en konan stóð enn með hendur út í loftið, gargandi og blóðið lak niður andlitið.
Í sömu andrá kom Herdís hótelstýra hlaupandi út, því hún heyrði öskrin í konunni og geltið í hundinum og tók hún konuna að sér. Hún flutti hana á Sjúkrahúsið á Hvammstanga þar sem hún var sprautuð við stífkrampa og gert að sárunum á henni en ég fór heim og skammaði Fíu. Fía skammaðist sín ógurlega og tróð sér undir sófaborðið og lét lítið fyrir sér fara. Þegar ég hafði skammast nóg í henni, labbaði ég yfir á hótelið til að vita hvernig gengi en þá heyri ég kallað úti „Theo....“ „Theo minn....“ þar var þá eiginmaður konunnar úti í móa að kalla á köttinn, sem var auðvitað týndur eftir hrellingarnar. Ég hitti Pétur í matsalnum og hann sagði við mig “að það væri best að skjóta helvítis hundinn“ – „Skjóta Fíu“ sagði ég alveg skíthrædd – þá ætlaði hann alveg vitlaus að verða af hlátri – þetta voru sko mín fyrstu kynni af Pétri og ég hélt í einfeldni minni að hann meinti þetta. Hann hefur oft strítt mér á viðbrögðunum síðan.
En Theo kom svo í leitirnar, sem betur fer fyrir Víði og Regínu, því þetta var ekta Síams- verðlaunaköttur úr Reykjavík.... : )

Ég þakka ykkur hinum kærlega fyrir þátttökuna. Þið fáið að lesa hinar sögurnar sem nokkurs konar aukaverðlaun :-)
Nú er bara að byrja að pæla í fígúrunni. Einhverjar hugmyndir Stefanía? Hún getur bæði verið innan- og utandyra… fín við sumarbústaðinn :-)

4:34 e.h.
|

föstudagur, mars 11, 2005

Fööööööstudaaaaaagur....

...og ég er á leiðinni í sveitasæluna. Ég verð á Görðum á Snæfellsnesi um helgina, þeir sem voru með mér á ættarmóti sl. sumar vita vel hvar það er :-) Elli er að fara með hóp á Snæfellsnesið og ég ætla að elta hann. Emil fer sem sé aftur á hótel og hann verður örugglega ekkert fúll yfir því, því það var svo gaman hjá honum síðast.
Horfðuð þið á Desperate Housewifes í gær? Alger snilld... ég ætla sko að fylgjast með þessum þáttum áfram. Annars horfi ég lítið á sjónvarpið þessa dagana, ég á mér eitthvað svo mikið líf núna ;-)
Stefanía, hvernig er það? Á ekkert að koma með söguna? Enn eru bara komnar þrjár sögur í keppnina og ég bíð spennt eftir þinni... sérstaklega til að fá að vita hver Theo er. Og svo mega auðvitað fleiri senda inn sögur og þess vegna margar sögur hver... því fleiri því betra :-) Heiðrún kann engar sögur... en Iris? Hvernig er með þig? Og Regína?
Jæja, ætla að fara að gera eitthvað að viti... vinna eða eitthvað álíka gáfulegt. Hlakka til að sjá hrúgu af sögum í inboxinu mínu á sunnudagskvöldið ;-)
Góða helgi!

10:14 f.h.
|

mánudagur, mars 07, 2005

Vá... langt blogg!

Jæja, eitthvað gekk illa að fá ykkur til að velja efnið. Stefanía stakk upp á dýrasögum, Heiða vildi prakkarasögur og mamma vildi annað hvort, en er greinilega ekki búin að ákveða sig. Svo þá höfum við þetta bara aðeins öðruvísi. Ég leyfi ykkur að velja... annað hvort skrifið þið dýrasögu eða prakkarasögu og besta sagan vinnur. Einfalt og skemmtilegt.
Þá er það hins vegar spurning með mitt loforð... hvort á ég að skrifa prakkarasögu eða dýrasögu? Leysum þá á einfaldan hátt... ég skrifa bara bæði. Gjörið þið svo vel:

Prakkarasaga
Ég var nú reyndar með eindæmum þægt barn og unglingur, en átti þó til að prakkarast aðeins. Ég og vinkona mín sem bjó í sama húsi áttum það til að stríða fólki aðeins, sérstaklega varð nágrannastrákur einn fyrir barðinu á okkur. Við keyptum t.d. einu sinni plat tyggjó, þ.e. það leit út eins og tyggjó, en var verulega ógeðslegt á bragðið. Svo keyptum við tyggjópakka, tókum fyrstu þrjú stykkin úr, settum eitt svona plat ofan í og svo tvö venjuleg ofan á. Svo næst þegar nágrannadrengurinn varð á vegi okkar, fengum við okkur tyggjó og buðum honum svo líka. Aumingja drengurinn varð svo ánægður með að við skyldum gefa honum með okkur að hann tuggði þennan viðbjóð heillengi, þar til hann var kominn með tárin í augun og við sprungum úr hlátri.
En þetta var reyndar ekki prakkarastrikið sem ég ætlaði að segja frá, heldur tókum við okkur til eitt kvöldið að vetri til og ákváðum að gera nokkuð voðalega sniðugt. Þegar ég hugsa til baka núna, orðin aðeins þroskaðri, er ég bara fegin að enginn skyldi slasast við þetta.
Við urðum okkur út um ruslapoka og fórum með hann að göngustíg sem var rétt hjá húsinu okkar. Við lögðum hann á göngustíginn og huldum hann svo með snjó. Svo fórum við í felur og biðum. Ekki leið á löngu þar til unglingsstrákur kom gangandi. Við urðum mikið glaðar þegar við sáum hver þetta var, því hann hafði dundað sér við að stríða okkur í langan tíma. Þegar hann steig á ruslapokann rann hann að sjálfsögðu undan honum, og hann barðist heillengi við að ná jafnvægi aftur. Við urðum mjög svekktar þegar hann náði að forðast að detta á rassinn.
Einhverntíma bundum við líka snæri þvert yfir göngustíginn þar sem mest myrkur var. Eftir langa bið kom manngrey labbandi og var næstum dottinn á hausinn á snærinu. Þegar hann var búinn að sjá hvað þetta var, klofaði hann bara yfir snærið og hélt áfram. Við vorum frekar hissa á að hann skyldi ekki fjarlægja það, því þetta var að sjálfsögðu stórhættulegt.

Dýrasaga
Einu sinni fyrir mörgum árum átti Stefanía frænka kisu að nafni Ingibjörg Túrilla, oftast kölluð Imba. Imba þessi var mikill ljúflingur í alla staði, sérstaklega eftir að hún flutti til Stefaníu, því þann stutta tíma sem hún bjó hjá okkur mæðgum í Keflavík var hún frekar villt. Hún átti það til að fela sig undir sófanum og þegar einhver labbaði framhjá, stökk hún undan sófanum og greip utan um lappirnar á viðkomandi. Einhverntíma var ég að horfa á sjónvarpið og hún lá á sófabakinu fyrir aftan mig. Ég man ekki lengur hvaða mynd ég var að horfa á, en hún var spennandi. Þegar spennan náði hámarki í myndinni, greip kötturinn utan um hausinn á mér með loppunum og hélt fyrir augun á mér. Mér brá ekkert smá!
Einu sinni sem oftar fóru Stefanía og Geiri norður á Laugarbakka til að búa til norðanátt. Þau fengu mig til að líta á köttinn á meðan, þau fóru af stað á fimmtudegi og sögðu að ég þyrfti ekkert að kíkja á köttinn fyrr en á laugardeginum, hún hefði nóg af öllu. Af einhverri ástæðu ákvað ég þó að kíkja til hennar eftir vinnu á föstudeginum. Þegar ég opnaði dyrnar bjóst ég við að Imba kæmi mjálmandi á móti mér, en það bólaði ekkert á henni. Ég fór að kalla á hana og heyrði þá dauft mjálm. Ég kallaði aftur og reyndi að ganga á hljóðið. Eftir nokkra stund var ég komin inn í svefnherbergi og kallaði enn á kisu. Þá heyrði ég mjálm að ofan. Ég leit upp í loftið alveg gáttuð, en sá engan kött. Ég kallaði aftur og heyrði þá að mjálmið kom úr efri fataskápnum. Ég opnaði og þá stökk Imba niður, hljóp þrjá hringi í kringum lappirnar á mér og tók svo á rás inn í þvottahús. Þegar hún var búin að pissa kom hún aftur og strauk sér malandi utan í lappirnar á mér. Ég athugaði skápinn sem hún var í, þar voru sængurfötin geymd, en hún hafði ekkert gert af sér þar inni.
Ég reyndi að lesa Moggann, en Imba var svo skotin í mér að hún lagðist alltaf ofan á blaðið. Það endaði svo með því að hún skreið í fangið á mér og lá þar malandi. Þetta var hún ekki vön að gera svo hún var greinilega ánægð með björgunina.
Rétt áður en ég fór, hringdi Stefanía. Hún spurði hvernig Imba hefði það og ég sagði að hún hefði það fínt, en hefði verið mjög glöð að sjá mig. Svo spurði ég: “En heyrðu, þegar ég fer... á ég þá að setja köttinn aftur inn í skáp?” Stefanía kom af fjöllum og ég sagði henni hvar Imba hefði verið. Þá mundi hún eftir að hafa farið inn í svefnherbergi og opnað skápinn til að taka út sængurföt. Geiri hefði svo sennilega farið þar inn, séð opinn skápinn og lokað honum. Aumingja kötturinn mátti því dúsa þarna í sólarhring og ég er ekki viss um að hún hefði getað haldið í sér mikið lengur.

Jæja... þá er komið að ykkur. Verðlaunin verða ekki af verri endanum... steypukall eða kelling sem verður sniðin að vinningshafanum (er ekki búin að búa hann/hana til). Ef þið vitið ekki hverskonar fyrirbæri þetta er, spyrjið þá Brynju, því hún fékk svoleiðis konu frá mér í fyrra. Ég á líka myndir af þeim tveimur sem ég hef búið til, svo ef þið viljið sjá, sendið mér bara tölvupóst og ég sendi mynd til baka.
Skilafresturinn já! Er ekki bara best að allir verði búnir að skila næstkomandi mánudagskvöld, 14. mars. Þá mun ég lesa sögurnar og birta svo þá bestu á þriðjudaginn. Að sjálfsögðu verð ég ein í dómnefndinni og mútur eru leyfðar, hehehe... nei nei, ég verð sanngjörn :-)
Farið nú að pikka... ég hlakka til að lesa sögurnar. Sendið þær svo á þetta netfang.

2:37 e.h.
|

fimmtudagur, mars 03, 2005

Sögu vil ég segja stutta...

Í dag er fimmtudagur, sólin skín og starrarnir syngja á þakinu. Ég get greinilega hlakkað til allra flóabitanna í sumar... jey!
Það komu nú lítil viðbrögð við óskum mínum um tillögur að efni í sögukeppni. Kannski hafið þið engan áhuga á að skrifa fleiri sögur. En mér er alveg sama, ég ætla samt að láta ykkur hafa lista til að kjósa um. Hvaða efni í sögukeppni líst ykkur best á? Svara í kommentunum takk :-)

Dýrasögur
Ferðasögur
Hrakfallasögur
Mömmusögur
Prakkarasögur

Til að fá ykkur kannski frekar til að kjósa ætla ég hér með að lofa einu. Ég mun skrifa og birta sögu í þeim flokki sem þið veljið. Síðan hefst keppnin á milli ykkar og að venju verða verðlaun í boði.
Stefnan er að birta mína sögu næsta mánudag, svo þið hafið helgina til að kjósa.

3:29 e.h.
|

þriðjudagur, mars 01, 2005

...og nú er hún búin!

Unaðarnes... yndislegt! Grilluðum silung og lamb, spiluðum, átum, drukkum, sváfum, sulluðum í pottinum og ýmislegt fleira skemmtilegt....
Svo þegar helgin var að verða búin var pakkað niður og haldið heim á leið, með smá viðkomu í öðrum sumarbústað, ekki mjög langt frá Geira og Stefaníu Hraundal. Því miður gafst ekki tími til að kíkja til þeirra í þetta sinn, því við þurftum að sækja litla prinsinn á hótelið. Kíkjum næst Stefanía... ég lofa :-)
En hvað segið þið... fer ekki að koma tími á nýja sögukeppni?? Mig vantar bara hugmynd að efni... allar hugmyndir vel þegnar, ef ykkur dettur eitthvað í hug sendið mér endilega póst á þetta netfang.
Jæja, er farin að sjóða bjúgu. 17 dagar þar til mamma kemur... jibbí!

11:14 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker