miðvikudagur, september 28, 2005

Klukk!

Fimm ónauðsynlegar upplýsingar um mig:
1. Mér er illa við geitunga og kóngulær
2. Það er drasl á skrifborðinu mínu
3. Mér finnst allir íslensku þættirnir á Skjá einum leiðinlegir
4. Ég gleymdi að tannbursta mig í gærkvöldi
5. Ég sé 6 ljósastaura út um gluggann á skrifstofunni minni
Þar hafið þið það :-) Hverjum datt eiginlega þetta klukkdæmi í hug?


Lítið að frétta núna, er bara búin að vera á kafi í vinnu til að klára allt áður en ég fer í fríííííííí! Við förum til Lanzarote á þriðjudaginn og hlökkum ekkert lítið til.
Um síðustu helgi fór ég í steinanudd hjá Irisi á Nordica og það var meiriháttar notalegt. Ég er sko alveg til í svona aftur! Mæli eindregið með að allir prófi þetta, kostar slatta en er sko alveg þess virði.
Á heimleiðinni lenti ég svo í smá ævintýri. Það voru tveir hestar á Reykjanesbrautinni, bara að rölta þar í rólegheitunum. Ég lenti sem sé á hestaveiðum ásamt nokkrum öðrum vegfarendum og fjórum lögregluþjónum. Klárarnir náðust eftir smá eltingaleik og svo stóðum við þarna eins og glópar með tvo hesta og vissum ekkert hvað við áttum að gera við þá. Ég lét mig nú hverfa áður en niðurstaða var komin í málið, svo ég veit ekki hvernig þetta endaði. Kannski standa löggurnar ennþá utan við veg með hestana :-)

Við skutluðum nagladekkjunum undir bílinn í fyrradag. Heiðrún fær nefnilega bílinn lánaðan á meðan við erum úti, og betra að hafa hana vel dekkjaða þar sem hún ætlar sennilega að skreppa norður í hríðina.
Jæja, farin að vaska upp.

4:59 e.h.
|

fimmtudagur, september 22, 2005

Langt blogg fyrir Irisi

Jæja, nú hlýtur að vera kominn tími á blogg, kominn rúmlega hálfur mánuður síðan síðast! Reyndar hef ég nú ágætis afsakanir fyrir þessu, en ætla ekkert að vera að gefa þær upp á opnum vef.
Um síðustu helgi fórum við hjónin í óvissuferð með vinnustað Ella, SBK. Haldið var af stað frá Keflavík í blíðskaparveðri um hádegi á laugardag og keyrt austur fyrir fjall. Þar var stoppað á Ingólfshvoli og farið í survivor leik í reiðhöllinni þar. Keppt var í hinum ýmsu greinum, t.d. koddaslag, þrífætlingahlaupi (er enn marin á öklanum eftir bandið og á hinni löppinni eftir að stingast á hausinn), karokae og reiðmennsku með bjór í hendi. Að vísu var bjórinn í lokaðri dós, sem betur fer því annars hefði reiðleiðin eflaust orðið eitthvað skrítin. Mitt lið varð í öðru sæti í þessari skemmtilegu keppni, en það er kannski ekki merkilegur árangur þar sem liðin voru bara tvö.
Eftir keppnina var haldið áfram á Selfoss þar sem fólk fékk að fara í sjoppu og búðir ef þurfti. Því næst var keyrt á Hellu og þar fengu allir lykla að herbergjum í litlum parhúsum niðri við á. Rosa fín aðstaða þarna, tveggja til þriggja manna herbergi með baði og eldhúsi.
Eftir nokkra bjóra var farið í gönguferð yfir Rangánna og kíkt í helli sem þar er. Þar var búið að kveikja á tugum kerta og tekið á móti okkur með harmonikkuspili og söng. Allir fengu snafs og svo sungum við saman áður en haldið var til baka.
Um kvöldið var svo þríréttaður kvöldverður með víni í boði fyrirtækisins og var það mjög flott í alla staði. Við hjónin slepptum að vísu eftirréttinum þar sem Elli var orðinn þreyttur eftir alla vinnuna undanfarið. Mér var alveg sama þar sem ég er, eins og sumir vita, ekki eftirréttamanneskja. Við fórum sem sé að sofa fyrir kl. ellefu en vöknðum líka eldhress morguninn eftir til að halda heim á leið. Ekki voru allir eins hressir og við, enda höfðu margir skellt sér á réttarball og svo í partý fram á morgunn.
Þegar við komum til Keflavíkur keyrðum við aftur í bæinn til að sækja Emil, en hann hafði verið í góðu yfirlæti hjá ömmu og afa um helgina. Hann var mjög glaður að sjá okkur og amma og afi sögðu að hann hefði verið mjög þægur. Ég dró þá upp hundanammi og rétti honum og þar sem hann er svo vel upp alinn tók hann ekki við því fyrr en ég sagði honum að gjöra svo vel. Amma rak þá upp stór augu og sagði: “Þess vegna vildi hann ekki ostinn!” Hún hafði sem sé rétt honum ostbita, hann beið eftir leyfi til að éta hann, en amma skildi ekki neitt í neinu og henti ostbitanum... Emil eflaust til mikillar furðu :-)
Í gær fór ég svo með hvutta til dýralæknis (Magnúsar á neðri hæðinni... manstu eftir honum mamma?) til að fá bólusetningu og ormalyf. Emil hefur alltaf fundist rosalega gaman að fara til dýralæknis, og hann knúsaði lækninn vel og lengi. Dýralæknirinn var voða hrifinn af honum og sagði að það væri nú gott ef að allir hundar væru eins vinalegir og hann. Svo gaf hann honum nammi á eftir og varð náttúrulega hissa þegar Emil tók ekki við því fyrr en ég sagði honum að gjöra svo vel :-)
Nú er bara vika þar til Heiðrún kemur heim... jibbí! Hún ætlar að taka að sér hundinn og bílinn og jafnvel íbúðina á meðan við verðum úti. Nema hún fái vinnu allt í einu, þá verður hún bara að skreppa norður með hvutta. Fínt að fá hundaþjálfara til að passa hundinn sinn í þrjár vikur :-) Þar sem færðin hefur nú verið frekar slæm síðustu daga ætlum við að setja vetrardekkin undir áður en við förum út svo Heiðrún lendi ekki út í móa einhversstaðar.
Talandi um hálku... af hverju er alltaf sagt í fjölmiðlum þegar einhver skautar út í móa eða á aðra bíla að hálku hafi verið um að kenna?? Það er ekkert hálkunni að kenna... bara bílstjórunum sem keyra ekki eftir aðstæðum!
Og annað í fjölmiðlum sem hefur mikið pirrað mig síðustu daga; þegar verið er að tala um fellibylina í Ameríku er alltaf talað um vindstyrkinn í kílómetrum. Það segir mér bara nákvæmlega ekki neitt að vindhraðinn sé 220 kílómetrar á klukkustund! Nenna fréttamenn virkilega ekki að breyta tölunum í metra á sekúndu?? Það er svo einfalt að gera það, bara fara á þessa síðu og slá inn kílómetratöluna, smella svo einhversstaðar og voila! 220 km/klst. eru 61 m/sek... einfalt, fljótlegt og fræðandi :-)

12:19 e.h.
|

miðvikudagur, september 07, 2005

Pirr

Af hverju lætur maður stundum smáatriði fara í taugarnar á sér? Til dæmis núna um helgina, þá lét ég það ekki pirra mig á laugardagskvöldið þó við hjónin værum gagnrýnd fyrir aldursmuninn á okkur, ég sat á mér þegar ég var spurð af hverju ég ætti ekki börn og fékk svipinn sem alltaf fylgir þegar ég svara að ég vilji það ekki, ég lét það sem vind um eyru þjóta þegar mér var sagt 400 sinnum að ég ætti að borða hákarl þó ég kúgist af honum því hann sé svo hollur... en þegar ég komst að því að við ættum að sofa á einbreiðri dýnu þá fauk í mig! Sennilega hefur þetta verið einhver uppsöfnuð gremja sem braust þarna út. Sennilega var það þetta með barneignirnar sem var að pirra mig. Svipurinn sem ég fæ þegar ég segist ekki vilja eiga börn segir nefnilega: “Þú ert stórundarleg því allar konur vilja eiga börn!” Af hverju er þetta viðhorf í gangi í þjóðfélaginu? Af hverju eiga allar konur að vilja eiga börn? Mér finnst það bara gott mál að flestar konur vilji það, en mér finnst ekkert að því að sumar vilji það ekki. En við, þessi minnihlutahópur, verðum sífellt fyrir aðkasti út af þessu vali okkar.
Svo koma stundum rökin með að viðhalda mannkyninu, því það er víst skylda allra kvenna... af hverju? Hefur fólk virkilega ekki heyrt um offjölgun mannkynsins? Það á kannski frekar við úti í heimi en hér á skerinu. Og þó... kannski mannekla á leikskólum sé ekki bara út af lágum launum... kannski eru börnin bara orðin of mörg?
Nóg komið af pirringi... annars var helgin bara virkilega skemmtileg. Við fórum norður á föstudeginum og beint í mikið fjör á Söndum. Okkur til mikillar furðu þekkti Elli eiginlega fleira fólk þar en ég... sniðugt.
Emil fór að sjálfsögðu með í sveitina og sættist við tíkina. Hún sýndi honum að vísu til að byrja með hvað hún hefði flottar hvítar tennur en svo þegar hann var búinn að hrósa tanngarðinum hennar tók hún hann í sátt. Sonur hennar var hins vegar svo rosalega skotinn í Emil að hann riðlaðist stanslaust á honum og var alveg sama hvor endinn sneri að honum. Emil reyndi að setjast niður en hvolpinum var sko alveg sama um það.
Á laugardaginn var svo brunað í réttirnar og þar gengum við um, hittum fólk og fé og drógum nokkrar skjátur (meira að segja Elli dró helling þó þetta væri í fyrsta sinn sem hann kom í fjárréttir). Veðrið var ótrúlegt, logn og hlýtt... nokkuð sem gerist nú ekki oft í Húnaþingi vestra. Emil skemmti sér ágætlega laus til að byrja með en þegar hann fór að gelta á hesta þorðum við ekki annað en að hafa hann í taumi til að hann myndi nú ekki fæla undan einhverjum gangnamanninum. Hann hitti móðurbróður sinn þarna og sennilega er hvuttinn minn mjög sexý því frændinn riðlaðist stanslaust á honum þar til Emil sýndi honum tennurnar :-)
Þegar flestar kindurnar voru komnar í sína dilka héldum við aftur heim að Söndum. Þar var svo þvílík veisla og fullt af fólki. Svo þegar leið á nóttina héldum við Elli yfir á Laugarbakka þar sem við fengum svefnpláss í tvíbreiðu rúmi. Elli kíkti aðeins upp á ballið en ég fór beint undir sæng og svaf fram eftir morgni.
Eftir morgunverð hjá Regínu skruppum við svo yfir í Fitjárdal fyrir Heiðrúnu og svo brunuðum við suður. Tókum rándýrt bensín í Staðarskála, stoppuðum svo í Baulu til að borða og mælum eindregið með því, góð þjónusta, góður matur og fín aðstaða.
Ef þið viljið sjá myndir úr réttunum þá skuluð þið smella hér. Þarna má líka finna mynd af honum Jóhannesi hennar Regínu, það er sko fínn kall! :-)

1:02 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker