fimmtudagur, september 30, 2004

Fimmtudagur í Borgarnesi

Það er hálf skrítið að sitja við tölvuna hér heima á fimmtudegi, en vera ekki í Reykjavíkurskrifstofunni. En lekinn á skrifstofunni minni hefur enn ekki verið lagaður, svo ég fer ekkert í bæinn... fyrr en á mánudaginn þegar ég fer til að sækja Irisi, jibbí!
Ég fékk skrítið bréf í vikunni, þar sem mér var þakkað fyrir mitt framlag til Borgfirðingahátíðar í júní sl. Mér finnst þetta merkilegt því ég veit ekki til þess að ég hafi lagt neitt að mörkum til þessarar hátíðar, vissi ekki einu sinni af henni fyrr en hún var næstum búin. Mig grunar hins vegar að alnafna mín í Borgarnesi hafi kannski átt að fá þetta bréf, svo ég hugsa að ég trítli með það til hennar einhvern daginn, svo þessar kæru þakkir komist til skila. Þetta er svo sem ekki í fyrsta sinn sem okkur frænkunum er ruglað saman, ég á nokkrar skemmtilegar sögur af því :-)
Langþráð mánaðarmót eru að skella á, og það stóð til að við Ásta héldum upp á þau (fólk heldur upp á mánaðarmótin des-jan, af hverju ekki sep-okt?). En sennilega verður ekkert úr þessum hátíðarhöldum, svo það er þá bara ein róleg helgin enn framundan hjá mér. Það eru ekki allar helgar svo villtar að maður endi með skyr á bakinu sko...
Ég fékk símtal frá skrifstofu Borgarbyggðar áðan og mér var sagt að merkiplatan hans Emils væri loksins komin. Emil fékk undanþágu frá hundabanninu 5. ágúst sl. og ég var orðin hálf þreytt á að bíða eftir blessuðu merkinu. Allan þennan tíma hefur litli hvuttinn minn litið út fyrir að vera ólöglegur og ég hef fengið í magann í hvert sinn sem löggan keyrir framhjá, en núna er þetta allt á réttri leið. Ég notaði tækifærið líka á þriðjudaginn þegar ég kvartaði yfir merkisleysinu og benti á að ruslið hefði ekki verið tekið hjá mér í mánuð, og þeir lofuðu að bæta úr því. Enn hefur það þó ekki verið tekið, svo það er ekki góð lyktin bakvið húsið mitt :-( En það er samt gott að búa í Borgarnesi :-)


11:55 f.h.
|

mánudagur, september 27, 2004

Hollywood

Við Emil brunuðum í bæinn í morgun, hann fór á leikskólann og ég í vinnuna. En minn vinnudagur varð mjög stuttur, því ég stoppaði bara í rúman klukkutíma og tók ekki einu sinni tölvuna upp úr töskunni. Loftið í skrifstofunni minni hafði nefnilega hrunið niður á gólf og dreift vel úr sér þar. Ástæðan fyrir þessari hegðun er raki sem ég er búin að kvarta yfir síðan stofnunin flutti í nýja húsnæðið í júní. Ég komst líka að því í dag að ég hef ofnæmi fyrir loftplötumauki og varð öll rauðflekkótt og klæjaði út um allt. Þegar ég var orðin fallega jarðarberjalit sendi forstöðumaðurinn mig heim og ég bætti um betur og sagðist ekki mæta fyrr en skrifstofan mín verður orðin hrein og þurr og engin hætta á loftárásum.
Ég sótti Emil snemma á leikskólann og eyddi klukkutíma þar í að tala við sætu hundafóstrurnar (karlkyns), svo fórum við (ég og Emil, fóstrurnar urðu eftir) í heimsókn til ömmu og afa áður en við fórum heim.
Á heimleiðinni ákvað ég að keyra Hvalfjörðinn þar sem veðrið var svo frábært, en tafðist í klukkutíma á leiðinni þar sem Baltasar Kormákur var að búa til bíómynd með fullt af amerískum bílum og frægum stjörnum og gulum miðjulínum. Nú verð ég sem sé að sjá þessa blessuðu mynd :-)
Þegar heim var komið skemmti ég mér við að skipta um blöndunartæki í sturtunni (alein, svo dugleg) og nú hlakka ég til næstu sturtu... oooh hvað það verður gaman. Vill einhver koma með? Nei, þetta var nú bara spaug... það fær sko ekki hver sem er að koma með mér í sturtu ;-)



8:46 e.h.
|

föstudagur, september 24, 2004

Píparinn

Nú er mér loksins orðið hlýtt. Píparinn (sem var hvorki ber að ofan né með skoruna sýnilega) kom í gær og skipti um eitthvað og þá tóku ofnarnir aldeilis við sér og fóru allir á fullt. Núna er hlýtt og gott hér inni hjá mér, og ég þarf ekki lengur að vera í peysu og undir teppi. Ég þurfti sem sé ekki að ræna píparanum (sem ég vona innilega að rekist aldrei á þessa síðu) og hafa hann í rúminu hjá mér í nótt, eða barninu hinum megin við götuna. Ég gat bara sofið alveg alein og það er langt síðan ég hef sofið svona vel... alveg þangað til ég vaknaði við kolvitlaust óveður kl. hálf átta í morgun.
Emil fór á leikskólann í gær og var allan daginn. Hann skemmti sér víst alveg prýðilega, svo vel að hann át ekkert af matnum sínum. Hvort hann er í megrun til að ganga í augun á stelpunum, eða hvort hann var í hungurverkfalli veit ég ekki. Hann tók reyndar vel til matar síns í gærkvöldi þegar við komum heim og aftur í morgun, svo ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Enda er drengurinn í ágætum holdum og má alveg við smá pásum í mataræðinu. Það er eins gott að fólk viti að Emil sé hundur, annars gæti þetta hljómað dálítið illa ;-)
Helgin framundan... og ekkert spennandi á dagskránni. Hvað með ykkur?

1:52 e.h.
|

fimmtudagur, september 23, 2004

Karlmannslaus í kulda og trekki...

Núna er ég stödd í Reykjavíkurskrifstofunni minni og er að fara á taugum þar sem byggingin hoppar reglulega. Það er verið að sprengja fyrir grunni hérna hinum megin við Borgartúnið og það fylgja því nokkrir jarðskjálftar á hverjum klukkutíma.
Í hádeginu fór ég út að borða með móður- og föðursystur minni, og svona fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er það ekki ein og sama manneskjan.... enda væru foreldrar mínir þá systkini, og þó það myndi kannski skýra ýmislegt með mig, þá er það nú ekki raunin :-) Við frænkurnar fórum á salatbarinn á Hótel Cabin og hámuðum þar í okkur bráðhollt grænmeti... en ekkert blómkál.
Mér er rétt að hlýna núna eftir nóttina. Ofnarnir á neðri hæðinni í íbúðinni minni hafa verið mjög hæverskir hingað til og ekki verið að halda mér neitt of heitri, svo ég var nú farin að pæla í að hringja í pípara til að láta vekja þá til lífsins. Í gærkvöldi heyrði ég svo að það var einhver að eiga við ofnana í íbúðinni við hliðina, og hugsaði sem svo að fyrst þetta væri svona í öllu húsinu, þá hlyti einhver að vera að laga þetta. En nei... þetta fikt í næstu íbúð varð nú bara til þess að hitinn fór af öllum ofnum á báðum hæðum hjá mér. Nóttin var kaldari heldur en í tjaldútilegunum í sumar og ég mátti sofa fullklædd. Það var meira að segja svo kalt að ég var farin að óska þess að það væri karlmaður í rúminu hjá mér! Og það gerist nú ekki oft... Emil gerði nú reyndar nokkuð gagn með því að liggja ofan á löppunum á mér... en það var nú ekki alveg nóg. Ég ætla því að fara frekar snemma heim til að taka á móti píparanum... og ég ætla rétt að vona að hann geti lagað þetta í kvöld, því það er ekki hægt að búa við svona kulda lengi. Og fyrst það er að koma pípari í heimsókn ætla ég að láta hann laga blöndunartækin í sturtunni í leiðinni, því sturtuferðir geta orðið ansi ævintýralegar...



2:21 e.h.
|

miðvikudagur, september 22, 2004

Töffarinn


Posted by Hello

Góðan dag!
Jæja, þá er Emil búinn að fara í hundaleikskólann í aðlögun í hálfan dag og svo var hann eftir hádegi hjá ömmu og afa, rosa gaman. Hann var svo duglegur í leikskólanum að hann má vera allan daginn á morgun. Honum leist nú reyndar ekki alveg á þetta í byrjun, setti upp rosa kamb og urraði þegar hann heyrði geltið í hinum hundunum og fann alla hundalyktina. Svo hitti hann rosalega feimna tík undir borði, og þá fór honum að finnast þetta alveg ágætt bara. Svo er hann orðinn svo stór að hann fékk fullorðinshálsól á mánudaginn og núna er hann rosa töffari eins og myndin sýnir :-)
Fleira spennandi hefur nú ekki gerst hjá okkur, nú er það bara vinna vinna og meiri vinna, brjálað að gera í vinnunni minni aldrei þessu vant. En það er nú líka bara ágætt, ég veit ekkert eins leiðinlegt eins og að hafa ekkert að gera.
Ég er alltaf að telja dagana þar til Iris kemur heim, nú eru bara 12 dagar þangað til... jibbí! Var að tala við hana á msn í gær og fékk að sjá Víði og mömmu gægjast í vefmyndavélina líka. Það er sniðugt apparat, ég mæli með að allir fái sér svoleiðis... og gefi mér eitt stykki líka ;-)
Jæja, verð að halda áfram að vinna, hættið að tefja mig...

12:22 e.h.
|

sunnudagur, september 19, 2004

Billjard og búst

Þá er kominn sunnudagur og nokkuð skemmtileg helgi að verða búin. Við Emil skruppum norður í land á föstudaginn, fórum í heimsókn að Mýrum þar sem Kalli skipti um olíu á bílnum mínum og ég uppfærði tölvuna hans í staðinn. Um kvöldið fór ég í heimsókn til Brynju, og við frænkurnar skunduðum á Þinghúsið og ætluðum nú aldeilis að djamma þar. Þegar þangað var komið leituðum við lengi um allt hús að fólki, en fundum bara fjóra unga pilta sem voru að spila billjard. Við spiluðum við þá og við hvor aðra, og Brynja sigraði hvern leikinn á fætur öðrum... mætti halda að mamma hennar hafi átt þetta borð og Brynja fengið að æfa sig eitthvað :-) Þegar við urðum leiðar á þessum leik, fengum við einn piltinn til að skutla okkur heim á Laugarbakka og þar fengum við okkur búst, og fórum að sofa.
Við Emil brunuðum svo aftur í nesið í gær og höfðum það gott í sófanum fram eftir kvöldi... hann steinsofnaði reyndar fljótlega, enda fékk hann að gista á Mýrum og hefur örugglega verið upptekinn alla nóttina við að leika við Slaufu, henni eflaust til lítillar gleði.
Á morgun byrja ég aftur í vinnunni eftir þetta stutta sumarfrí og Emil fer með mér í bæinn og verður á hundaleikskóla á meðan ég er í vinnu. Vonandi gengur það vel, svo hann þurfi ekki alltaf að vera einn heima þegar ég fer í bæinn. Enda vil ég ekki endalaust þurfa að níðast á ættingjunum hér í nesinu, þó þau hafi verið einstaklega hjálpsöm.

2:11 e.h.
|

miðvikudagur, september 15, 2004

Sumarfrí

Þá er kominn miðvikudagur og sumarfríið mitt og Emils langt komið. Þessi tími er nú ekki búinn að vera mjög viðburðaríkur, en ég er þó búin að koma upp gardínum í svefnherberginu svo ég blasi ekki við nágrönnunum lengur þegar ég striplast um á kvöldin :)
Ég er líka komin vel á veg með verkefni sem ég setti mér að klára í fríinu, en ég ætla ekki að gefa upp hvað það er, nánustu ættingjar fá bara að sjá það um jólin :) En þetta er mjög skemmtilegt verkefni, ég hló mikið í gær og Emil var farinn að stara á mig stundum...
Í gær las ég alveg frábæra bloggsíðu, með mjög fyndnum sögum. Þeir sem vilja skoða geta smellt hér. Ég vildi að ég gæti skrifað svona :)
Jæja, farin í sturtu... svo með hvuttann yfir á Seleyri, svo að vinna í allt kvöld... fjör :)


1:59 e.h.
|

laugardagur, september 11, 2004

Laugardagur

Þá er ein helgin enn komin, og ég er komin í sumarfrí! Við Emil ætlum bara að hafa það gott næstu daga, ekki fara neitt nema kannski í hlýðniæfingar eitthvað út fyrir bæinn... og svo náttúrulega í marga marga göngutúra.
Það hefur nákvæmlega ekkert gerst spennandi hjá mér í vikunni, bara vinna og aukavinna og sjónvarpsgláp þess á milli. Fór meira að segja í rúmið kl. hálf ellefu í gærkvöldi, því ég hafði bara ekkert annað að gera. Ætlaði reyndar að horfa á Blue Velvet á skjá einum, en fannst það nú frekar ömurleg mynd, svo ég slökkti bara og fór að lesa Napóleonsskjölin... Arnaldur klikkar ekki. Emil vakti mig svo með kossi á hálsinn klukkan hálf ellefu í morgun, voða sætt :)
Í dag stendur svo til að þrífa og taka til, þvo þvott og fleira álíka skemmtilegt. Það eru allir velkomnir að koma og taka þátt í fjörinu :)
Smá viðbót í barna/hundaumræðuna hér um daginn. Las athyglisverða grein í DV í vikunni. Þar var sagt frá rannsókn sem sýndi að greind fólks minnkar við að eignast börn! Var ekkert minnst á að hún minnkaði við að fá sér hund..... ;-)


1:13 e.h.
|

þriðjudagur, september 07, 2004

Mamma bloggar

Gleymdi einu í morgun... eins og sést hér til hliðar er mamma mætt í bloggheima. Velkomin mamma :-)

2:43 e.h.
|

Bjórinn

Jæja, þá er helgin að baki og alvara lífsins tekin við aftur. Bjórþambið gekk alveg prýðilega, Ásta bannaði okkur hinum að fara út fyrr en bjórinn kláraðist, en okkur tókst þó að laumast út áður en ísskápurinn tæmdist. Þá var skundað á ball á Búðarkletti með smá viðkomu heima hjá mér til að vinda hundinn.
Þetta var alveg ágætt ball, skemmtileg tónlist og mátulega mikið af fólki. Við dönsuðum mikið og börðum af okkur karlmennina, sem voru bara þónokkuð ágengir... sumir hverjir.
Á sunnudaginn vorum við Emil voða löt, láum bara í sófanum og horfðum á vídeó. Í gær var það svo Reykjavíkurferð hjá mér og svefn hjá hvutta, með viðeigandi fjöri í gærkvöldi. Við fórum í langan göngutúr í rigningunni fyrir svefninn og það varð til þess að ég fékk bara óvenju mikinn svefn í nótt :-) Næsta fimmtudag verður hann svo sennilega einn heima svona lengi í síðasta sinn, því í næstu viku er ég að hugsa um að vera í sumarfríi, og í vikunni eftir það byrjar hann í hundaleikskólanum, og fer þá með mér til Reykjavíkur.
Talandi um sumarfríið... hefur einhver tillögu um í hvað ég á að eyða því? Ég er nefnilega að taka frí aðallega til að sleppa við tvær Reykjavíkurferðir... er nefnilega pínu blönk... en allar tillögur verða vel þegnar. Má bara ekki kosta neitt :-)
Nú eru bara 27 dagar þar til Iris kemur heim... rosalega hlakka ég til :-) Það verður gaman að fá litlu systur í nesið.

11:20 f.h.
|

föstudagur, september 03, 2004

Réttir

Þá er kominn föstudagur... loksins. En hann verður frekar í lengra lagi hjá mér, því ég fer að vinna í Hyrnunni klukkan fimm. 14 tíma vinnudagur sem sé, en það er bara ágætt. Ég er eiginlega alveg hætt við að fara í réttir, svo þá getum við Emil sofið út í fyrramálið. Það er það besta við þennan hund minn, hann er rosalega duglegur að sofa út með mér :)
Einhver misskilningur virðist vera innan Norðvesturlandsdeildar fjölskyldunnar um að ég hafi verið að bræða með mér hvort ég ætti að fara á réttarball eða ekki. Það stóð aldrei til, eins sjá má á eldri bloggum. Það eru bara réttirnar sjálfar sem ég er að pæla í, kvöldinu var ég þegar búin að lofa í annað. Ásta vinkona mín er með fullan ísskáp af bjór sem ég er búin að lofa að aðstoða hana við að losa sig við. Miðað við afrek síðustu vikna í bjórþambi ætti ég alveg að geta komið í mig eins og tveimur bjórum, ef ég gef mér nógu langan tíma í verkið ;)
Ég vil þakka þeim innilega sem reynt hafa að bjóða mér mat og gistingu til að ég komi á ball, og sérstaklega vil ég þakka heiðurinn af að fá að borga tvöfalt inn á ballið, en ég verð að eiga þetta inni hjá ykkur fyrir þorrablótið :)
Gissur afi á afmæli í dag, er 82 ára, og óska ég honum innilega til hamingju með það. Reyndar finnst mér ósennilegt að hann lesi þetta, svo sennilega verð ég að hringja í hann til að hamingjuóskirnar skili sér. En það er líka allt í lagi, alltaf gaman að spjalla við afa :)

1:47 e.h.
|

fimmtudagur, september 02, 2004

Reykingar

Þá er fyrsta vinnudegi í Hyrnunni lokið og líður brátt að næsta... Það var nú bara alveg ágætt að komast í vinnu sem er gerólík aðalstarfinu mínu. Ég afgreiddi fjöldann allan af pylsum og ís... það sem fólk getur étið! Það eina sem ég sé að geti orðið vandamál við þetta starf eru reykingarnar. Ég sem er ofurviðkvæm fyrir sígarettureyk reyni yfirleitt að forðast hann, en í Hyrnunni er það bara ekki hægt. Þó ég sé ekki inni í reykkofanum sjálfum þá á reykur það nefnilega til að vera ekki alltaf bara þar sem hann á að vera, hann þvælist um allt. Ég stóð sem sé í sjoppunni í fimm tíma í gærkvöldi og reykurinn var alltaf að koma og heilsa upp á mig. Þetta olli því að í morgun vaknaði ég með sáran háls, mikinn hósta, stíflað nef, bólgin augu og hausverk frá helvíti. Og nei... ég er ekki með kvef. Ég er hins vegar búin að semja um að fá að vera meira í búðinni en í sjoppunni, svo ég vona að þetta verði ekki vandamál í vetur. Annars verð ég bara að hætta í Hyrnunni og sækja um á Shell, þar sem reykingar eru bannaðar :)
Ég vil nota tækifærið og bjóða Heiðrúnu systur velkomna í bloggheima. Hennar blogg má lesa hér. Velkomin litla systir :)
Ég var að fá sms frá Heiðu og hún var að spyrja hvort ég væri komin með kall! Ég bjóst við því að nú væri komin einhver krassandi kjaftasaga, en þá var þetta bara af því að ég fékk happdrættismiða stílaðan á einhvern gaur á Hvammstanga og snillingarnir á pósthúsinu þar strikuðu yfir heimilisfangið hjá honum og skrifuðu mitt... veit ekki af hverju, veit ekki einu sinni hvaða gaur þetta er :) Ég bað Heiðu að segja þeim á pósthúsinu að ég muni láta þær vita ef ég fæ mér kall, þangað til vilji ég bara fá minn póst :)
Það var eitthvað rosalega merkilegt sem ég ætlaði að skrifa hérna núna, en ég man bara alls ekki hvað það er... svona er ellin. Svo ég hætti bara núna... Ciao


4:47 e.h.
|

miðvikudagur, september 01, 2004

Við heimtum aukavinnu...

Þá er ég búin að ráða mig í aukavinnu í Hyrnunni, allavega tvö kvöld í viku, það verður nú ábyggilega bara ágætis tilbreyting. Og ekki verra að fá smá aukapening líka...
Hér hafa verið líflegar umræður á kommentunum hvort er betra að eiga hund eða börn. Fólki er velkomið að rökræða það áfram, alltaf gaman að taka þátt í rökræðum og fylgjast með þeim :)
Ég er að velta fyrir mér hvort ég eigi að fara norður um helgina í réttirnar eða ekki. Ég veit það yrði rosa gaman að fara, en samt er ég einhvernveginn ekki að nenna því. Skrítið, því ég hef ekki sleppt réttum síðan.... ja, ég man ekki hvenær. Ég veit ég komst ekki haustið 1988... Ég ætla að athuga í dag hvort litli bróðir vilji fara, og þá fer ég kannski með hann. En ball fer ég ekki á, sama hvað hver segir.
Eins og fólk hefur séð á blogginu hennar Katrínar, þá er Iris að koma heim... JIBBÍ! Það finnst mér sko ekki leiðinlegt, sérstaklega þar sem hún ætlar að búa hjá mér í einhverjar vikur á meðan hún kemur undir sig fótunum. Verður ekki slæmt að hafa nuddara á heimilinu :)
Nú ætla ég að hætta þessu bulli í bili, og reyna að gera eitthvað af viti í vinnunni...

11:22 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker