föstudagur, október 28, 2005

Ferðasaga frá Lanzarote

Við erum komin heim í frostið og rokið og snjóinn! Búin að eyða þremur vikum á yndislegum stað undan ströndum Afríku. Veðrið var meiriháttar, sól og um 30 stiga hiti næstum allan tímann. Það ringdi reyndar fjórum sinnum, tvisvar að degi og tvisvar að nóttu, og var það bara ágæt tilbreyting fyrir utan það að rigningunni fylgdu moskítóflugur. Þær, eins og önnur skordýr, eru greinilega mjög hrifnar af okkur, því við komum heim með 28 bit hvort :-)
Fyrsta vikan fór í labb um bæinn. Við skoðuðum okkur vel um, röltum meðfram ströndinni (stigum reyndar aldrei fæti í sandinn allan tímann), skoðuðum smábátahöfnina, gáfum fiskunum, fundum apótekið, versluðum í Nettó og eignuðumst gæludýr á svölunum okkar. Hann fékk nafnið Benjamín og eftir þriggja vikna brauðát var hann orðinn ansi feitur og frekur.
Í viku tvö leigðum við okkur bíl í fjóra daga til að skoða eyjuna. Við komumst fljótt að því að fjórir dagar voru allt of mikið því eyjan er ekki mikið stærri en Reykjanesskaginn... og landslagið nánast eins líka. Fyrsta daginn skoðuðum við vínræktarhéraðið. Þarna eru grafnar holur í sandinn, ein hola fyrir hverja vínviðarplöntu og hlaðnir veggir meðfram holunum. Rakinn frá sjónum safnast í holurnar og þannig dafnar vínviðurinn. Við smökkuðum vínin þeirra, rauðvínið var allt í lagi en hvítvínið var nú bara vont.
Áfram var haldið og allt í einu sáum við fullt af úlföldum (eða kameldýrum? Eða heita þeir drómedar?) og gátum nú ekki annað en brugðið okkur á bak. Við lentum á mjög viljugu kvendýri sem var alltaf að reyna að taka fram úr hinum dýrunum. Þetta var mjög skemmtilegur en furðulegur reiðtúr.
Næst fórum við í eldfjallaþjóðgarð. Þar fórum við í rútuferð um fjöllin og hún var áhugaverð og pínulítið skelfileg líka þar sem bílstjórinn keyrði eins og vitleysingur utan í fjöllunum á örmjóum vegi. Þegar rútuferðinni lauk skoðuðum við veitingastað uppi á einu eldfjallinu þar sem maturinn er eldaður yfir opnum gíg... mjög sniðugt. Svo tróðu þeir hálmi ofan í holu fyrir utan og á nokkrum sekúndum kviknaði í honum. Þarna voru líka rör ofan í jörðina og þar helltu þeir vatni ofan í. Nákvæmlega þremur sekúndum seinna frussaðist það upp aftur. Þarna er jarðhitinn sem sé alveg gríðarlegur.
Áfram keyrðum við og skoðuðum strandlengjuna sem er mjög svipuð og hér heima. Þar var meðal annars eldgígur rétt við ströndina sem var fullur af sjó.
Annan daginn fórum við nú ekki langt á bílnum, keyrðum bara aðeins út fyrir bæinn eftir hrikalegum malarvegi og þurftum meira að segja að borga fyrir það. Þar fundum við fullt af litlum ströndum og fullt af fólki, en hitinn var svo mikill þann daginn að við vildum helst bara vera inni í bílnum.
Þriðja daginn ókum við norður eftir eyjunni, skoðuðum hella þar sem búa litlir hvítir blindir krabbar sem venjulega lifa ekki nema í djúpum sjó. Enginn hefur enn komist að því af hverju þeir lifa þarna.
Við keyrðum svo á flottasta útsýnisstaðinn á eyjunni. Það er veitingastaður á fjallstindi í 500 metra hæð og mjög bratt niður í sjó. Þaðan sést yfir litlar eyjar sem eru við norðurenda Lanzarote. Við vorum bara svo óheppin að það var skýjað þennan dag, þannig að við sáum ekki neitt... vorum bara í þoku þarna uppi. Reyndar létti henni í smá stund og þá sá ég beint niður í sjó og var fljót að bakka frá brúninni :-)
Síðasta daginn sem við höfðum bílinn fórum við í næsta bæ í verslunarmiðstöð sem ferðaskrifstofan fer alltaf með Íslendingana í. Það var nú ekki skemmtileg ferð, það rigndi mikið og í þessari verslunarmiðstöð voru ekkert nema rándýrar fatabúðir. Verðin voru bara eins og hér heima og við féllum sko ekki fyrir þessu, alveg eins gott að versla bara í Kringlunni eins og að vera að borga yfirvigt :-)
Síðustu vikunni eyddum við svo bara í að liggja eins og klessur í sundlaugargarðinum. Það var voða notalegt, reyndar full heitt stundum og við vorum nánast eingöngu í skugganum.
Þetta var meiriháttar ferð og það var ekkert gaman að þurfa að fara að ganga í síðbuxum og sokkum.
Þegar við komum heim brunuðum við beint til afa og ömmu til að sækja prinsinn okkar sem hafði fengið að dvelja hjá þeim í nokkra daga. Hann tók vel á móti okkur þó hann yrði hálf hissa að sjá okkur til að byrja með. Áður en hann fór til afa og ömmu var hann hjá systkinum mínum í Breiðholtinu og kunnum við þeim Hönnu og Balla bestu þakkir fyrir. Þau björguðu okkur alveg þegar við hringdum í þau í öngum okkar, nýlent á Lanzarote og vorum búin að frétta að hundurinn okkar væri heimilislaus á Íslandi.
Og talandi um það: Ef þið teljið einhverntíma að ég hafi gert ykkur eitthvað, viljið þið þá segja mér hvað ég gerði, ekki svíkja gefin loforð og úthúða mér við ættingja mína. Taki þeir til sín sem eiga.
Myndir úr ferðinni má skoða hér.
Góðar stundir

3:55 e.h.
|

mánudagur, október 03, 2005

Farin í sólina!

Jæja, þá leggjum við af stað til Lanzarote á morgun. Næstu þrjár vikur er það bara sól, sjór, sandur og bjór. Heyrumst við heimkomu :-)

11:01 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker