mánudagur, apríl 24, 2006

Gleðilegt sumar!!

Þá eru páskarnir að baki og sumarið komið og væntanlega kominn tími á blogg. Bloggleysið hefur ekki bara verið leti í mér eða mikilli vinnu og ferðalögum að kenna því ég er búin að gera ansi margar tilraunir til að blogga, en blogger hefur verið eitthvað bilaður.
Páskahelgin var meiriháttar skemmtileg. Fyrir þá sem ekki vita það þá tókum við Elli rútu á leigu og fórum með meirihlutann af móðurfjölskyldunni minni í ferðalag á föstudaginn langa. Mamma og Stig héldu að við ætluðum bara tvö með þau á okkar bíl og urðu heldur betur hissa þegar við mættum með allt liðið á hótelið til þeirra. Öll fjölskyldan var búin að vera ljúgandi í margar vikur og enginn talaði af sér.
Úr þessu varð hið skemmtilegasta ferðalag sem endaði á grillveislu í bústaðnum hjá Stefaníu og Geira. Við skoðuðum Gullfoss og Geysi og reyndum að sýna Stig Þingvallavatn en það sást ekki fyrir snjókomu. Veðurstofan var búin að spá roki og rigningu þennan dag, en það gekk sko alls ekki eftir. Við fengum hins vegar allar hinar tegundirnar af veðri.
Í grillveislunni vöktu talstöðvar í höndunum á Ellert frænda mikla kátínu viðstaddra, sérstaklega þegar hann fékk svar frá “Hjálparsveit skáta í Borgarnesi”. Nesquick, Sviss Miss, Cocoa Puffs og Cheerios var umræðuefnið þeirra á milli og ég held ég hafi sjaldan hlegið eins mikið.
Hér má sjá nokkrar myndir úr ferðalaginu og grillveislunni. Einnig eru til nokkrar vídeómyndir, en þær verða ekki settar á netið. Þeir sem voru með í ferðinni og veislunni geta fengið svoleiðis sendar í tölvupósti.
Á páskadag var páskaeggið opnað. “Góður þegn þarfnast engra forfeðra” var málshátturinn þetta árið og finnst mér hann bara furðulegur. Ég skil hvað átt er við, en ef maður tekur hann bókstaflega þá er hann ansi kjánalegur, því maður verður ekki góður þegn án forfeðra... maður verður ekki einu sinni þegn, því öllu þurfum við jú forfeður til að verða til, eða hvað?
Eftir að við höfðum úðað í okkur súkkulaði og brjóstsykri skelltum við okkur í Bláa lónið með mömmu, Stig, Heiðrúnu, Irisi og Frikka og þeirra strákum. Þar lágum við í bleyti og mökuðum á okkur hvítri leðju þar til allir voru orðnir svangir. Þá fóru flestir upp úr og keyptu sér pylsur. Mamma og Stig komu svo í kvöldmat hjá okkur um kvöldið og fengu grillaðan lambahrygg og lærissneiðar. Mamma hafði á orði að Stig færi bráðum að jarma eftir allt þetta lambaát. Hann fékk líka að smakka folaldakjöt um helgina og virtist líka það vel, en Svíar hafa víst ekki gert mikið af því að borða hesta frekar en aðrar þjóðir. Einnig kom í ljós að honum fannst harðfiskur og brennivín bara hið mesta sælgæti :-) Mamma þyrfti að koma með hann hingað á þorranum til að athuga hvað hann segði þá um íslenskan mat ;-)
Læt þetta gott heita í bili.

http://public.fotki.com/snatason/pskafer/

11:11 f.h.
|

laugardagur, apríl 22, 2006

prufa

prufa

12:11 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker