mánudagur, janúar 30, 2006

Gleðilega vinnuviku!

Jæja, þá er ný vinnuvika runnin upp... jey! Helgin var mjög skemmtileg, á föstudagskvöldið var kveðjupartý hjá SBK í boði fyrrum yfirmanna. Það var farið á rútu út í Garð og þar var boðið upp á grillað lambakjöt og meðlæti í föstu og fljótandi formi. Mjög gott og gaman.
Á laugardagskvöldið komu Iris og hennar maður í mat til okkar og við buðum þeim upp á grillað lambafillé, rosa gott enda eiginmaðurinn snillingur með kryddbaukana.
Átakið gengur alveg prýðilega, ég er búin að losa mig við 3,9 kg frá áramótum og Elli 4,3 kg. Ég er alltaf jafn hissa á því hvað þetta er í rauninni auðvelt, nú er bara að halda sig við þetta í einhverja mánuði :-) Ég á nú alveg von á því að þyngdartapið fari að verða hægara, en það er í góðu lagi, ekkert betra að tæta kílóin of hratt af sér.
Brjálað að gera í vinnunni svo það er best að snúa sér að henni núna :-)

2:53 e.h.
|

fimmtudagur, janúar 26, 2006

Mannréttindi!

Þeir sem vilja að allir hafi sömu mannréttindi smellið hér. Ég er búin að skrifa undir því mér finnst það ótrúlegt að komið sé árið 2006 og enn fái þröngsýnt fólk sem trúir á eldgamla skáldsögu að ráða hverjir gifta sig og hverjir ekki!
Þeir sem vilja svo styðja baráttu eldri borgara og öryrkja smellið hér. Við verðum öll gömul einhverntíma (ef við lifum nógu lengi) og öll getum við lent í því að missa heilsuna.

10:09 f.h.
|

mánudagur, janúar 23, 2006

Ekki lengur gift rútubílstjóra!!!

Elli er hættur á rútunni eftir tæplega 30 ára starf og byrjaði að vinna hjá Njarðtak í morgun. Þetta gerðist frekar snögglega, Kynnisferðir keyptu SBK og hann var löngu búinn að ákveða að hætta ef það myndi gerast. Eigandi Njarðtaks var fljótur að grípa hann, var búinn að bjóða honum vinnu áður en hann náði að skrifa uppsagnarbréfið :-)
Það virðist annars vera eitthvað að ganga hjá fólki að hætta í vinnunni. Tvær af mínum systrum hafa hætt á árinu og ein vinkona mín var að segja upp. Ég er nú farin að pæla í að senda mínum yfirmanni tölvupóst og segja honum að taka ekki mark á mér ef ég segi upp! ;-)
Átakið okkar gengur ágætlega, Elli er búinn að losa sig við þrjú kíló og 10,5 cm. Ég er aðeins hógværari, 1,5 kg farin og 8,5 cm. En ég er mjög ánægð með þetta og ætla að halda ótrauð áfram.
Að öðru leyti er bara ekkert að frétta, ég sit við tölvuna allan daginn og vinn og vinn... alltaf mikið að gera á þessum árstíma.

10:41 f.h.
|

miðvikudagur, janúar 11, 2006

Nú fer maður að verða minni manneskja!

Jæja, þá eru 11 dagar liðnir af nýju ári og heilmikið um að vera. DV (Drulla og Vitleysa) að gera allt vitlaust eins og venjulega, hvað eiga þeir eiginlega að fá að ganga langt? Ef þið viljið taka þátt í að skamma þá getið þið smellt hér.
Af mér og mínum er það helst að frétta að við hjónin erum í átaki. Nú er bara Herbalife á fullu og út að labba á hverjum degi, Emil til ómældrar ánægju. Elli missti tvö kíló á viku en ég var aðeins hógværari og losaði mig bara við 600 grömm. Sentimetrarnir spænast líka burt og það er bara gaman.
Við lentum í furðulegu atviki um helgina sem styrkti okkur enn meira í þeirri ákvörðun að léttast. Fjögurra manna, tæplega ársgamli sófinn okkar brotnaði! Bara við það að eiginmaðurinn settist við hliðina á mér! Okkur fannst þetta þó frekar undarlegt, því við erum nú ekki mörg hundruð kíló, þannig að við höfðum samband við IKEA og þeir sendu okkur bara annan sófa. Þetta var sem sé þekktur galli í þessum sófum... eins gott að þeir áttu hann á lager, annars hefðum við þurft að skiptast á að horfa á sjónvarpið :-)
Annars gengur allt sinn vanagang hjá mér, heilsan er að komast í lag og ég er farin að mæta í vinnuna á hverjum morgni. Ég er meira að segja svo dugleg að labba alltaf í vinnuna! Hehehehe...
Heiðrún er komin með vinnu, hún er ótrúlega snögg alltaf að redda sér svoleiðis. Til hamingju með starfið litla syss!
Nú vil ég skora á aðra bloggara að fara að skrifa eitthvað á sínar síður svo ekki verði heimsendir í bloggheimum. Mamma hefur ekki bloggað síðan 18. des. (en hún hefur nú ágætis afsökun), Heiðrún ekki síðan 25. des, Katrín ekki síðan 22. des, Iris ekki síðan 5. des, og Regína ekki síðan 10. október! Brynja og Sigrún Heiða eru þó ofurduglegar þar sem þær hafa báðar bloggað á þessu ári :-)

6:25 e.h.
|

fimmtudagur, janúar 05, 2006

Landafræði Fréttablaðsins


Í Fréttablaðinu í dag má sjá þessa mynd á bls. 10:





Eitthvað hefur breyst á Vestur- og Norðurlandi og Vestfjörðum síðan ég fór þarna um síðast!
Brynja... vissir þú t.d. að þú átt heima á Blönduósi? Mér finnst þetta bara alger snilld!
En gleðilegt ár annars og takk fyrir þau liðnu :-)

2:18 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker