þriðjudagur, desember 28, 2004

Litlir kassar... allir eins

Jæja, þá er ég byrjuð að pakka niður í 36. sinn. Ég eyði öllum mínum tíma núna í að hlaupa fram og til baka með kassa í fanginu og er að reyna að skipuleggja hvað á að fara í hvern þeirra. Ég nefnilega veit ekki hvort ég er að pakka niður til flutnings eða í geymslu. Við fáum ekki svar með íbúðina fyrr en á miðvikudag og þá eru bara tveir dagar til áramóta. Ég ætla að flytja héðan fyrir áramót, svo þá verður lítill tími til stefnu til að finna einhverja aðra íbúð... svo kannski enda ég bara á götunni með alla kassana mína.
Jólin voru meiriháttar í alla staði. Við vorum öll saman heima hjá Irisi, borðuðum lambahamborgarhrygg, fundum tréð eftir mikla leit í pakkahrúgunni og spiluðum svo Friendsspilið fram á nótt... þ.e. við systur spiluðum, en Elli horfði á og hristi hausinn yfir þessum vinanerdum sem við erum. Emil smjattaði á jólagjöfunum sínum, hann fékk harðfiskkurl frá langömmu og langafa og það var sko vel þegið. Einnig fékk hann bolta frá ömmu sinni í Breiðholtinu og móðursystkinum og frá mér fékk hann kall með hatt og vindil (hattinn át Emil strax af kallinum og vandi hann svo af reykingunum daginn eftir) sem segir "How you doing?" þegar maður potar í magann á honum. Tumi eyddi hins vegar mestum hluta kvöldsins sofandi inni á baði og reyndi að detta ofan í klósettið ef einhver fór að pissa.
Jæja, best að hætta þessu kjaftæði og halda áfram að kafa í kassana...

1:04 f.h.
|

mánudagur, desember 20, 2004

Köttur úti í mýri...


Tígrisdýrið mikla

Þessi kisi hefur verið í pössun hjá okkur síðan á laugardag, þar sem honum og Kola kemur ekkert voðalega vel saman... þó er kisi mjög barngóður. Þetta litla kríli er alveg ótrúlega skemmtilegt og gefur Emil ekkert eftir. Emil hefur mikinn áhuga á litla dýrinu og eltir hann út um allt. Kisi lætur sér það vel líka og stríðir hvutta stundum með því að sitja í rúminu hans. En ef hundurinn verður of ágengur felur kisi sig inni í Cheeriospakka.
Þetta er sem sé kötturinn hennar Irisar og hann er að leita sér að góðu heimili því Iris er að fara að flytja í blokk í Reykjavík. Þetta einstaka eintak er ættað frá Söndum í Miðfirði eins og Emil. Hann er mjög kelinn, skríður oft í fangið á mér og sofnar þar og kippir sér ekkert upp við það þó hundurinn sé afbrýðisamur.

Enn er ég að bíða eftir svari með íbúðina, þarf að bíða fram á miðvikudag til að vita hvort við getum flutt inn í hana milli jóla og nýárs. En hvernig sem fer, þá ætla ég að flytja burt úr Borgarnesi þá, því öll þessi keyrsla er dýr og fáránlegt að vera að fara á fætur klukkan fjögur tvisvar í viku :-)

3:10 e.h.
|

fimmtudagur, desember 16, 2004

Ég sem hélt að jólagjafirnar væru allar komnar...

Ég fæ kannski íbúð í Keflavík í dag... ég er svo spennt að bíða eftir svari. Heiðrún, þú færð kannski að hjálpa mér að flytja milli jóla og nýárs :-) Eins og sumir vita (þeir sem ekki vissu það, vita það þá núna) er ég að fara í sambúð í Keflavík, aldrei hefði mér nú dottið í hug að eiga það eftir... en ég hlakka mikið til :-) Þá þarf ég líka ekki að fara á fætur klukkan fjögur á morgnana lengur.
Núna er ég á fullu í að ganga frá jólagjöfunum sem ég bjó til í haust, því það eru víst bara 8 dagar til jóla. Og ég á eftir að finna og kaupa jólagjöf handa manninum í lífi mínu... úff! Einhverjar hugmyndir? :-) Ég hef aldrei verið eins hugmyndalaus í sambandi við gjafir... og ég get ekki gefið honum það sama og hinum, því hann veit hvað það er :-)


11:13 f.h.
|

mánudagur, desember 13, 2004

Hrekkjasögur

Jæja krakkar mínir! Þá er best að blogga smá. Eftir mikla sorg í nóvember tók við mikið hamingjutímabil hjá mér og núna svíf ég um á sæluskýi alla daga :-) Og... ég er að fara að flytja... í 36. sinn! Í þetta sinn ætla ég að prófa Suðurnesin aftur, ég þvælist allt í kringum Reykjavík :-) Veit einhver um lausa íbúð þarna suðurfrá?

Ég ákvað að hinkra aðeins með að birta hrekkjasögu til að athuga hvort ekki bærust fleiri. En, nei... engin bættist við. Tvær sögur bárust og hef ég ákveðið að birta þær báðar hérna. Gjörið svo vel og góða skemmtun:

Eitt sinn sem áður þegar ég var lítil og eldri og alltaf er ég átti heima á Laugarbakka, Capital of the North, og að þessu sinni Laugarbakkaskóla. Eins og síðan ég var rúmlega tveggja ára þá átti ég þessa yndislegu systur...finnst hún yndisleg núna...ekki svo þá og þá var hún eiginlega bara svona litla systir sem hægt er að stríða :-) og gerði ég mikið af því, því miður :-)
Á þessum tíma áttum við “bróður” sem í raun var hann Mummi frændi...og þar sem við Mummi vorum nánast jafn gömul þá lékum við yfirleitt saman og Brynja fékk stundum að vera með :-)
Eitt sinn sem áður þá var baðtími....vorum við öll látin saman í bað og fannst okkur það bara gaman....og eins og áður þá var rifist um besta staðinn í baðinu :-) tek ég það fram að við Mummi vorum 7 ára og Brynja 5 ára og ég var frekust og fékk besta staðinn í baðinu :-) Brynja var í miðjunni og Mummi kranamegin :-)
Við vorum sem sagt bara að leika okkur og allt í einu stendur herra Mummi upp....Brynja snýr baki í hann bæ ðe vei og á sér einskins ills von...bara að leika sér eins og eðlilegt barn :-) Við Mummi erum með handabendingar og augnaráð okkar á milli og með þessu vorum við að ákveða að hann skildi nú láta gossa á hausinn á Brynju.....Gerði hann það...pissssssssss......Brynja lítur upp voða hissa að fá volga bunu allt í einu yfir hausinn á sér...við Mummi öskrum úr hlátri....og Brynja sem var svo hissa gat ekki gert neitt nema segja OJJ
Tek ég það fram að við vorum ung og vitlaus og fannst þetta rosalega fyndið :-)
Þetta var nú samt bara eitt af skiptunum sem Mummi pissaði annar staðar en í klósettið....en hann gekk iðulega í svefni til að fara á klósettið og var þá bara heppni hvar bunan lenti...í ruslafötunni, kúrekahattinum eða í klósettinu.
Hann var nú samt ekki sofandi í baðinu þessa örlagaríku stund og engar Brynjur hlutu varanlegan skaða í þessari baðferð.

Það er kannski þess vegna sem Brynja er með svona þykkt og mikið hár í dag....hver veit :-)

Katrín Þóra.

Mín elskulega systir hún Ella Sigga hafði unun á að láta bera krem á bakið á sér og láta nudda sig og virkilega njóta lífsins. Þessi atburður átti sér stað þegar við vorum unglingar. Ekki fannst mér þetta gaman til lengdar og best að segja var ég orðin hundleið á þessu og ákvað að hrekkja hana aðeins með GRÆNA kreminu sem var í notkun í það skiptið. Þar sem hún lá á maganum uppí rúminum á nærbuxunum, settist ég á fæturnar á henni, tók mér brúsann í hönd og beinlínis stakk honum þar sem sólin ekki skín og kreisti eins fast úr brúsanum og ég gat!

Það þarf ekki að taka það fram að ég var ekki beðin um þetta aftur!

Snjólaug Grétarsdóttir

Ég þakka kærlega fyrir þessar sögur og eins og áður stendur báðum höfundum til boða að velja sér verðlaunin. Ég mun senda þeim lista í tölvupósti fljótlega.


1:55 e.h.
|

miðvikudagur, desember 08, 2004

Jæja!

8. desember í dag og fresturinn rennur út í kvöld. Tvær sögur komnar, verða þær virkilega ekki fleiri? Kannski ég segi ykkur eina til að koma ykkur af stað:

Þegar við bjuggum í Keflavík kom Rakel ömmusystir stundum í heimsókn til okkar á kvöldin (oftast rétt eftir kvöldmat) og það fannst okkur systrum alltaf skemmtilegt. Eitt sinn fór ég inn í herbergi meðan mamma og Rakel spjölluðu, skrifaði "Sparkaðu í mig" á hvítan límmiða, fór með hann fram á gang og límdi hann aftan á kápuna hennar Rakelar. Þegar hún var að fara sáu litlu systur mínar miðann og byrjuðu að sparka í Rakel af miklum móð. Hún skildi ekkert í þessum látum í skæruliðunum og þegar hún sagði þeim að hætta þessu sögðu þær: "En þú baðst okkur um að sparka í þig!" Ekki veit ég hvort mamma rak augun í miðann, en hún allavega sagði ekki neitt og Rakel fór heim.
Daginn eftir kom hún aftur í heimsókn. Hún kallaði í mig og bað mig að koma aðeins að tala við sig. Ég fór fram frekar niðurlút og hún spurði hvort ég hefði sett þennan miða á sig. Ég viðurkenndi það og þá sagðist hún hafa komið við í búð á heimleiðinni og þar sem hún stóð í röðinni hafi kona sem hún kannaðist lítillega við hallað sér að henni og sagt: "Á ég að sparka í þig Rakel?" Ég gat ekki annað en farið að skellihlæja þó ég byggist við skömmum. En þá horfði Rakel brosandi á mig og spurði: "Áttu fleiri svona miða? Mig langar að líma á tollarana!"
Komið nú með hrekkjasögur!

Jólin eru að nálgast, vissuð þið það? Aldrei þessu vant er ég farin að hlakka til hátíðanna... enda heilmikið skemmtilegt að gerast í mínu lífi þessa dagana. Allt að breytast hjá mér og mínum. Tjái mig ekki meira um það að sinni.... ;-) Ég er samt ekki farin að skreyta, nenni því alls ekki... enda verður bara meira drasl í kringum mig þegar ég geri það. En jólalögin eru farin að fara minna og minna í taugarnar á mér...

9:58 f.h.
|

mánudagur, desember 06, 2004

Hmm...

Jæja, krakkar mínir. Nú eru bara tveir dagar eftir af skilafrestinum og bara ein saga komin. Hverskonar frammistaða er þetta eiginlega? Reyndar er voðalega lítið að gera á öllum bloggsíðum þessa dagana, sumir blogga sjaldan og aðrir ekkert... en ég sá mér til mikillar gleði áðan að Stebbi frændi er loksins byrjaður að blogga aftur, ég hló mig máttlausa þegar ég las bloggið hans um Amazon :-)
Mitt líf er að komast á skrið aftur, er farin að mæta reglulega í vinnuna og fór meira að segja á jólahlaðborð með vinnufélögunum á föstudaginn. Þar var svo gaman að ég missti af aðalréttinum... allt í einu var bara kominn eftirréttur á borðið. Eins og þeir vita sem þekkja mig best er ég ekkert fyrir sæta eftirrétti, svo það eina sem ég borðaði þarna var forrétturinn. En hann var alveg ágætur bara og dugði mér vel.
Ég er í Reykjavík í dag, reif mig upp eldsnemma í morgun því Koli ætlaði að fá far með mér. Dagurinn byrjaði á því að ég þurfti að skipta um dekk (það eru einhver álög á þessum bíl, þetta er í þriðja sinn sem það springur dekk vinstra megin að aftan á þessu ári), því það var skrúfa í því. Mikið er nú skemmtilegt í myrkri og grenjandi rigningu klukkan sjö að morgni að burðast með drullug dekk fram og til baka...
Við brunuðum svo í bæinn, Koli söng jólalög fyrir okkur Emil alla leiðina, ég byrjaði á því að skila honum á leikskólann, svo fór Emil á sinn leikskóla og því næst var komið við á dekkjaverkstæði þar sem ég komst að því að það er tvöfalt dýrara að láta gera við dekk í Reykjavík en í Borgarnesi.
Jæja... þá er vinnudagurinn að verða búinn. Bless í bili.


4:19 e.h.
|

miðvikudagur, desember 01, 2004

Lífið heldur víst áfram...



Jæja, þá er kominn tími á blogg. Síðustu þrjár vikur hafa verið þær erfiðustu í mínu lífi, pabbi er horfinn. Hann var góður maður sem glímdi við illvígan sjúkdóm og varð að lúta lægra haldi fyrir honum. Ég mun alltaf sakna pabba míns, en hugga mig við að honum líði betur núna.
Ég vil þakka ykkur kærlega fyrir alla samúðina og hlýjuna síðustu vikur, þið eruð yndisleg! Það er á svona stundum sem maður finnur hvað maður á góða ættingja og vini.

En að öðru; aðeins ein saga hefur borist í keppnina um besta hrekkinn, og vegna atburða síðustu vikna ætla ég að framlengja frestinn til 8. des. Sendið sögur á þetta netfang, ég hlakka til að lesa :-)
Þið þurfið ekki sjálf að hafa hrekkt einhvern, það má alveg skrifa um hrekki annarra líka. Ef fólk vill senda nafnlaust vísa ég í blogg frá 1. nóvember með leiðbeiningum þar um. Einnig tek ég fram að þessi keppni er ekki bara fyrir nánustu ættingja og vini, allir sem lesa síðuna mína mega taka þátt :-)

1:51 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker