laugardagur, ágúst 27, 2005

Jæja!

Er ekki kominn tími á blogg? Jú, ég held það bara. Það hefur nú ekki verið mikið um að vera hjá mér undanfarið. Fór jú í frí í Dalina og þar höfðum við það rosa gott, grilluðum á hverjum degi, lékum við hundinn og skoðuðum okkur aðeins um. En veðrið hefði nú mátt vera skemmtilegra því það rigndi á hverjum degi. Emil fannst þetta þvílíkt mikið stuð, hann fékk að vera laus úti og elta boltann sinn og frisbí diskinn. Svo fékk hann heimsókn frá tíkinni á bænum og hún beit hann í rassinn og lék sér að dótinu hans. Hann var voða hissa en kurteis.
Við skruppum á Hvammstanga til að fara í bankann, ég mundi nefnilega allt í einu eftir því að ég er með bankahólf þar á leigu en gat alls ekki munað hvað var í því. Svo ég kíkti í hólfið og svalaði forvitninni. Því næst lá leiðin í stórmarkað KVH og þar keyptum við okkur folaldapiparsteik (algert sælgæti) og mjólk og hittum Gunnu á Söndum. Skemmtileg tilviljun því stefnan var einmitt tekin á Sanda næst. Hún bauð okkur í kaffi og við fórum í Sanda. Vorum á undan Gunnu heim og þar hitti Emil tíkina á bænum og hvolpinn hennar. Hvolpurinn var mjög kátur og lék við gestinn en tíkin var ekki eins kát, urraði og gelti á hann og beit hann svo í rassinn þegar hann hætti sér of nálægt. Hvað er þetta eiginlega með tíkur og rassinn á hvuttanum mínum? Hún var svo farin að ráðast á aumingja Emil við hvert tækifæri svo það endaði með því að hún var lokuð inni, en Emil og hvolpurinn fengu að skottast saman úti.
Svo eins og í öllum mínum fríum veiktist ég... að sjálfsögðu. Og var bara þónokkuð veik meirihluta vikunnar. Þetta fannst mér nú ekki beint sniðugt en fer að verða vön. Ég er meira að segja að hugsa um að panta ekki sumarfrí í október þegar við förum til Kanarí... væri heiðarlegast að panta bara veikindafrí :-) En talandi um Kanarí (eða Lanzarote eins og eyjan heitir víst), við fengum aukaviku fyrir lítinn pening, svo við fáum að vera þar í þrjár vikur! Sól, sandur og sjór (og bjór) í 21 dag :-)
Síðustu helgi skruppum við hjónin í Borgarnes og fengum að ráðast á rifsberjarunnann hjá Skarphéðni og Heiðu. Við tíndum ber af miklum móð og nú eru þau orðin að hlaupi a la amma.... namminamm. Núna ætla ég að fá mér ristað brauð með rifsberjahlaupi og osti og horfa á DVD. Var nefnilega að eignast fyrstu syrpuna af Frasier og hún er frábær!
Heyrumst síðar.

12:30 e.h.
|

mánudagur, ágúst 08, 2005

Nýtt leikfang

Jæja, nú er ljósmyndaáhuginn orðinn að dellu... ég fór og keypti mér voða fína stafræna myndavél í morgun, með tveimur linsum og ýmsu aukadóti, ásamt bakpoka utan um herlegheitin. Nú er ég búin að elta Emil út um allt og smella mörgum myndum af honum... hann skilur ekkert í þessu veseni á mér. Ohhh... hvað það verður gaman að leika sér að þessari græju :-)
Að öðru leyti er lítið að frétta. Ég er bara að vinna heima alla daga, ekki mikið að gera í vinnunni þar sem allir aðrir hafa verið í sumarfríum. En fólk er nú að skila sér í vinnu þessa dagana svo það fer kannski að fjölga verkefnunum. Annars er ég að fara í frí... við ætlum að taka okkur viku frí og vera í sumarbústað í Dölunum, slappa vel af í sveitasælunni. Emil fær meira að segja að koma með, loksins fundum við stað þar sem hundar eru velkomnir. Ég ætla líka að taka nýju myndavélina með og taka fullt af myndum... gaman gaman :-)
Iris kom til okkar um helgina og við skemmtum okkur vel. Fórum meira að segja á ball með Sálinni í Stapanum (hef aldrei farið á Sálarball fyrr). Settumst eins langt frá sviðinu og við gátum en samt var hávaðinn svo mikill að við gátum ekki talað saman. Svo við fórum bara heim, höfum sennilega stoppað þarna inni í korter... og það kostaði 2000 kall inn. Við borguðum sem sé 6000 kall fyrir 15 mínútur! Kannski er ég orðin svona gömul og þoli þess vegna ekki svona hávaða... en Iris er nú fimm árum yngri en ég og henni fannst þetta líka :-) Lætin voru svo mikil að það var erfitt að heyra hvaða lög þeir voru að spila... helst að maður heyrði það ef maður hélt fyrir eyrun.
Jæja, ætla að vinna smá... fyrst mér tókst að slíta mig frá nýja leikfanginu.

2:38 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker