fimmtudagur, september 23, 2004

Karlmannslaus í kulda og trekki...

Núna er ég stödd í Reykjavíkurskrifstofunni minni og er að fara á taugum þar sem byggingin hoppar reglulega. Það er verið að sprengja fyrir grunni hérna hinum megin við Borgartúnið og það fylgja því nokkrir jarðskjálftar á hverjum klukkutíma.
Í hádeginu fór ég út að borða með móður- og föðursystur minni, og svona fyrir þá sem ekki þekkja til, þá er það ekki ein og sama manneskjan.... enda væru foreldrar mínir þá systkini, og þó það myndi kannski skýra ýmislegt með mig, þá er það nú ekki raunin :-) Við frænkurnar fórum á salatbarinn á Hótel Cabin og hámuðum þar í okkur bráðhollt grænmeti... en ekkert blómkál.
Mér er rétt að hlýna núna eftir nóttina. Ofnarnir á neðri hæðinni í íbúðinni minni hafa verið mjög hæverskir hingað til og ekki verið að halda mér neitt of heitri, svo ég var nú farin að pæla í að hringja í pípara til að láta vekja þá til lífsins. Í gærkvöldi heyrði ég svo að það var einhver að eiga við ofnana í íbúðinni við hliðina, og hugsaði sem svo að fyrst þetta væri svona í öllu húsinu, þá hlyti einhver að vera að laga þetta. En nei... þetta fikt í næstu íbúð varð nú bara til þess að hitinn fór af öllum ofnum á báðum hæðum hjá mér. Nóttin var kaldari heldur en í tjaldútilegunum í sumar og ég mátti sofa fullklædd. Það var meira að segja svo kalt að ég var farin að óska þess að það væri karlmaður í rúminu hjá mér! Og það gerist nú ekki oft... Emil gerði nú reyndar nokkuð gagn með því að liggja ofan á löppunum á mér... en það var nú ekki alveg nóg. Ég ætla því að fara frekar snemma heim til að taka á móti píparanum... og ég ætla rétt að vona að hann geti lagað þetta í kvöld, því það er ekki hægt að búa við svona kulda lengi. Og fyrst það er að koma pípari í heimsókn ætla ég að láta hann laga blöndunartækin í sturtunni í leiðinni, því sturtuferðir geta orðið ansi ævintýralegar...



2:21 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker