föstudagur, september 24, 2004

Píparinn

Nú er mér loksins orðið hlýtt. Píparinn (sem var hvorki ber að ofan né með skoruna sýnilega) kom í gær og skipti um eitthvað og þá tóku ofnarnir aldeilis við sér og fóru allir á fullt. Núna er hlýtt og gott hér inni hjá mér, og ég þarf ekki lengur að vera í peysu og undir teppi. Ég þurfti sem sé ekki að ræna píparanum (sem ég vona innilega að rekist aldrei á þessa síðu) og hafa hann í rúminu hjá mér í nótt, eða barninu hinum megin við götuna. Ég gat bara sofið alveg alein og það er langt síðan ég hef sofið svona vel... alveg þangað til ég vaknaði við kolvitlaust óveður kl. hálf átta í morgun.
Emil fór á leikskólann í gær og var allan daginn. Hann skemmti sér víst alveg prýðilega, svo vel að hann át ekkert af matnum sínum. Hvort hann er í megrun til að ganga í augun á stelpunum, eða hvort hann var í hungurverkfalli veit ég ekki. Hann tók reyndar vel til matar síns í gærkvöldi þegar við komum heim og aftur í morgun, svo ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Enda er drengurinn í ágætum holdum og má alveg við smá pásum í mataræðinu. Það er eins gott að fólk viti að Emil sé hundur, annars gæti þetta hljómað dálítið illa ;-)
Helgin framundan... og ekkert spennandi á dagskránni. Hvað með ykkur?

1:52 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker