sunnudagur, nóvember 07, 2004

Afmæli og ný keppni

Jæja... góðan daginn! Þá er kominn sunnudagur og þynnkan loksins horfin. Hún var að vísu merkilega lítil bara miðað við mikla og langvarandi drykkju... úff! En í gær var ég aðallega þreytt, enda var lítið sofið.
Við komumst norður við illan leik á föstudaginn, komumst allt í einu að því að heiðin var flughál þegar við komum að slysi þar og allir fóru að hægja á sér, en ekkert gerðist þegar ég steig á bremsurnar. Ég náði þó að forðast að lenda aftan á næsta bíl en þegar ég leit í spegilinn var jeppi að nálgast mig óðfluga. Hann færði sig út í kantinn til að lenda ekki á mér og ég færði mig til vinstri... svo þetta slapp. Fjúff! Við stoppuðum svo í Brú, og þegar ég steig út úr bílnum var ég næstum dottin, svo mikil var hálkan... og engin leið að sjá hana, því vegurinn virtist bara vera blautur í rigningunni. Svona hált var alla leiðina sem eftir var, og til að bæta gráu ofan á svart biluðu rúðuþurrkurnar á bílnum mínum... þær þurrka að vísu ennþá, en stoppa alltaf á miðri rúðunni, beint í sjónlínu.
Afmælisveislan mikla var alveg meiriháttar skemmtileg og veitingarnar afbragðsgóðar. Ég hámaði í mig krækling og humar og rækjur og margt fleira góðgæti. Takk fyrir okkur Regína! Svo var sungið... misvel. Hljómsveitin var bara alveg prýðileg og við Hrönn gerðum okkar besta í okkar starfi sem grúppíur.
Eftir mikið djamm á Laugarbakka var skundað út á Tanga þar sem við náðum í restina af sláturhússlúttinu. Við dönsuðum mikið... svo mikið að ég gleymdi að drekka og það hefur sennilega forðað mér frá timburmönnunum. Ég fékk kjaftshögg á gólfinu, mjög óvænt og mjög óvart, frá Pólverja sem lifði sig mikið inn í dansinn. Þetta olli bólginni efri vör og blóðnösum... var frekar vont. Aumingja strákurinn var alveg miður sín yfir þessu og elti mig það sem eftir var kvöldsins og sagði "sorry, sorry, sorry"... sennilega eina orðið sem hann kann í ensku, alla vega náði ég ekki neinu öðru af viti upp úr honum.
Eftir ballið fórum við svo í partý á verbúðinni og sátum þar og kjöftuðum þar til okkur var hent út... þá var beðið eftir fari heim og það féll í hlut Guðjóns að sækja okkur stöllur... aumingja Guðjón að kynnast okkur svona.
Eftir þetta tók við löng leit að sænginni minni sem átti að vera í ganginum hjá Regínu, en var bara ekki þar. Eftir að hafa vakið fullt af fólki sem svaf víða í félagsheimilinu og líka fólk sem svaf í öðru húsi og var ekki alveg edrú, fann Iris loks sængina í kuðli á svefnherbergisgólfinu hjá Regínu. Ég er ekki enn búin að komast af því hvers vegna einhver stal pokanum með sænginni, hellti úr honum í svefnherberginu hennar Regínu og reif sængina úr lakinu og skildi þetta allt eftir í hrúgu...
Við Emil vöknuðum í hádeginu og fórum út í rokið. Svo fórum við aftur að sofa og fórum ekki á fætur fyrr en hálf þrjú. Þá stauluðumst við systur heim til Brynju, átum og fórum svo í Skeggjastaði. Þar fylltum við bílinn af kössum og svo brunuðum við í Sanda, þar sem Emil heimsótti systur sína, ég baukaði aðeins í nýju tölvunni þeirra og Iris eignaðist kettling. Við ætluðum að fá lánað kattabúr handa honum á Mýrum, en litli kisinn var svo rólegur og svaf bara í fanginu á Irisi svo það reyndist engin þörf á búri.
Sögukeppnin tókst bara alveg prýðilega, fannst ykkur það ekki? Ég er því að hugsa um að velta annarri keppni af stað. Í þetta sinn verður efnið "besti hrekkurinn" og miðað við mína fjölskyldu ætti nú ekki að vera neinn skortur á efni í góðar sögur :-) Þá er ég sérstaklega að hugsa um ákveðna ömmusystur mína...
Sem fyrr má skila sögunum á þetta netfang og sömu reglur gilda og síðast. Skilafrestur er til 15. nóvember og besta sagan verður birt þann 16. nóvember.


1:32 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker