miðvikudagur, desember 08, 2004

Jæja!

8. desember í dag og fresturinn rennur út í kvöld. Tvær sögur komnar, verða þær virkilega ekki fleiri? Kannski ég segi ykkur eina til að koma ykkur af stað:

Þegar við bjuggum í Keflavík kom Rakel ömmusystir stundum í heimsókn til okkar á kvöldin (oftast rétt eftir kvöldmat) og það fannst okkur systrum alltaf skemmtilegt. Eitt sinn fór ég inn í herbergi meðan mamma og Rakel spjölluðu, skrifaði "Sparkaðu í mig" á hvítan límmiða, fór með hann fram á gang og límdi hann aftan á kápuna hennar Rakelar. Þegar hún var að fara sáu litlu systur mínar miðann og byrjuðu að sparka í Rakel af miklum móð. Hún skildi ekkert í þessum látum í skæruliðunum og þegar hún sagði þeim að hætta þessu sögðu þær: "En þú baðst okkur um að sparka í þig!" Ekki veit ég hvort mamma rak augun í miðann, en hún allavega sagði ekki neitt og Rakel fór heim.
Daginn eftir kom hún aftur í heimsókn. Hún kallaði í mig og bað mig að koma aðeins að tala við sig. Ég fór fram frekar niðurlút og hún spurði hvort ég hefði sett þennan miða á sig. Ég viðurkenndi það og þá sagðist hún hafa komið við í búð á heimleiðinni og þar sem hún stóð í röðinni hafi kona sem hún kannaðist lítillega við hallað sér að henni og sagt: "Á ég að sparka í þig Rakel?" Ég gat ekki annað en farið að skellihlæja þó ég byggist við skömmum. En þá horfði Rakel brosandi á mig og spurði: "Áttu fleiri svona miða? Mig langar að líma á tollarana!"
Komið nú með hrekkjasögur!

Jólin eru að nálgast, vissuð þið það? Aldrei þessu vant er ég farin að hlakka til hátíðanna... enda heilmikið skemmtilegt að gerast í mínu lífi þessa dagana. Allt að breytast hjá mér og mínum. Tjái mig ekki meira um það að sinni.... ;-) Ég er samt ekki farin að skreyta, nenni því alls ekki... enda verður bara meira drasl í kringum mig þegar ég geri það. En jólalögin eru farin að fara minna og minna í taugarnar á mér...

9:58 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker