fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Helgin nálgast...

Undur og stórmerki hafa gerst! Regína er búin að blogga! Og það er mikil gleði í hennar bloggi... er hún ástfangin eða hvað?
Á morgun erum við skötuhjúin að fara í sumarbústað, þar sem við ætlum að eyða helginni í heitum potti. Þar verður líka grillað lamb og kannski drukkinn smá bjór :-) Emil ætlar ekki að koma með okkur, heldur ætlar hann að eyða helginni á hóteli í góðu yfirlæti.
Nú fer alveg að verða partýhæft hérna í kotinu okkar... kominn fjögurra sæta sófi í stofuna og einn ruggustóll. Við höfum sem sé pláss fyrir þrjá gesti ef allir ætla að sitja. Nýi fíni IKEA sófinn er þvílíkt þægilegur. Ég var ein heima í gærkveldi (Emil var reyndar heima, en hann fær ekki að koma upp í sófa) og þegar Elli kom heim var ég steinsofandi í sófanum... og leið bara mjög vel. Færði mig nú samt inn í rúm og hélt áfram að sofa.
Launaviðræðum og starfsmannaviðtali við sjálfa mig er lokið og fór það mjög vel. Við náðum að semja um hækkun launa vegna óánægju launþegans með vinnuaðstöðuna í bænum. Í gær fór ég í bæinn en komst ekki inn á skrifstofuna sem ég á að vera á, og þurfti að vera í annarri skrifstofu. Þar er tölvutengillinn á leiðinlegum stað svo ég þurfti að sitja með skúffur á milli hnjánna til að geta unnið á tölvuna. Langt frá því að vera þægilegt, svo ég fór heim um hádegið eftir fund með fjármálastjóranum og forstöðumanninum. Ég ætla rétt að vona að á mánudaginn fái ég viðunandi vinnuaðstöðu, því það er ekkert gaman að rífast við sjálfa sig... það er nánast vonlaust að hafa betur í því rifrildi.
Bara 22 dagar þar til mamma kemur í heimsókn... það verður sko gaman. Bleika herbergið er nánast alveg tilbúið til að taka á móti henni, á bara eftir að stytta nýju gardínurnar. Eða kannski ég láti það bara bíða þar til mamma kemur og fái hana til þess? ;-)

2:44 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker