mánudagur, febrúar 14, 2005

Þorrablótið

Þá er hið langþráða þorrablót að baki og mikið rosalega var gaman! Nefndin stóð sig með mikilli prýði, skemmtiatriðin voru mjög fyndin. Meira að segja Elli, sem þekkir ekkert til þarna, sagði að sér hefði þótt annállinn mjög fyndinn, þó eflaust hefði verið meira gaman að þekkja liðið sem verið var að skjóta á. Maturinn var fínn... ég borðaði mest af pottréttinum en lét súrmatinn alveg eiga sig. Ég fékk mér að vísu einn lítinn hákarlsbita til að finna ekki lyktina af hinum. Það virkaði mjög vel, því ég fann ekki hákarlsstybbu af nokkrum manni.
Ballið var fínt líka... en við vorum reyndar ekki mjög lengi þar. Við vorum komin heim til Brynju um hálf tvö eða tvö og fórum bara að sofa þá. Vöknuðum svo bara eldhress á laugardeginum og dóluðum af stað. Komum við á lögreglustöðinni í Borgarnesi til að sækja dótið hans Jóa og Helgu, en þau lentu í hörðum árekstri á suðurleiðinni á föstudagskvöldið og voru flutt slösuð í bæinn. Þegar ég sá bílinn varð ég hissa á að þau skyldu sleppa lifandi úr þessu. Einhver ferð hlýtur að hafa verið á þeim sem keyrði á þau, því Jói keyrir aldrei hratt...
Núna er ég veik heima með furðulegt afbrigði af flensunni. Ég hélt þetta væri bara aumingjaskapur í mér þangað til ég hringdi í vinnuna til að láta vita að ég kæmi ekki. Það eru víst fjórir þar búnir að liggja heima með sömu einkenni... furðulegt. En það lagast einhverntíma...
Núna ætla ég að finna mér bók að lesa og skríða upp í rúm... gera það besta úr þessum veikindum. Góðar stundir :-)

10:29 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker