þriðjudagur, mars 15, 2005

Jææææja....

ARG! Þetta var ekki auðvelt! Ég fékk meira að segja tvo aukadómara í málið og það hjálpaði ekki neitt, því enginn var sammála. Ég myndi persónulega vilja veita ykkur öllum verðlaunin, en ég nenni bara ekki að gera fjórar fígúrur :-)
Eftir miklar pælingar og eftir að hafa lesið allar sögurnar fjórum eða fimm sinnum, þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Stefanía sé sigurvegarinn (það var samt ekki hún sem var með mútutilburðina). Til hamingju með það frænka!
Gjörið svo vel, hér kemur sagan:

Sagan af Fíu og Theo.

Ég man auðvitað ekki nákvæmlega hvenær þessi saga gerðist, en alla vega var það á tímabilinu milli manna í mínu lífi, þ.e. líklega sumarið 1986. En hvað um það einhvern veginn svona var hún.

Ég tók að mér að passa fyrir Víði og Regínu, hundinn, börnin og gróðurhúsin á meðan þau fóru á Hásefingaskrall, sem var árlegur viðburður á þessum tíma.
Þau bjuggu í Laugarbakkaskóla á neðri hæðinni og Herdís, Pétur og börn á þeirri efri.
Eitt kvöldið, þegar stelpurnar voru sofnaðar og ég og Bogga vinkona mín úr Keflavík, sem var með mér þarna, vorum að slappa af inni í stofu, þá upphefst mikil hundgá – ekki beint gelt, heldur frekar svona „vuuuuuff“ (erfitt að skrifa þetta hljóð). Á eftir þessu hljóði kom eitthvað annað hljóð sem ég þekkti ekki alveg strax svo ég þaut út í stofuglugga og sé þá Fíu, sem hafði sofið vært við útitröppurnar, alla sperrta og áhugasama yfir konu sem hafði komið fyrir húshornið á kvöldgöngu með köttinn sinn. Konan var alveg í ofboði að reyna að ná taki á kettinum sínum sem var svona heldur í úfnara lagi.
Svona fyrir þá sem ekki þekktu Fíu, þá var það það skemmtilegasta sem hún vissi, að stríða köttum.
Nú nú, ég stekk út á svalirnar og kalla á Fíu, sem var auðvitað horfin ásamt konunni og kettinum fyrir húshornið. Ég hleyp inn og í gegnum íbúðina, út og niður tröppurnar, meðfram húsin og heyrði lætin alltaf magnast í Fíu, konunni og kettinum. Sjónin sem blasti við mér þegar ég kom fyrir húshorn nr. 2, þ.e. sá aðalinnganginn í skólann/hótelið, var óborganleg – þar stóð konan, kötturinn var uppi á höfðinu á henni og leit út eins og galdrakettirnir í ævintýrunum, með kryppu og úfið skott og Fía stóð á afturlöppunum með framlappirnar á öxlunum á konunni og trýnið framaní henni og gelti og gelti. Konan baðaði út höndunum og gargaði, kötturinn stóð ofaná hausnum á henni, setti út klærnar og krafsaði í höfuðið á eiganda sínum og þegar ég náði áttum og gargaði á Fíu í ávítunartón þá stökk kötturinn út í loftið, Fía fór niður á fjórar og setti skottið milli afturlappanna og hausinn niður en konan stóð enn með hendur út í loftið, gargandi og blóðið lak niður andlitið.
Í sömu andrá kom Herdís hótelstýra hlaupandi út, því hún heyrði öskrin í konunni og geltið í hundinum og tók hún konuna að sér. Hún flutti hana á Sjúkrahúsið á Hvammstanga þar sem hún var sprautuð við stífkrampa og gert að sárunum á henni en ég fór heim og skammaði Fíu. Fía skammaðist sín ógurlega og tróð sér undir sófaborðið og lét lítið fyrir sér fara. Þegar ég hafði skammast nóg í henni, labbaði ég yfir á hótelið til að vita hvernig gengi en þá heyri ég kallað úti „Theo....“ „Theo minn....“ þar var þá eiginmaður konunnar úti í móa að kalla á köttinn, sem var auðvitað týndur eftir hrellingarnar. Ég hitti Pétur í matsalnum og hann sagði við mig “að það væri best að skjóta helvítis hundinn“ – „Skjóta Fíu“ sagði ég alveg skíthrædd – þá ætlaði hann alveg vitlaus að verða af hlátri – þetta voru sko mín fyrstu kynni af Pétri og ég hélt í einfeldni minni að hann meinti þetta. Hann hefur oft strítt mér á viðbrögðunum síðan.
En Theo kom svo í leitirnar, sem betur fer fyrir Víði og Regínu, því þetta var ekta Síams- verðlaunaköttur úr Reykjavík.... : )

Ég þakka ykkur hinum kærlega fyrir þátttökuna. Þið fáið að lesa hinar sögurnar sem nokkurs konar aukaverðlaun :-)
Nú er bara að byrja að pæla í fígúrunni. Einhverjar hugmyndir Stefanía? Hún getur bæði verið innan- og utandyra… fín við sumarbústaðinn :-)

4:34 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker