mánudagur, mars 07, 2005

Vá... langt blogg!

Jæja, eitthvað gekk illa að fá ykkur til að velja efnið. Stefanía stakk upp á dýrasögum, Heiða vildi prakkarasögur og mamma vildi annað hvort, en er greinilega ekki búin að ákveða sig. Svo þá höfum við þetta bara aðeins öðruvísi. Ég leyfi ykkur að velja... annað hvort skrifið þið dýrasögu eða prakkarasögu og besta sagan vinnur. Einfalt og skemmtilegt.
Þá er það hins vegar spurning með mitt loforð... hvort á ég að skrifa prakkarasögu eða dýrasögu? Leysum þá á einfaldan hátt... ég skrifa bara bæði. Gjörið þið svo vel:

Prakkarasaga
Ég var nú reyndar með eindæmum þægt barn og unglingur, en átti þó til að prakkarast aðeins. Ég og vinkona mín sem bjó í sama húsi áttum það til að stríða fólki aðeins, sérstaklega varð nágrannastrákur einn fyrir barðinu á okkur. Við keyptum t.d. einu sinni plat tyggjó, þ.e. það leit út eins og tyggjó, en var verulega ógeðslegt á bragðið. Svo keyptum við tyggjópakka, tókum fyrstu þrjú stykkin úr, settum eitt svona plat ofan í og svo tvö venjuleg ofan á. Svo næst þegar nágrannadrengurinn varð á vegi okkar, fengum við okkur tyggjó og buðum honum svo líka. Aumingja drengurinn varð svo ánægður með að við skyldum gefa honum með okkur að hann tuggði þennan viðbjóð heillengi, þar til hann var kominn með tárin í augun og við sprungum úr hlátri.
En þetta var reyndar ekki prakkarastrikið sem ég ætlaði að segja frá, heldur tókum við okkur til eitt kvöldið að vetri til og ákváðum að gera nokkuð voðalega sniðugt. Þegar ég hugsa til baka núna, orðin aðeins þroskaðri, er ég bara fegin að enginn skyldi slasast við þetta.
Við urðum okkur út um ruslapoka og fórum með hann að göngustíg sem var rétt hjá húsinu okkar. Við lögðum hann á göngustíginn og huldum hann svo með snjó. Svo fórum við í felur og biðum. Ekki leið á löngu þar til unglingsstrákur kom gangandi. Við urðum mikið glaðar þegar við sáum hver þetta var, því hann hafði dundað sér við að stríða okkur í langan tíma. Þegar hann steig á ruslapokann rann hann að sjálfsögðu undan honum, og hann barðist heillengi við að ná jafnvægi aftur. Við urðum mjög svekktar þegar hann náði að forðast að detta á rassinn.
Einhverntíma bundum við líka snæri þvert yfir göngustíginn þar sem mest myrkur var. Eftir langa bið kom manngrey labbandi og var næstum dottinn á hausinn á snærinu. Þegar hann var búinn að sjá hvað þetta var, klofaði hann bara yfir snærið og hélt áfram. Við vorum frekar hissa á að hann skyldi ekki fjarlægja það, því þetta var að sjálfsögðu stórhættulegt.

Dýrasaga
Einu sinni fyrir mörgum árum átti Stefanía frænka kisu að nafni Ingibjörg Túrilla, oftast kölluð Imba. Imba þessi var mikill ljúflingur í alla staði, sérstaklega eftir að hún flutti til Stefaníu, því þann stutta tíma sem hún bjó hjá okkur mæðgum í Keflavík var hún frekar villt. Hún átti það til að fela sig undir sófanum og þegar einhver labbaði framhjá, stökk hún undan sófanum og greip utan um lappirnar á viðkomandi. Einhverntíma var ég að horfa á sjónvarpið og hún lá á sófabakinu fyrir aftan mig. Ég man ekki lengur hvaða mynd ég var að horfa á, en hún var spennandi. Þegar spennan náði hámarki í myndinni, greip kötturinn utan um hausinn á mér með loppunum og hélt fyrir augun á mér. Mér brá ekkert smá!
Einu sinni sem oftar fóru Stefanía og Geiri norður á Laugarbakka til að búa til norðanátt. Þau fengu mig til að líta á köttinn á meðan, þau fóru af stað á fimmtudegi og sögðu að ég þyrfti ekkert að kíkja á köttinn fyrr en á laugardeginum, hún hefði nóg af öllu. Af einhverri ástæðu ákvað ég þó að kíkja til hennar eftir vinnu á föstudeginum. Þegar ég opnaði dyrnar bjóst ég við að Imba kæmi mjálmandi á móti mér, en það bólaði ekkert á henni. Ég fór að kalla á hana og heyrði þá dauft mjálm. Ég kallaði aftur og reyndi að ganga á hljóðið. Eftir nokkra stund var ég komin inn í svefnherbergi og kallaði enn á kisu. Þá heyrði ég mjálm að ofan. Ég leit upp í loftið alveg gáttuð, en sá engan kött. Ég kallaði aftur og heyrði þá að mjálmið kom úr efri fataskápnum. Ég opnaði og þá stökk Imba niður, hljóp þrjá hringi í kringum lappirnar á mér og tók svo á rás inn í þvottahús. Þegar hún var búin að pissa kom hún aftur og strauk sér malandi utan í lappirnar á mér. Ég athugaði skápinn sem hún var í, þar voru sængurfötin geymd, en hún hafði ekkert gert af sér þar inni.
Ég reyndi að lesa Moggann, en Imba var svo skotin í mér að hún lagðist alltaf ofan á blaðið. Það endaði svo með því að hún skreið í fangið á mér og lá þar malandi. Þetta var hún ekki vön að gera svo hún var greinilega ánægð með björgunina.
Rétt áður en ég fór, hringdi Stefanía. Hún spurði hvernig Imba hefði það og ég sagði að hún hefði það fínt, en hefði verið mjög glöð að sjá mig. Svo spurði ég: “En heyrðu, þegar ég fer... á ég þá að setja köttinn aftur inn í skáp?” Stefanía kom af fjöllum og ég sagði henni hvar Imba hefði verið. Þá mundi hún eftir að hafa farið inn í svefnherbergi og opnað skápinn til að taka út sængurföt. Geiri hefði svo sennilega farið þar inn, séð opinn skápinn og lokað honum. Aumingja kötturinn mátti því dúsa þarna í sólarhring og ég er ekki viss um að hún hefði getað haldið í sér mikið lengur.

Jæja... þá er komið að ykkur. Verðlaunin verða ekki af verri endanum... steypukall eða kelling sem verður sniðin að vinningshafanum (er ekki búin að búa hann/hana til). Ef þið vitið ekki hverskonar fyrirbæri þetta er, spyrjið þá Brynju, því hún fékk svoleiðis konu frá mér í fyrra. Ég á líka myndir af þeim tveimur sem ég hef búið til, svo ef þið viljið sjá, sendið mér bara tölvupóst og ég sendi mynd til baka.
Skilafresturinn já! Er ekki bara best að allir verði búnir að skila næstkomandi mánudagskvöld, 14. mars. Þá mun ég lesa sögurnar og birta svo þá bestu á þriðjudaginn. Að sjálfsögðu verð ég ein í dómnefndinni og mútur eru leyfðar, hehehe... nei nei, ég verð sanngjörn :-)
Farið nú að pikka... ég hlakka til að lesa sögurnar. Sendið þær svo á þetta netfang.

2:37 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker