fimmtudagur, maí 19, 2005

Spilafíkn

Þó að mitt líf sé einstaklega skemmtilegt um þessar mundir gerist stundum ýmislegt sem gerir það bara ennþá skemmtilegra. Um daginn hringdi síminn minn og ég svaraði. Kona spurði eftir mér með nafni og ég sagðist vera ég. Þá kynnti hún sig, sagði að ég hefði lent í úrtaki í könnun um spilafíkn Íslendinga og spurði hvort hún mætti spyrja mig nokkurra spurninga. Þar sem mér finnst mjög gaman að svara könnunum sagði ég já, en velti því samt fyrir mér hvers vegna ég hefði lent í þessu úrtaki, þar sem ég er á bannlista hjá þjóðskrá.
Hún byrjar að spyrja mig um mína spilavana, hvað ég eyði miklum peningum í mánuði í fjárhættuspil... “ööö... er lottó fjárhættuspil?” Svo var ég spurð hvort ég hefði logið að ættingjum um fjárhættuspil, hvort ég hefði stolið frá þeim til að fjármagna fjárhættuspil, hvort ég hefði komið í ólögleg spilavíti á Íslandi og fleira í þessum dúr. Mér fannst þetta voðalega skemmtilegt, því ég held ég sé alveg laus við spilafíkn, þó ég sé áskrifandi af einni röð í Víkingalottó.
Þegar fíknarspurningunum lauk tóku við spurningar af almennum toga. Ég var spurð um hjúskaparstöðu og barnafjölda og svo hvaða ár ég væri fædd.
“1972” svaraði ég af fullri hreinskilni. Þá kom löng þögn og svo: “Er þetta Jenny Johansen?” Ég svaraði því að sjálfsögðu játandi því síðast þegar ég vissi var það mitt nafn. “Jenny Johansen, Skallagrímsgötu í Borgarnesi?” Þá sprakk ég úr hlátri... það var sem sé föðursystir mín sem átti að lenda í þessari könnun! Ekki í fyrsta sinn sem okkur er ruglað saman :-) Þar sem ég var búin að svara öllum spurningunum var mér bara bætt inn í úrtakið, þannig að þessar 20 mínútur sem fóru í svörin voru ekki til einskis.
En að öðru: Forkeppnin í Eurovision er í kvöld og líður óðum að keppninni sjálfri. Allir sem hafa eitthvað haft um málið að segja gera ráð fyrir að Selma komist upp í aðalkeppnina. Hér kemur spáin um úrslitin í keppninni á laugardaginn:
Stefanía – segir að Selma lendi í 14. sæti og að Hvíta Rússland vinni
Jenny – segir að Selma lendi í 6. sæti og Hvíta Rússland vinni (er að herma)
Mamma – segir að Selma komist hátt
Snjólaug – segir að Selma lendi í 3. sæti
Heiðrún – segist vilja komast í Eurovisionpartý
Iris – segir að Selma vinni keppnina
Brynja – segir að Selma vinni keppnina
Katrín – segir að Selma lendi í 4. sæti

10:46 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker