laugardagur, ágúst 27, 2005

Jæja!

Er ekki kominn tími á blogg? Jú, ég held það bara. Það hefur nú ekki verið mikið um að vera hjá mér undanfarið. Fór jú í frí í Dalina og þar höfðum við það rosa gott, grilluðum á hverjum degi, lékum við hundinn og skoðuðum okkur aðeins um. En veðrið hefði nú mátt vera skemmtilegra því það rigndi á hverjum degi. Emil fannst þetta þvílíkt mikið stuð, hann fékk að vera laus úti og elta boltann sinn og frisbí diskinn. Svo fékk hann heimsókn frá tíkinni á bænum og hún beit hann í rassinn og lék sér að dótinu hans. Hann var voða hissa en kurteis.
Við skruppum á Hvammstanga til að fara í bankann, ég mundi nefnilega allt í einu eftir því að ég er með bankahólf þar á leigu en gat alls ekki munað hvað var í því. Svo ég kíkti í hólfið og svalaði forvitninni. Því næst lá leiðin í stórmarkað KVH og þar keyptum við okkur folaldapiparsteik (algert sælgæti) og mjólk og hittum Gunnu á Söndum. Skemmtileg tilviljun því stefnan var einmitt tekin á Sanda næst. Hún bauð okkur í kaffi og við fórum í Sanda. Vorum á undan Gunnu heim og þar hitti Emil tíkina á bænum og hvolpinn hennar. Hvolpurinn var mjög kátur og lék við gestinn en tíkin var ekki eins kát, urraði og gelti á hann og beit hann svo í rassinn þegar hann hætti sér of nálægt. Hvað er þetta eiginlega með tíkur og rassinn á hvuttanum mínum? Hún var svo farin að ráðast á aumingja Emil við hvert tækifæri svo það endaði með því að hún var lokuð inni, en Emil og hvolpurinn fengu að skottast saman úti.
Svo eins og í öllum mínum fríum veiktist ég... að sjálfsögðu. Og var bara þónokkuð veik meirihluta vikunnar. Þetta fannst mér nú ekki beint sniðugt en fer að verða vön. Ég er meira að segja að hugsa um að panta ekki sumarfrí í október þegar við förum til Kanarí... væri heiðarlegast að panta bara veikindafrí :-) En talandi um Kanarí (eða Lanzarote eins og eyjan heitir víst), við fengum aukaviku fyrir lítinn pening, svo við fáum að vera þar í þrjár vikur! Sól, sandur og sjór (og bjór) í 21 dag :-)
Síðustu helgi skruppum við hjónin í Borgarnes og fengum að ráðast á rifsberjarunnann hjá Skarphéðni og Heiðu. Við tíndum ber af miklum móð og nú eru þau orðin að hlaupi a la amma.... namminamm. Núna ætla ég að fá mér ristað brauð með rifsberjahlaupi og osti og horfa á DVD. Var nefnilega að eignast fyrstu syrpuna af Frasier og hún er frábær!
Heyrumst síðar.

12:30 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker