miðvikudagur, september 07, 2005

Pirr

Af hverju lætur maður stundum smáatriði fara í taugarnar á sér? Til dæmis núna um helgina, þá lét ég það ekki pirra mig á laugardagskvöldið þó við hjónin værum gagnrýnd fyrir aldursmuninn á okkur, ég sat á mér þegar ég var spurð af hverju ég ætti ekki börn og fékk svipinn sem alltaf fylgir þegar ég svara að ég vilji það ekki, ég lét það sem vind um eyru þjóta þegar mér var sagt 400 sinnum að ég ætti að borða hákarl þó ég kúgist af honum því hann sé svo hollur... en þegar ég komst að því að við ættum að sofa á einbreiðri dýnu þá fauk í mig! Sennilega hefur þetta verið einhver uppsöfnuð gremja sem braust þarna út. Sennilega var það þetta með barneignirnar sem var að pirra mig. Svipurinn sem ég fæ þegar ég segist ekki vilja eiga börn segir nefnilega: “Þú ert stórundarleg því allar konur vilja eiga börn!” Af hverju er þetta viðhorf í gangi í þjóðfélaginu? Af hverju eiga allar konur að vilja eiga börn? Mér finnst það bara gott mál að flestar konur vilji það, en mér finnst ekkert að því að sumar vilji það ekki. En við, þessi minnihlutahópur, verðum sífellt fyrir aðkasti út af þessu vali okkar.
Svo koma stundum rökin með að viðhalda mannkyninu, því það er víst skylda allra kvenna... af hverju? Hefur fólk virkilega ekki heyrt um offjölgun mannkynsins? Það á kannski frekar við úti í heimi en hér á skerinu. Og þó... kannski mannekla á leikskólum sé ekki bara út af lágum launum... kannski eru börnin bara orðin of mörg?
Nóg komið af pirringi... annars var helgin bara virkilega skemmtileg. Við fórum norður á föstudeginum og beint í mikið fjör á Söndum. Okkur til mikillar furðu þekkti Elli eiginlega fleira fólk þar en ég... sniðugt.
Emil fór að sjálfsögðu með í sveitina og sættist við tíkina. Hún sýndi honum að vísu til að byrja með hvað hún hefði flottar hvítar tennur en svo þegar hann var búinn að hrósa tanngarðinum hennar tók hún hann í sátt. Sonur hennar var hins vegar svo rosalega skotinn í Emil að hann riðlaðist stanslaust á honum og var alveg sama hvor endinn sneri að honum. Emil reyndi að setjast niður en hvolpinum var sko alveg sama um það.
Á laugardaginn var svo brunað í réttirnar og þar gengum við um, hittum fólk og fé og drógum nokkrar skjátur (meira að segja Elli dró helling þó þetta væri í fyrsta sinn sem hann kom í fjárréttir). Veðrið var ótrúlegt, logn og hlýtt... nokkuð sem gerist nú ekki oft í Húnaþingi vestra. Emil skemmti sér ágætlega laus til að byrja með en þegar hann fór að gelta á hesta þorðum við ekki annað en að hafa hann í taumi til að hann myndi nú ekki fæla undan einhverjum gangnamanninum. Hann hitti móðurbróður sinn þarna og sennilega er hvuttinn minn mjög sexý því frændinn riðlaðist stanslaust á honum þar til Emil sýndi honum tennurnar :-)
Þegar flestar kindurnar voru komnar í sína dilka héldum við aftur heim að Söndum. Þar var svo þvílík veisla og fullt af fólki. Svo þegar leið á nóttina héldum við Elli yfir á Laugarbakka þar sem við fengum svefnpláss í tvíbreiðu rúmi. Elli kíkti aðeins upp á ballið en ég fór beint undir sæng og svaf fram eftir morgni.
Eftir morgunverð hjá Regínu skruppum við svo yfir í Fitjárdal fyrir Heiðrúnu og svo brunuðum við suður. Tókum rándýrt bensín í Staðarskála, stoppuðum svo í Baulu til að borða og mælum eindregið með því, góð þjónusta, góður matur og fín aðstaða.
Ef þið viljið sjá myndir úr réttunum þá skuluð þið smella hér. Þarna má líka finna mynd af honum Jóhannesi hennar Regínu, það er sko fínn kall! :-)

1:02 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker