sunnudagur, september 19, 2004

Billjard og búst

Þá er kominn sunnudagur og nokkuð skemmtileg helgi að verða búin. Við Emil skruppum norður í land á föstudaginn, fórum í heimsókn að Mýrum þar sem Kalli skipti um olíu á bílnum mínum og ég uppfærði tölvuna hans í staðinn. Um kvöldið fór ég í heimsókn til Brynju, og við frænkurnar skunduðum á Þinghúsið og ætluðum nú aldeilis að djamma þar. Þegar þangað var komið leituðum við lengi um allt hús að fólki, en fundum bara fjóra unga pilta sem voru að spila billjard. Við spiluðum við þá og við hvor aðra, og Brynja sigraði hvern leikinn á fætur öðrum... mætti halda að mamma hennar hafi átt þetta borð og Brynja fengið að æfa sig eitthvað :-) Þegar við urðum leiðar á þessum leik, fengum við einn piltinn til að skutla okkur heim á Laugarbakka og þar fengum við okkur búst, og fórum að sofa.
Við Emil brunuðum svo aftur í nesið í gær og höfðum það gott í sófanum fram eftir kvöldi... hann steinsofnaði reyndar fljótlega, enda fékk hann að gista á Mýrum og hefur örugglega verið upptekinn alla nóttina við að leika við Slaufu, henni eflaust til lítillar gleði.
Á morgun byrja ég aftur í vinnunni eftir þetta stutta sumarfrí og Emil fer með mér í bæinn og verður á hundaleikskóla á meðan ég er í vinnu. Vonandi gengur það vel, svo hann þurfi ekki alltaf að vera einn heima þegar ég fer í bæinn. Enda vil ég ekki endalaust þurfa að níðast á ættingjunum hér í nesinu, þó þau hafi verið einstaklega hjálpsöm.

2:11 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker