sunnudagur, október 31, 2004

Verðlaunin...

Jæja krakkar mínir... nú eru komnar fjórar sögur í keppnina, hver annarri skemmtilegri. Og bara þrír dagar eftir af skilafrestinum. Nú er um að gera að setjast við tölvuna og skrifa niður ykkar neyðarlegu minningar, fá smá roða í kinnarnar og leyfa okkur hinum að hlæja :-)
Ég er enn að basla við að ákveða verðlaunin, en sennilega mun vinningshafinn fá að velja á milli þess að fá nýja kilju, tölvuleik eða mjólkurfernuljósaseríu :-) Svo þið sjáið að verðlaunin eru ekkert plat.... enginn flugmiði samt, Heiðrún.
Annars er lítið að frétta af mér, ég er bara búin að vera heima í rólegheitunum þessa helgi, eins og venjulega. Var að uppgötva um daginn að ég hef bara farið tvisvar á djammið í Borgarnesi síðan ég flutti hingað í vor. Hvað er ég eiginlega búin að vera að gera?? Djammaði reyndar tvisvar í Skandinavíu og svo var ein skyrskemmtun í Húnaþingi, en samt... ég hlýt að vera orðin gömul. Samt ekki komin á fimmtugs- eða sextugsaldurinn eins og sumir ;-)
Var að hreinsa tölvuna mína áðan, hún var eitthvað slöpp... fékk einhverja vírussýkingu greyið. Mikið um vírusárásir þessa dagana, Lykla Pétur hefur varla undan að stoppa alla þessa óværu sem reynir að ná völdum í tölvunni minni. Hann stendur sig samt vel blessaður. Núna er tölvan mín hin sprækasta og ekkert vesen í gangi.
Regína reif mig upp úr rúminu kl. hálf ellefu í morgun, hún og Bensinn voru á leið í Hvalfjörðinn að eltast við kræklinga. Við Emil vorum svo mygluð að við nenntum ekki með, samt fórum við að sofa um miðnættið... letihaugar.
Í gær skruppum við í heimsókn til Irisar í nýju íbúðina (gleymdi myndavélinni heima mamma) og Emil var svo ánægður með herbergið hans Kola að hann meig á gólfið og skeit á fötin hans Kola sem voru á gólfinu. Hann ávann sér ekki miklar vinsældir við þetta og ákvað því að fara bara að sofa á stofugólfinu.... skemmtilegur gestur. Ég fékk svo bílinn minn lánaðan til að fara í búð og þegar ég var komin þangað hringdi Iris og bað mig að versla fyrir þau mæðgin, því Koli var kominn með hita. Hann er búinn að vera kvefaður síðan Iris kom heim að utan, með slæman hósta... vírusar herja greinilega á fleira en tölvur.


3:01 e.h.
|

föstudagur, október 29, 2004

Allt að gerast...

Jæja, þá eru komnar tvær sögur í keppnina um neyðarlegasta atvikið. Þær eru báðar mjög fyndnar, svo nú er um að gera fyrir ykkur að pikka inn ykkar sögur til að reyna að slá þessar út :-) Munið svo að senda þær á þetta netfang og það þarf enginn að vera feiminn, því ég mun ekki gefa neitt upp um höfundinn nema með leyfi. Ég vona að ég fái fullt af sögum, því ég er búin að veltast um af hlátri hérna... og hláturinn lengir lífið. Kannski ég birti bara fleiri en eina sögu... hmmm.....
Ég hitti Húnvetninga þegar ég kom út úr KB (fór inn í Samkaup, kom út úr KB) í dag. Það voru Gísli og Aníta (sko þessi úr sveitinni, ekki þau á Tanganum) sem voru í menningarferð í stórborginni Borgarnesi. Gaman að hitta ykkur Aníta :-) Það þýddi sko ekkert að segja Anítu fréttir af mér, því hún sagðist hafa séð allt á blogginu. Líst vel á þetta.... nú þarf ég ekki að segja neinum neitt, allir vita allt um hvað ég er að gera :-) Svona á þetta að vera...
Farin að borða spergilkálið mitt, mmmm......

6:40 e.h.
|

fimmtudagur, október 28, 2004

Besta sagan - verðlaun í boði!

Upp er runninn fimmtudagur. Við Emil skruppum til Reykjavíkur í gær, fórum í heimsókn til afa og ömmu og ætluðum að heilsa upp á Fjölni líka, en hann var ekki heima þegar okkur hentaði :-) Ég fór til læknis og hann var svo "vondur" við mig að ég hélt ég myndi ekki komast hingað heim aftur. Þegar það tókst skreið ég upp í rúm og breiddi sængina upp undir höku og lá í keng í þrjá tíma. Emil var svo indæll að vera slappur með mér, lá til fóta og hreyfði sig ekki. En þetta lagaðist allt saman og nú er ég hress og spræk. En það getur stundum verið erfitt að vera kona...
Sá einhver tunglmyrkvann í nótt? Ég var búin að lesa að hann ætti að byrja sex mínútur yfir miðnætti og ætlaði að bíða til að sjá, tunglið var beint fyrir utan svefnherbergisgluggann minn. Ég sofnaði yfir bókinni sem ég ætlaði að lesa þangað til að myrkvinn byrjaði, en vaknaði tólf mínútur yfir tólf og skreiddist út í glugga. Þá var tunglið bara alveg eins, svo ég fór bara upp í rúm og hélt áfram að sofa... missti sem sé af þessu öllu saman. Oh well... en ég sá sólmyrkva einu sinni... það var gaman.
Mér datt í hug um daginn að gera dálítið skemmtilegt hér á blogginu og fá mína tryggu lesendur í lið með mér. Mig langar að biðja ykkur að skrifa niður það neyðarlegasta sem hefur komið fyrir ykkur og senda það hingað. Ég les sögurnar og birti svo þessa sem mér finnst fyndnust. Þið getið beðið mig um að birta hana ekki undir nafni ef þið viljið ekki að aðrir viti hver þið eruð, og þið megið meira að segja senda mér söguna nafnlaust af einhverju nafnlausu netfangi ef þið viljið. Ég ætla reyndar að veita smá verðlaun, þannig að ef ég veit ekki hver það er sem vinnur fær viðkomandi ekki verðlaunin, en það er allt í lagi :-) Skilafrestur á sögunni verður 3. nóvember og sú besta verður birt þann 4. nóvember næstkomandi. Stuttur frestur, ég veit... en annars gleymist þetta bara :-) Ef þetta gengur vel læt ég ykkur hafa annað viðfangsefni þegar þessari keppni er lokið :-) Það hefur eitthvað neyðarlegt komið fyrir alla, svo látið nú ljós ykkar skína :-)

Ég áskil mér rétt til að stytta söguna ef hún verður of löng....
10:52 f.h.
|

mánudagur, október 25, 2004

Skókassar...

Góðan dag og gleðilega vinnuviku! Þá erum við Emil komin aftur í nesið og litli hvuttinn minn var mjööög ánægður að koma heim. Hann var í pössun hjá systur sinni um helgina og þó hann skemmti sér vel við að leika við hana var hann mikið glaður þegar mamma hans kom að sækja hann. Hann var svo glaður að hann gerði allt rétt, settist bara niður fast upp við lappirnar á mér og mændi á mig, reyndi ekki einu sinni að flaðra upp um fólkið í kring. Þegar við komum heim skreið hann upp í fangið á mér í sófanum, setti hausinn upp við hálsinn á mér og steinsofnaði... voða sætt, en hann fer nú að verða fullstór fyrir fangið á mér, er orðinn 18 kíló :-)
Helgin var fín, mikið spjallað og brallað... en Regína; ég var ekki í Húnaþingi svo ég komst ekki á ball með Sixties.
Skókassar já... fyrst þið endilega viljið vita það, þá bý ég til gjafaumbúðir úr skókössum, og eins og Heiðrún veit, þá eru umbúðirnar það flottar að það má nota þær í ýmislegt... ekki bara henda þeim í ruslið. Ekki satt Heiðrún? Ég kaupi mér nánast aldrei skó, bara í Svíþjóð og þá nenni ég ekki að drösla kassanum með heim, þannig að það er alltaf skókassaskortur á mínu heimili. Ég get reyndar notað alla kassa með lausu loki... bæði minni og stærri.
Jæja, ætli það sé ekki best að sinna vinnunni aðeins...

11:26 f.h.
|

fimmtudagur, október 21, 2004

Helgin er að koma...

Jæja... hún Katrín lagði svo mikla áherslu á að ég bloggaði, svo ég ætla bara að hlýða, þó ég hafi nákvæmlega ekkert að segja, enda hef ég alltaf verið svo hlýðin (er það ekki annars?). Svo er ég líka uppáhaldsfrænkan hennar Katrínar sem vinnur bæði í Hyrnunni og Reykjavík (algert aukaatriði að ég vinn hvorki í Hyrnunni né Reykjavík þessa dagana). Hér kemur blogg:
Ég skrapp til Reykjavíkur í gær, það var vont veður og allt það... eins og venjulega á þessum árstíma. Ég keyrði framhjá vörubíl sem hafði fokið út af (í engri hálku) og sem betur fer fyrir Irisi var það ekki landflutningabíllinn sem kom með dótið hennar.
Ég stoppaði stutt í bænum, keypti mér Subway og hélt svo til baka í ennþá meira roki. Nagladekkin sungu alla leiðina heim. Ég fór beint til Irisar í nýju íbúðina og gaf henni glænýtt Andrésblað í innflutningsgjöf. Svo fórum við heim til mín, hleyptum Emil út að pissa og horfðum svo á vídeó þar til við fórum að sofa.
Í dag er bara vinnan, svo ætlum við Emil að skreppa í heimsókn til systur hans í kvöld. Ég er í fríi á morgun, því ég var að vinna síðustu helgi, svo ég ætla að nota helgina í að slæpast á Norðurlandinu og hitta gamla vini og vinkonur... gaman gaman :-) Iris ætlar sennilega í bæinn um helgina og Ásta verður að vinna, svo það er engin ástæða til að hanga í Borgarnesi... þó að ball ársins sé einmitt núna um helgina... skagfirska sveiflan á fullri ferð!
Dettur ekkert fleira í hug til að segja. Eða jú... ef þið eigið skókassa sem þið ætlið ekkert að nota megið þið alveg gefa mér þá... og hafa mig í huga ef þið kaupið ykkur skó :-)

1:35 e.h.
|

mánudagur, október 18, 2004

Veturinn er mættur!


Vetur 18. október 2004
Posted by Hello

Jæja, það er bara kominn vetur! Hér í Borgarnesi eru hríðarél og slatti af snjó yfir öllu... og skítkalt. Mér finnst veturinn nú vera fullsnemma á ferðinni, fúlt að þurfa að setja vetrardekkin undir löngu áður en það má. Emil er nú ekki vanur að vilja fara út á nóttunni, en um fimmleytið í morgun varð honum eitthvað brátt í brók og ég mátti staulast á lappir til að hleypa honum út. Reyndar var ég vakandi þegar þetta var, er ekki búin að sofa meira en tvo tíma í einu síðustu sex nætur, en það er önnur saga. Ég sem sé fór í slopp og elti hundinn niður. Þegar ég opnaði útidyrnar sá Emil snjó í fyrsta sinn og varð svo hissa að hann ætlaði ekki að þora út. Þegar hann hafði sig loksins út í þetta hvíta, kalda og blauta þurfti hann að þefa svo mikið að hann steingleymdi ástæðunni fyrir því að hann var utandyra. En eftir nokkra bið rifjaði hann það upp og kláraði sín mál. Þegar hann kom inn var hann svo spenntur að hann hljóp um allt og ég var heillengi að róa hann niður.
Helgin var róleg, Iris og Koli fóru norður á laugardaginn og ég var bara heima að taka til og vinna. Þegar Iris kom að norðan fór ég með henni í bæinn til að skila af mér vinnugögnunum, svo fórum við í 10/11 og sáum að það er dýrara að versla þar en í KB í Borgarnesi sem er að verða Samkaup. Ég keypti því bara algerar nauðsynjar (Cheerios) og ætla bara að fara í kaupfélagið í dag þegar Iris kemur heim úr vinnunni. Nenni ekki fyrr, því hún er á bílnum og ég nenni ekki að fara að leita að trefli, húfu og vettlingum...


1:25 e.h.
|

föstudagur, október 15, 2004

Lamadýr og önd

Upp er runninn gullfallegur föstudagur, sólin skín og fiðrildin flögra um stofuna hjá mér (hvaðan koma öll þessi fiðrildi??). Framundan er helgin sem ég mun eyða í vinnu en það er bara allt í lagi, alveg ágætt að vinna um helgar. Eruð þið ekki öll í góðu skapi annars? Ef ekki, þá skuluð þið kíkja á þetta, því lamadýr eru gleðigjafar :-) Hafið kveikt á hátölurunum...
Fyrir þá sem ekki vita, Iris er komin með vinnu.... og íbúð... Heiða reddar öllu. Hún er svona Borgarnesútgáfan af Stefaníu :-)
Ég hef í rauninni nákvæmlega ekkert að segja, vaknaði bara í svo góðu skapi í morgun að ég ákvað að deila því með ykkur :-)


1:17 e.h.
|

miðvikudagur, október 13, 2004

Kanski er nafnlausum Langárþursakindum beitt á plastherðatré hjá Dússa...

Sjaldan hefur umræðan á kommentunum verið eins lífleg og á því sem ritað var síðastliðinn mánudag. Hér kemur því nýtt blogg þar sem einn af mínum tryggu lesendum fór fram á að skipt yrði um umræðuefni.
Og hvað á þá efnið að vera? Ekki veit ég það.... Jú, heyrðu... get notað tækifærið og auglýst eftir geymsluplássi fyrir dótið hennar Irisar sem er sennilega að koma til landsins í dag. Veit einhver um nógu stórt pláss fyrir 5 rúmmetra af dóti? Reyndar er Heiða með alla anga úti fyrir Irisi til að finna geymslupláss og íbúð og aukavinnu, dugleg hún Heiða :-)
Ég vil benda þeim sem ekki hafa tekið eftir því á að Iris litla systir er mætt í bloggheima. Hér getið þið skoðað hennar blogg og einnig er hún komin efst á listann hér til hliðar. Verið nú dugleg að kommenta hjá henni líka. Svo mæli ég með því að allir fari inn á bloggið hennar Brynju og hvetji hana til að skrifa nú eitthvað skemmtilegt, því hún hefur ekkert skrifað í þessum mánuði....
Margir hafa verið að pæla í hver Anonymous er... ég hef aðallega leitt hann (já hann) hjá mér, því ég nenni ekki að vera forvitin. En svona ykkur til upplýsinga, þá er hann (já hann) með ameríska ip tölu... hmmm... Íslendingur í Ameríku... hver getur það verið? Og til að koma í veg fyrir endalausar pælingar í framtíðinni ef einhver nennir (eða kann) ekki að skrifa nafnið sitt í kommentin, þá verður þeim eytt jafnóðum og ég sé þau.... og hananú! Ég er ekkert pirruð, finnst bara að fólk eigi að skrifa undir nafni :-)1:16 e.h.
|

mánudagur, október 11, 2004

Sauðamessa


Kindur á Borgarbraut Posted by Hello

Enn ein vinnuvikan hafin... og þar sem skrifstofan mín í Reykjavík hefur enn ekki verið hreinsuð, þá er ég bara heima.
Helgin var alveg ágæt bara. Við Iris og Emil fórum út á tröppur á laugardaginn og horfðum á allar kindurnar sem hlupu framhjá og svo allt fólkið á eftir sem var margfalt fleira. Við eltum svo liðið niður í bæ, fylgdumst með skemmtiatriðunum og hittum ættingja úr báðum ættum. Þarna voru mörg góð atriði, en það skemmtilegasta var jarm idolið. Ég sá að ég hefði auðveldlega getað unnið það og fengið pizzuveislu í Hyrnunni... man það næst :-)
Um kvöldið stóð valið á milli þess að fara norður og djamma með frænkunum eða fara á ball hér í nesinu. Ég tók þá ákvörðun að vera frekar hér, því ég er búin að skoða karlmannamarkaðinn í Húnaþingi ;-) Við hringdum í Heiðu og sögðum henni að það væri kvennakvöld. Hún mætti hress og við skunduðum allar þrjár á ball í Búðarkletti, komum þangað rennblautar því það var rigning úti. Þar dönsuðum við eins og brjálaðar... þar til klukkan varð hálf þrjú. Þá gáfumst við gömlu konurnar upp og fórum út.... Iris tók með sér herðatré og við löbbuðum af stað í áttina heim, en það var svo mikil rigning að við komum við á Dússabar og fundum okkur far heim.
Gærdagurinn leið svo í rólegheitum og heyrnarleysi hjá mér (við dönsuðum nefnilega beint fyrir framan einn hátalarann). Ég fór ekkert út, en Iris og Emil fóru út að labba á milli haglélja.


12:51 e.h.
|

miðvikudagur, október 06, 2004

Fjölgun á heimilinu


Koli, Emil og leikfangið góða Posted by Hello


Jæja, þá er Iris komin heim! Gamla góða frónið ákvað að hvíla hana á hitanum og lognið var svo yfir sig ánægt með að vera búið að endurheimta hana að það þeyttist um allt á ofsahraða. Þegar ég fór suður voru 40 m/s á Kjalarnesinu í hviðum, ég elti vörubíl og hann var oftast þversum. Sjórinn í Kollafirðinum var að æfa flug og það var nokkuð tilkomumikil sjón. Þegar við fórum upp í Borgarnes var svipað ástand, nema vindhraðinn var kominn í 43 m/s... endalaust fjör. Ágætt að það var engin hálka :-)
Emil er af einhverjum orskökum logandi hræddur við börn, og þegar við Iris kynntum hann fyrir Kola (Emil var í pössun hjá ömmu og afa á meðan ég fór að sækja Irisi) pissaði hvolpurinn á gólfið af hræðslu. En svo varð forvitnin hræðslunni yfirsterkari... hjá þeim báðum og nú eru þeir ágætis vinir. Koli er mjög duglegur að siða hvolpinn til. Svo þegar Iris og Koli fóru í búðina fann Koli leikfang handa Emil og fékk mömmu sína til að kaupa það. Þetta leikfang vakti svo mikla lukku hjá hvutta að hann er alltaf með það.
Iris og Koli fóru í sund með Rakel Ernu og við Emil erum því bara tvö hér heima. Emil notar tímann til að sofa og safna kröftum fyrir næstu kennslustund hjá litla manninum og ég á að vera að vinna... en er að blogga :-)


4:04 e.h.
|

laugardagur, október 02, 2004

Jóla hvað?

Laugardagur... tveir dagar þar til Iris kemur heim. Leiðinlegt fyrir mömmu, en gaman fyrir okkur hér á Íslandi. Ég fæ Kjartan Óla lánaðan á mánudaginn til að fara með hann til að sækja Irisi á flugvöllinn... það verður gaman að sjá gleðina þá :-)
Í gærkvöldi átti að vera partý, en það varð ekki... í dag átti að vera Friends maraþon, en það frestast þar til á morgun... svo ég er búin að nota tímann í að vinna við jólagjöfina og hún er bara alveg að verða tilbúin, enda ekki seinna vænna, það eru að koma jól :-) Þeir sem eru vanir að fá frá mér jólagjafir geta sem sé farið að hlakka til.
Núna ætlum við Emil að fara út að hreyfa okkur, svo ætlum við að skunda í Hyrnuna og leigja okkur spólu og svo ætlum við að eyða því sem eftir er dags eins og klessur upp í sófa :-) Ciao

3:53 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker