mánudagur, október 11, 2004
Sauðamessa

Kindur á Borgarbraut

Enn ein vinnuvikan hafin... og þar sem skrifstofan mín í Reykjavík hefur enn ekki verið hreinsuð, þá er ég bara heima.
Helgin var alveg ágæt bara. Við Iris og Emil fórum út á tröppur á laugardaginn og horfðum á allar kindurnar sem hlupu framhjá og svo allt fólkið á eftir sem var margfalt fleira. Við eltum svo liðið niður í bæ, fylgdumst með skemmtiatriðunum og hittum ættingja úr báðum ættum. Þarna voru mörg góð atriði, en það skemmtilegasta var jarm idolið. Ég sá að ég hefði auðveldlega getað unnið það og fengið pizzuveislu í Hyrnunni... man það næst :-)
Um kvöldið stóð valið á milli þess að fara norður og djamma með frænkunum eða fara á ball hér í nesinu. Ég tók þá ákvörðun að vera frekar hér, því ég er búin að skoða karlmannamarkaðinn í Húnaþingi ;-) Við hringdum í Heiðu og sögðum henni að það væri kvennakvöld. Hún mætti hress og við skunduðum allar þrjár á ball í Búðarkletti, komum þangað rennblautar því það var rigning úti. Þar dönsuðum við eins og brjálaðar... þar til klukkan varð hálf þrjú. Þá gáfumst við gömlu konurnar upp og fórum út.... Iris tók með sér herðatré og við löbbuðum af stað í áttina heim, en það var svo mikil rigning að við komum við á Dússabar og fundum okkur far heim.
Gærdagurinn leið svo í rólegheitum og heyrnarleysi hjá mér (við dönsuðum nefnilega beint fyrir framan einn hátalarann). Ég fór ekkert út, en Iris og Emil fóru út að labba á milli haglélja.
12:51 e.h.