sunnudagur, nóvember 07, 2004

Afmæli og ný keppni

Jæja... góðan daginn! Þá er kominn sunnudagur og þynnkan loksins horfin. Hún var að vísu merkilega lítil bara miðað við mikla og langvarandi drykkju... úff! En í gær var ég aðallega þreytt, enda var lítið sofið.
Við komumst norður við illan leik á föstudaginn, komumst allt í einu að því að heiðin var flughál þegar við komum að slysi þar og allir fóru að hægja á sér, en ekkert gerðist þegar ég steig á bremsurnar. Ég náði þó að forðast að lenda aftan á næsta bíl en þegar ég leit í spegilinn var jeppi að nálgast mig óðfluga. Hann færði sig út í kantinn til að lenda ekki á mér og ég færði mig til vinstri... svo þetta slapp. Fjúff! Við stoppuðum svo í Brú, og þegar ég steig út úr bílnum var ég næstum dottin, svo mikil var hálkan... og engin leið að sjá hana, því vegurinn virtist bara vera blautur í rigningunni. Svona hált var alla leiðina sem eftir var, og til að bæta gráu ofan á svart biluðu rúðuþurrkurnar á bílnum mínum... þær þurrka að vísu ennþá, en stoppa alltaf á miðri rúðunni, beint í sjónlínu.
Afmælisveislan mikla var alveg meiriháttar skemmtileg og veitingarnar afbragðsgóðar. Ég hámaði í mig krækling og humar og rækjur og margt fleira góðgæti. Takk fyrir okkur Regína! Svo var sungið... misvel. Hljómsveitin var bara alveg prýðileg og við Hrönn gerðum okkar besta í okkar starfi sem grúppíur.
Eftir mikið djamm á Laugarbakka var skundað út á Tanga þar sem við náðum í restina af sláturhússlúttinu. Við dönsuðum mikið... svo mikið að ég gleymdi að drekka og það hefur sennilega forðað mér frá timburmönnunum. Ég fékk kjaftshögg á gólfinu, mjög óvænt og mjög óvart, frá Pólverja sem lifði sig mikið inn í dansinn. Þetta olli bólginni efri vör og blóðnösum... var frekar vont. Aumingja strákurinn var alveg miður sín yfir þessu og elti mig það sem eftir var kvöldsins og sagði "sorry, sorry, sorry"... sennilega eina orðið sem hann kann í ensku, alla vega náði ég ekki neinu öðru af viti upp úr honum.
Eftir ballið fórum við svo í partý á verbúðinni og sátum þar og kjöftuðum þar til okkur var hent út... þá var beðið eftir fari heim og það féll í hlut Guðjóns að sækja okkur stöllur... aumingja Guðjón að kynnast okkur svona.
Eftir þetta tók við löng leit að sænginni minni sem átti að vera í ganginum hjá Regínu, en var bara ekki þar. Eftir að hafa vakið fullt af fólki sem svaf víða í félagsheimilinu og líka fólk sem svaf í öðru húsi og var ekki alveg edrú, fann Iris loks sængina í kuðli á svefnherbergisgólfinu hjá Regínu. Ég er ekki enn búin að komast af því hvers vegna einhver stal pokanum með sænginni, hellti úr honum í svefnherberginu hennar Regínu og reif sængina úr lakinu og skildi þetta allt eftir í hrúgu...
Við Emil vöknuðum í hádeginu og fórum út í rokið. Svo fórum við aftur að sofa og fórum ekki á fætur fyrr en hálf þrjú. Þá stauluðumst við systur heim til Brynju, átum og fórum svo í Skeggjastaði. Þar fylltum við bílinn af kössum og svo brunuðum við í Sanda, þar sem Emil heimsótti systur sína, ég baukaði aðeins í nýju tölvunni þeirra og Iris eignaðist kettling. Við ætluðum að fá lánað kattabúr handa honum á Mýrum, en litli kisinn var svo rólegur og svaf bara í fanginu á Irisi svo það reyndist engin þörf á búri.
Sögukeppnin tókst bara alveg prýðilega, fannst ykkur það ekki? Ég er því að hugsa um að velta annarri keppni af stað. Í þetta sinn verður efnið "besti hrekkurinn" og miðað við mína fjölskyldu ætti nú ekki að vera neinn skortur á efni í góðar sögur :-) Þá er ég sérstaklega að hugsa um ákveðna ömmusystur mína...
Sem fyrr má skila sögunum á þetta netfang og sömu reglur gilda og síðast. Skilafrestur er til 15. nóvember og besta sagan verður birt þann 16. nóvember.


1:32 e.h.
|

fimmtudagur, nóvember 04, 2004

Og sigurvegarinn er....

Þá er kominn fimmtudagur og ég mætt á Reykjavíkurskrifstofuna mína eftir langa bið. Mér var lofað hreinni og fínni skrifstofu, en það eina sem hefur lagast er að það eru komnar plötur í loftið... enn er allt í ryki samt og ég er búin að klóra mér alveg sundur og saman í allan dag. Það er sko ekkert gaman að hafa ofnæmi fyrir vinnustaðnum!
Emil er á leikskólanum... hann ætlaði sko alls ekki að vera eftir þar, hefur greinilega fengið alltof langt frí. Ég mátti teyma hann í gegnum allt húsið og út í gerðið þar sem hann hitti fullt af öðrum hvolpum. Hann sat fyrst fast upp við mig, en hinir hvolparnir voru nú fljótir að ná honum í leik með sér og þá læddist ég í burtu.
En nóg komið af kjaftæði, nú er komið að því sem allir bíða eftir........ úrslitunum í keppninni um neyðarlegasta atvikið. Sjö sögur bárust og allar voru þær frábærar. Það var sko ekkert auðvelt að velja... þó ég sé bara ein í dómnefndinni. Það var meira að segja svo erfitt að ég get ekki gert upp á milli tveggja frásagna... svo þær vinna bara báðar. Ég mun senda vinningshöfunum tölvupóst með vali á vinningum.

Ég vil þakka kærlega öllum þeim sem sendu inn sögur, þið eruð frábær :-)
Þá er bara að vinda sér í þá fyrri, hún barst á síðustu stundu frá Stefaníu... ertu ekki fegin núna að hafa sent inn Stefanía? :-)
Gjörið svo vel:

Þetta gerðist fyrir rúmum 23 árum þegar ég bjó í Bolungavík þar sem ég var að vinna á skrifstofu hjá byggingarfyrirtæki. Við á skrifstofunni deildum kaffistofu með nokkrum körlum sem unnu í byggingarvöruverslun sem rekin var af sama eiganda og fyrirtækið sem ég vann hjá. Ég sem sagt sá um launaútreikning fyrir þessa karla ásamt fleiri aðilum.

En nú ætla ég að koma mér að þessu neyðarlega atviki, þar sem ég gerði mig að þvílíku fífli, svo miklu að ég roðnaði í mörg ár bara við tilhugsunina og það er ekki langt síðan ég gat farið að segja frá þessu því mér skammaðist mín svooooo mikið.

Það var sem sé í einum af þessum ágætu kaffitímum að einn karlinn, sem var auðvitað enginn karl, líklega eitthvað á fertugsaldri sagði okkur klámvísu. Mér þykir verst að ég man auðvitað ekki klámvísuna en alla vega kom orðið “lókur” fyrir í vísunni eða að hann (karlinn sem um var ort) horfði á “lókinn” eða eitthvað slíkt. Nú nú, þegar vísunni lauk hrópaði ég upp og yfirgnæfði hlátrasköllin í köllunum og sagði “Ég veit hvað það þýðir” – allir hættu að hlægja og horfðu á mig og ég sagði hróðug “Það þýðir gluggi”

Fólk getur rétt ímyndað sér hvað var hlegið – en ég verð líklega að fara að endurskoða þetta með að minnið mitt hafi farið að fara halloka á fertugsaldri hjá mér, því ég var rétt um tvítugt þegar þetta var og hafði nýverið lesið eða hlustað á einhverja fornsögu þar sem orðið “Ljóri” kom við sögu og ég hafði haft fyrir því að finna út hvað það þýddi – sem sagt “Gluggi”

Orðin eru nokkuð lík – er það ekki? Lókur/Ljóri : )

Ég eiginlega þorði ekki að segja frá þessu fyrr en fyrir um tveimur á hálfu ári en þá var ég kynnt fyrir nýjum tengdasyni, sem er systursonur þessa ágæta manns sem fór með vísuna góðu.

Ég ætti kannski að biðja hann um að tala við frænda sinn og biðja hann um vísuna fyrir mig?????

Þetta er samt ekki neyðarlegasta atvik sem ég hef lent í en þetta er alla vega fyndið – hitt var ekki fyndið.

Stefanía.

Takk fyrir þetta Stefanía… þessu hefði ég ekki vilja lenda í :-)
Hér er svo hin sagan, ég datt næstum af stólnum af hlátri þegar ég las hana. Höfundur vill ekki láta nafns síns getið:

Frétti af konu sem lenti í einu neyðarlegu, já og reyndar skemmtilegu, hehehehe.
Sko það var ónefnd kona sem var búin að "hösla" sér karl, af einkamálum, reyndar búin að hitta hann nokkru sinnum svo henni fannst nú ekkert tiltöku mál að hann kæmi í heimsókn, sem hann og gerði einn góðan veðurdag.
Konukindin var búin að taka til og alles, fara í sturtu og hella upp á kaffi, ekki málið, já og meira að segja þvo upp.
Kemur svo karlinn og þau sitja góða stund og lepja kaffi og segja hreystisögur.............................
Kom svo að því að karl vildi meira og barst leikurinn inn í svefnherbergi kerlu, þar tók karlinn völdinn og skellti kerlu á rúmið.......................................Upphófust þá hin mestu háreysti og hvæs..................þau lentu ofan á kettinum.............og hann var ekki ánægður með þetta. En kerla sprakk úr hlátri og er enn að hlægja, karl spýttist upp og kerla hefur ekki séð hann síðan en hlær enn.


Posted by Hello

3:26 e.h.
|

miðvikudagur, nóvember 03, 2004

Lokadagurinn...

Þá er runninn upp síðasti dagurinn í skilafrestinum á neyðarlegustu sögunni. Þið hafið daginn í dag til að skila inn sögu, alveg fram að miðnætti. Á morgun birtist besta sagan hér á blogginu og höfundurinn fær verðlaun (svo framarlega sem ég veit hver höfundurinn er). Svo nú er bara að bretta upp ermarnar og pikka inn ykkar neyðarlegu minningar.
Mig dreymdi Smára í nótt, man ekkert um hvað draumurinn var, man bara að Smári var þar. Ég er voðalega hrædd um að það sé fyrir því að Bandaríkjamenn kjósi sama forsetann yfir sig aftur. Eða kannski verður það eins og síðast... kjósa einn en fá annan...
Svo dreymdi mig líka að ég var á ferðalagi í Noregi með mömmu og Helgu föðursystur. Helga var að keyra og var alltaf að stríða okkur með því að keyra út í kant á fullri ferð. Svo endaði ferðin í einhverju spa dæmi og við vorum ekki með neina sundboli. Föttuðum það þegar við vorum komnar úr öllu... og ekki nóg með það; heldur vorum við víst í kallaklefanum... gaman að því :-) En því miður voru engir kallar þar til að skoða.
Ég fékk símtal frá yfirmanninum í gær þar sem hann tjáði mér að það sé loksins búið að laga skrifstofuna mína... komnar loftplötur og allt. Hún verður síðan hreinsuð voða vel í dag, svo ég geti mætt þangað á morgun án þess að fá útbrot og kláða :-) Það var líka kominn tími til, það er einn og hálfur mánuður síðan loftið hrundi.
Best að vinna smá.......

10:33 f.h.
|

þriðjudagur, nóvember 02, 2004

Fjölnir orðinn eldri en ég... næstu ellefu daga

EINN DAGUR eftir af skilafrestinum... kooooma svo!
Annar nóvember í dag og hann Fjölnir krútt á afmæli. Til hamingju með daginn dúllan mín :-) Ég næ þér bráðum...
Annars lítið um að vera, er búin að vera að undirbúa jólin... er ekki komin í jólaskap, vil bara vera búin að öllu í tíma. Ég er ekki að gera jólahreingerninguna eða baka, heldur er ég að búa til umbúðir utan um jólagjöfina góðu... og nokkrar fleiri. Engir skókassar samt, heldur Pringles staukar og Dímon box... voða flott. Það er svo gaman að dunda sér við svona yfir sjónvarpinu.
Emil er veikur í dag... ældi í rúmið mitt í nótt og skeit svo næstum því á stofugólfið í morgun. Núna sefur hann bara og sefur. Hefur sennilega étið eitthvað miður gott, eins og kattaskít sem honum finnst lostæti.


1:25 e.h.
|

mánudagur, nóvember 01, 2004

Komnar fimm sögur...

Nú eru bara tveir dagar eftir af frestinum, svo þeir sem ætla að vera með í keppninni um neyðarlegasta atvikið ættu að fara að drífa sig að senda inn sögu. Sem fyrr má senda söguna á þetta netfang. Og munið að það er allt í lagi að senda nafnlaust, ég er meira að segja búin að gera það auðvelt fyrir ykkur. Til þess að senda nafnlaust farið þið inn á Hotmail, skráið ykkur inn sem sogukeppni@hotmail.com og lykilorðið er snatason. Veljið New message, smellið á nafnið mitt hægra megin, skrifið Neyðarlegt í subject og söguna í kassann. Sendið þetta svo af stað, og þá fæ ég póst frá ykkur, en veit ekkert frá hverjum hann kemur.
Stefanía setti fram alveg ágæta spurningu í kommenti við síðasta blogg. Af hverju kommenta ekki allir sem eru að skoða blogg? Það væri nefnilega mjög gaman að vita hverjir eru að lesa þetta, því á tólfta hundrað heimsóknir eru varla bara frá nánustu ættingjum mínum... ef svo er hafa þeir ekkert annað að gera :-)

1:39 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker