þriðjudagur, desember 28, 2004

Litlir kassar... allir eins

Jæja, þá er ég byrjuð að pakka niður í 36. sinn. Ég eyði öllum mínum tíma núna í að hlaupa fram og til baka með kassa í fanginu og er að reyna að skipuleggja hvað á að fara í hvern þeirra. Ég nefnilega veit ekki hvort ég er að pakka niður til flutnings eða í geymslu. Við fáum ekki svar með íbúðina fyrr en á miðvikudag og þá eru bara tveir dagar til áramóta. Ég ætla að flytja héðan fyrir áramót, svo þá verður lítill tími til stefnu til að finna einhverja aðra íbúð... svo kannski enda ég bara á götunni með alla kassana mína.
Jólin voru meiriháttar í alla staði. Við vorum öll saman heima hjá Irisi, borðuðum lambahamborgarhrygg, fundum tréð eftir mikla leit í pakkahrúgunni og spiluðum svo Friendsspilið fram á nótt... þ.e. við systur spiluðum, en Elli horfði á og hristi hausinn yfir þessum vinanerdum sem við erum. Emil smjattaði á jólagjöfunum sínum, hann fékk harðfiskkurl frá langömmu og langafa og það var sko vel þegið. Einnig fékk hann bolta frá ömmu sinni í Breiðholtinu og móðursystkinum og frá mér fékk hann kall með hatt og vindil (hattinn át Emil strax af kallinum og vandi hann svo af reykingunum daginn eftir) sem segir "How you doing?" þegar maður potar í magann á honum. Tumi eyddi hins vegar mestum hluta kvöldsins sofandi inni á baði og reyndi að detta ofan í klósettið ef einhver fór að pissa.
Jæja, best að hætta þessu kjaftæði og halda áfram að kafa í kassana...

1:04 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker