þriðjudagur, janúar 18, 2005
Kúluleysi

Jæja, þá er hann Emil minn orðinn aðeins minna karlkyns. Hann fór að hitta dýralækni í gær og kom sofandi heim. Þegar hann vaknaði vafraði hann um íbúðina eins og ofurölvi og fékk svo kraga til að hann taki ekki saumana úr sér sjálfur alltof snemma. Núna er hann frekar fúll yfir kraganum en virðist alveg hress að öðru leyti. Hann fékk að sofa inni hjá okkur í nótt og við vorum alltaf að vakna við það þegar hann labbaði á veggina. Hann sofnaði svo loksins undir morgun, um það leyti sem Elli fór í vinnuna og við tvö sváfum til klukkan tíu.
Rakel ömmusystir kom í heimsókn áðan og borðaði afganginn af hádegismatnum. Svo fékk hún kaffi og við spjölluðum og skoðuðum myndir... voða gaman. Hún færði okkur innflutningsgjöf og fékk skoðunarferð um höllina í staðinn.
Sjónvarpið sprakk um helgina, fyrst varð myndin bara mjó rönd en hljóðið heyrðist. Svo kom smellur og bæði mynd og hljóð hurfu. Ég skrapp því í Elko í gær og keypti annað sjónvarp. Litla 14 tommu sjónvarpið sem við höfum venjulega í svefnherberginu var nefnilega full lítið í stofuna, hún er svo stór að maður þurfti eiginlega kíki til að horfa á sjónvarpið. Þegar ég var að horfa á “How do you like Iceland” á sunnudagskvöldið þurfti ég að standa upp og fara nær til að lesa listana sem birtust stundum á skjánum... og þeir voru alltaf að koma svo ég var á endalausum hlaupum yfir stofuna.
Ég er í sumarfríi í dag til að hjúkra hundinum mínum... en þarf ekkert að hjúkra honum, svo ég er bara að slæpast. Er að hugsa um að láta renna í bleika baðið og leggjast í bleyti í smá stund. Ha det!
4:12 e.h.