fimmtudagur, febrúar 24, 2005

Helgin nálgast...

Undur og stórmerki hafa gerst! Regína er búin að blogga! Og það er mikil gleði í hennar bloggi... er hún ástfangin eða hvað?
Á morgun erum við skötuhjúin að fara í sumarbústað, þar sem við ætlum að eyða helginni í heitum potti. Þar verður líka grillað lamb og kannski drukkinn smá bjór :-) Emil ætlar ekki að koma með okkur, heldur ætlar hann að eyða helginni á hóteli í góðu yfirlæti.
Nú fer alveg að verða partýhæft hérna í kotinu okkar... kominn fjögurra sæta sófi í stofuna og einn ruggustóll. Við höfum sem sé pláss fyrir þrjá gesti ef allir ætla að sitja. Nýi fíni IKEA sófinn er þvílíkt þægilegur. Ég var ein heima í gærkveldi (Emil var reyndar heima, en hann fær ekki að koma upp í sófa) og þegar Elli kom heim var ég steinsofandi í sófanum... og leið bara mjög vel. Færði mig nú samt inn í rúm og hélt áfram að sofa.
Launaviðræðum og starfsmannaviðtali við sjálfa mig er lokið og fór það mjög vel. Við náðum að semja um hækkun launa vegna óánægju launþegans með vinnuaðstöðuna í bænum. Í gær fór ég í bæinn en komst ekki inn á skrifstofuna sem ég á að vera á, og þurfti að vera í annarri skrifstofu. Þar er tölvutengillinn á leiðinlegum stað svo ég þurfti að sitja með skúffur á milli hnjánna til að geta unnið á tölvuna. Langt frá því að vera þægilegt, svo ég fór heim um hádegið eftir fund með fjármálastjóranum og forstöðumanninum. Ég ætla rétt að vona að á mánudaginn fái ég viðunandi vinnuaðstöðu, því það er ekkert gaman að rífast við sjálfa sig... það er nánast vonlaust að hafa betur í því rifrildi.
Bara 22 dagar þar til mamma kemur í heimsókn... það verður sko gaman. Bleika herbergið er nánast alveg tilbúið til að taka á móti henni, á bara eftir að stytta nýju gardínurnar. Eða kannski ég láti það bara bíða þar til mamma kemur og fái hana til þess? ;-)

2:44 e.h.
|

mánudagur, febrúar 21, 2005

Konudagurinn

Konudagurinn var í gær, og eflaust hafa margar konur fengið blómvendi... en ekki ég. Sem betur fer segi ég bara, því minn maður gaf mér blómvönd á Valentínusardaginn sem stendur enn bísperrtur og vegna blómavasaskorts á heimilinu er bara pláss fyrir einn vönd í einu.
Dagurinn var þó hinn ánægjulegasti í alla staði. Við vöknuðum seint og eftir morgunverð skelltum við okkur í höfuðborgina til að skoða sófa. Byrjuðum á Húsgagnahöllinni, fundum ekkert áhugavert þar nema einn frekar ljótan, dýran sófa... en þægilegan. Hins vegar fundum við ömmu og afa þar á vafri, og amma bauð okkur upp á kaffi og köku í tilefni konudagsins.
Þessu næst var brunað í IKEA, ætluðum að sjá hvort þar væri eitthvað gott í boði. Og viti menn... þar fundum við rosalega þægilegan sófa, sem kostaði 50 þúsund krónum minna en sá í Húsgagnahöllinni. Ég dró því upp kortið og tók með gardínur og gardínustöng í leiðinni... í bleika herbergið sem er ekki lengur bleikt.
Þar sem þessi viðskipti komust ekki alveg í sex stafa tölu bættum við um betur og dýfðum okkur í Bláa Lónið. Ég var búin að nöldra í Ella í nokkrar vikur og hann samþykkti loksins að koma með í lónið... og ég held hann hafi ekkert séð eftir því. Ég fékk hann meira að segja til að maka leir í andlitið á sér og sagði honum svo að hann liti út fyrir að hafa verið að borða skyr með miklum látum :-)
Eftir baðið bauð makinn mér svo út að borða, fórum á kínverskan stað og fengum þar fína máltíð. Spakmælið í kökunni minni sem við fengum eftir matinn var: “Þú átt líflega fjölskyldu” og Elli samþykkti það alveg, sérstaklega eftir að Rakel ömmusystir kom í heimsókn um daginn og sagði þegar Elli kom til dyra: “Ég ætlaði að grípa þig í rúminu!” Hann hafði aldrei hitt hana áður og sagði bara “ha??” Þar að auki er hann búinn að hitta systur mínar og Laugarbakkafrænkurnar... held hann hafi verið hissa í gær á því hvað afi og amma voru róleg :-)
Skrifstofumálin eru strax farin að verða erfið í vinnunni. Hún Inga er að vinna í dag, hún sem annars vinnur aldrei á mánudögum. Ég ákvað því bara að vera heima í dag, ætla ekki að taka í mál að vera í bænum og hlaupa á milli skrifstofa með kapla og snúrur... ef ég fæ ekki að vera alltaf á sama stað, þá fer ég bara ekkert í bæinn. Og hananú...

1:35 e.h.
|

föstudagur, febrúar 18, 2005

Var að flytja... aftur

Upp er runninn föstudagur... og ekki mikið meira um það að segja. Ég brunaði í bæinn í gær og dundaði mér fram eftir degi í vinnunni. Kom ekki eins miklu í verk og ég vildi, því nýja fína húsnæðið okkar (sem er alltaf að hrynja ofan á hausinn á okkur) er orðið of lítið! Ég þurfti því að gefa skrifstofuna mína eftir til annars starfsmanns og flytja með allt mitt hafurtask inn á skrifstofuna hjá henni Ingu. En þannig er mál með vexti að hún Inga vinnur bara þrjá daga í viku, svo við munum skiptast á að nota skrifstofuna. En til að við verðum ekki að flækjast hvor fyrir annarri á fimmtudögum, samþykkti ég að breyta minni rútínu þannig að ég verð í bænum á mánudögum og miðvikudögum hér eftir. Allt gott um það að segja, það sem mér finnst leiðinlegast er að ég mun þá aldrei hitta Ingu.
Það er reyndar svo lítið pláss á skrifstofunni að ég gat bara komið þar inn með einn lítinn prentara og lok af pappakassa með smádóti. Allar möppur og þess háttar verða inni á lager... pínu óþægilegt, en kannski munu þá launaviðræður ganga betur fyrir vikið. Forstöðumaðurinn setti mér nefnilega fyrir það verkefni að ræða launamálin mín við fjármálastjórann... og það er ég! Það er ótrúlega erfitt að semja við sjálfan sig, og þessir samningar hafa staðið í rúma viku núna án nokkurs árangurs. En við þennan flutning mun launþeginn Jenny kannski hafa betri stöðu gagnvart fjármálastjóranum Jenny...
Eeeeeen... á móti kemur að það er engin hætta á að þess verði krafist að ég keyri í bæinn á hverjum degi, því það er ekkert pláss fyrir mig :-)
Hafdís María ofurdúlla á afmæli í dag. Til hamingju með eins árs afmælið frænka!

11:29 f.h.
|

mánudagur, febrúar 14, 2005

Þorrablótið

Þá er hið langþráða þorrablót að baki og mikið rosalega var gaman! Nefndin stóð sig með mikilli prýði, skemmtiatriðin voru mjög fyndin. Meira að segja Elli, sem þekkir ekkert til þarna, sagði að sér hefði þótt annállinn mjög fyndinn, þó eflaust hefði verið meira gaman að þekkja liðið sem verið var að skjóta á. Maturinn var fínn... ég borðaði mest af pottréttinum en lét súrmatinn alveg eiga sig. Ég fékk mér að vísu einn lítinn hákarlsbita til að finna ekki lyktina af hinum. Það virkaði mjög vel, því ég fann ekki hákarlsstybbu af nokkrum manni.
Ballið var fínt líka... en við vorum reyndar ekki mjög lengi þar. Við vorum komin heim til Brynju um hálf tvö eða tvö og fórum bara að sofa þá. Vöknuðum svo bara eldhress á laugardeginum og dóluðum af stað. Komum við á lögreglustöðinni í Borgarnesi til að sækja dótið hans Jóa og Helgu, en þau lentu í hörðum árekstri á suðurleiðinni á föstudagskvöldið og voru flutt slösuð í bæinn. Þegar ég sá bílinn varð ég hissa á að þau skyldu sleppa lifandi úr þessu. Einhver ferð hlýtur að hafa verið á þeim sem keyrði á þau, því Jói keyrir aldrei hratt...
Núna er ég veik heima með furðulegt afbrigði af flensunni. Ég hélt þetta væri bara aumingjaskapur í mér þangað til ég hringdi í vinnuna til að láta vita að ég kæmi ekki. Það eru víst fjórir þar búnir að liggja heima með sömu einkenni... furðulegt. En það lagast einhverntíma...
Núna ætla ég að finna mér bók að lesa og skríða upp í rúm... gera það besta úr þessum veikindum. Góðar stundir :-)

10:29 f.h.
|

fimmtudagur, febrúar 10, 2005

Djö... ansk... helv... þorrinn!

Þá er þessari vinnuviku alveg að ljúka, því við ætlum að taka okkur frí í vinnunni á morgun og skella okkur norður í land til að blóta þorra með Húnvetningum. Ég ætla að athuga hvernig nefndin stendur sig í ár, því ég átti að vera í henni núna. Var búin að bíða eftir því í sjö ár eða svo og svo loksins þegar ég lendi í nefndinni... þá bara flyt ég í burtu. En ég sé reyndar ekkert eftir því :-)
Emil fór í leikskólann í dag, ég fer að leggja af stað að sækja hann. Svo förum við til Irisar í nudd... reyndar bara ég, hugsa að Iris vilji ekki nudda hundinn. Svo verður brunað til Keflavíkur til að pakka niður... sofið smá, klipping í fyrramálið, bíllinn í skoðun... og svo verður lagt í ferðalag. Ég hef ekki komið norður í Húnaþing síðan í byrjun nóvember... skrítið.
En ég er farin. Bless og góða helgi!


3:48 e.h.
|

mánudagur, febrúar 07, 2005

Veiðileyfi til sölu...

Bleika herbergið er ekki lengur bleikt! Nú get ég farið að flytja vinnuaðstöðuna úr eldhúsinu og þá verður nú gaman að vera til.
Heiðrún litla systir á afmæli í dag, orðin eldgömul :-) Til hamingju með daginn Heiðrún!
Í gær var dálítið mikil rigning í Keflavíkinni og lognið var mikið að flýta sér. Þetta varð til þess að það lak inn um gluggann í svefnherberginu, allt fór á flot uppi á lofti sem leiddi til rigningar í þvottahúsinu og það myndaðist myndarlegt stöðuvatn fyrir utan innkeyrsluna hjá okkur. Gaman gaman...
Í vinnunni hrundi loftið aftur, en ekki á minni skrifstofu í þetta sinn, heldur í hinum endanum á húsinu. Ég er samt ekki frá því að mig sé farið að klæja pínulítið...
Brynja er komin með nýtt blogg. Til hamingju með það frænka!
Ekkert mikið að frétta að öðru leyti, allavega ekkert sem verður skrifað hér :-) Nú bíð ég bara eftir föstudeginum til að komast á blótið. Ekki til að borða úldinn mat og drekka brennivín samt... jakk!


8:58 f.h.
|

þriðjudagur, febrúar 01, 2005

Eistnalausi ostaþjófurinn...

Nú er Heiðrún farin að minna mig á að blogga, svo það er best að drífa í því...
Helgin var alveg ágæt bara, laugardeginum eyddum við í að rífa upp teppi og undirbúa parketlögn hjá tengdamömmu. Svo skruppum við í bæinn í partý til Irisar og Heimis um kvöldið, þar var fullt af skemmtilegu fólki og mikið hlegið, sungið og dansað. Ég var bílstjóri, svo ég var bara þokkalega róleg, söng hvorki né dansaði, en hló þeim mun meira :-)
Emil er laus við kragann sinn og saumana og hefur róast alveg heilmikið... sefur nánast allan daginn og allar nætur. Það er helst að hann vakni þegar Elli kemur heim, þá dansar hann á eftir honum um allt (sko Emil á eftir Ella, ekki öfugt).
Við fengum okkur kex og osta eitt kvöldið og horfðum á sjónvarpið. Við skruppum svo aðeins fram í eldhús og þegar við komum til baka sat Emil voða skömmustulegur inni í stofu... og það hafði fækkað um eina ostategund á stofuborðinu. Stórt stykki af hvítlauksosti hafði horfið ofan í hundinn og við vorum viss um að hann fengi í magann af þessu... en nei, hann hafði bara gott af þessu og var merkilega lítið andfúll daginn eftir.
Til hamingju með daginn í dag, amma...svona ef þú skyldir nú lesa þetta :-) Svo á mamma afmæli á fimmtudaginn og Heiðrún á mánudaginn... svo á ég líka bróður sem á afmæli í febrúar, en hann átti afmæli í fyrra, svo það verður ekkert afmæli hjá honum í ár.
Við ætluðum að skreppa á þorrablót um helgina, en því hefur verið frestað um viku, svo ég veit ekkert hvað við gerum af okkur um helgina... ætli við höldum ekki bara áfram að mála eða eitthvað. Við máluðum ganginn í gærkvöldi svo nú er mikið bjartara þar. Næsta mál á málningardagskránni er svo bleika herbergið... vonandi klárum við það sem fyrst svo ég geti komið mér upp vinnuaðstöðu þar inni. Núna er skrifstofan mín í eldhúsinu og það er ekkert mjög þægilegt.
Jæja, farin að vinna, sjúumst... eins og Brynja segir :-)


2:50 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker