mánudagur, febrúar 21, 2005

Konudagurinn

Konudagurinn var í gær, og eflaust hafa margar konur fengið blómvendi... en ekki ég. Sem betur fer segi ég bara, því minn maður gaf mér blómvönd á Valentínusardaginn sem stendur enn bísperrtur og vegna blómavasaskorts á heimilinu er bara pláss fyrir einn vönd í einu.
Dagurinn var þó hinn ánægjulegasti í alla staði. Við vöknuðum seint og eftir morgunverð skelltum við okkur í höfuðborgina til að skoða sófa. Byrjuðum á Húsgagnahöllinni, fundum ekkert áhugavert þar nema einn frekar ljótan, dýran sófa... en þægilegan. Hins vegar fundum við ömmu og afa þar á vafri, og amma bauð okkur upp á kaffi og köku í tilefni konudagsins.
Þessu næst var brunað í IKEA, ætluðum að sjá hvort þar væri eitthvað gott í boði. Og viti menn... þar fundum við rosalega þægilegan sófa, sem kostaði 50 þúsund krónum minna en sá í Húsgagnahöllinni. Ég dró því upp kortið og tók með gardínur og gardínustöng í leiðinni... í bleika herbergið sem er ekki lengur bleikt.
Þar sem þessi viðskipti komust ekki alveg í sex stafa tölu bættum við um betur og dýfðum okkur í Bláa Lónið. Ég var búin að nöldra í Ella í nokkrar vikur og hann samþykkti loksins að koma með í lónið... og ég held hann hafi ekkert séð eftir því. Ég fékk hann meira að segja til að maka leir í andlitið á sér og sagði honum svo að hann liti út fyrir að hafa verið að borða skyr með miklum látum :-)
Eftir baðið bauð makinn mér svo út að borða, fórum á kínverskan stað og fengum þar fína máltíð. Spakmælið í kökunni minni sem við fengum eftir matinn var: “Þú átt líflega fjölskyldu” og Elli samþykkti það alveg, sérstaklega eftir að Rakel ömmusystir kom í heimsókn um daginn og sagði þegar Elli kom til dyra: “Ég ætlaði að grípa þig í rúminu!” Hann hafði aldrei hitt hana áður og sagði bara “ha??” Þar að auki er hann búinn að hitta systur mínar og Laugarbakkafrænkurnar... held hann hafi verið hissa í gær á því hvað afi og amma voru róleg :-)
Skrifstofumálin eru strax farin að verða erfið í vinnunni. Hún Inga er að vinna í dag, hún sem annars vinnur aldrei á mánudögum. Ég ákvað því bara að vera heima í dag, ætla ekki að taka í mál að vera í bænum og hlaupa á milli skrifstofa með kapla og snúrur... ef ég fæ ekki að vera alltaf á sama stað, þá fer ég bara ekkert í bæinn. Og hananú...

1:35 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker