þriðjudagur, apríl 12, 2005

Komin aftur

Jæja, þá erum við komin heim úr sólinni. Við höfðum það þvílíkt gott þarna úti get ég sagt ykkur. Þetta leit nú ekki vel út áður en við fórum því ég þurfti náttúrulega að fá flensuna þremur dögum fyrir brottför og kvöldið áður en við fórum út var ég með 39 stiga hita (persónuleg hitamet). En ég lét mig hafa það að fara samt og fyrstu þrír dagarnir voru ekkert mjög skemmtilegir. En þegar mér fór að líða betur varð bara gaman. Við löbbuðum út um allt, versluðum smá, lágum heilar tíu mínútur í sólbaði, syntum í sjónum, borðuðum veislumat á hverjum degi, fitnuðum aðeins, drukkum slatta af bjór og rauðvíni, fórum upp í sveit í dýragarð, fórum á markað og prúttuðum heilmikið en versluðum mjög lítið og urðum sólbrún (aðallega Elli... ég dökkna aldrei mikið). Það var glampandi sól alla dagana nema einn og svona 25-30 stiga hiti. Lægst fór hitinn í 19 gráður og hæst í 32.
Við lentum í Keflavík klukkan hálf þrjú í fyrrinótt eftir ellefu tíma ferðalag. Við þurftum að millilenda í Barcelona til að taka farþega og þurftum að hanga út í vél þar í klukkutíma. Við máttum ekki labba um vélina, máttum því síður fara út... áttum bara að sitja í sætunum okkar og ekki hafa beltin spennt. Við vorum í flugvélinni í níu klukkutíma samfellt og fengum ekki einu sinni að éta. Gátum að vísu keypt máltíð, en hún kostaði 800 kall á mann, svo við létum það nú ekki eftir þeim.
Þegar við vöknuðum svo í gærmorgun brunuðum við norður í land. Tókum með okkur kött úr bænum (þið kannist reyndar við hann, hann hét einu sinni Kúkalabbi og bjó hjá henni Irisi) og fórum með hann í Sanda. Þar hittum við Emil okkar og sá varð nú aldeilis glaður að sjá okkur. Við tókum hann með okkur heim og hann varð mjög glaður að koma heim, en hefur reyndar verið hálf furðulegur í dag... voðalega rólegur og sefur mikið. Ég veit eiginlega ekki hvort hann er svona sáttur við að vera kominn heim, eða svekktur... Heiðrún, hvað heldur þú?
Þeir sem vilja sjá myndir úr ferðinni geta smellt á þennan link, þarna er ég búin að setja upp heimasíðu, en reyndar er ekkert á henni ennþá nema Kanarímyndir. Kannski kemur meira þangað seinna :-)
Ég sé að bloggheimar verða hálf líflausir þegar ég blogga ekki... en ég vona að það fari nú að lagast. ÁFRAM BLOGGARAR! :-)

2:06 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker