mánudagur, maí 23, 2005

Hoppandi hús

Jæja, þá er Eurovision að baki, ég held bara að ég hafi aldrei horft á keppnina af eins miklum áhuga fyrr. Ég var nokkuð sátt við úrslitin, fannst gríska lagið ágætt og fannst daman frá Möltu standa sig rosalega vel, hefði alveg viljað sjá hana í fyrsta sæti. Mér fannst lagið frá Lettlandi ömurlegt og skil ekki af hverju það var í fyrsta sæti svona lengi til að byrja með. En það er greinilegt að misjafn er smekkur manna.
Enginn giskaði rétt í Eurovision getrauninni okkar... ég er sammála mömmu um að Heiðrún komst sennilega næst réttu svari :-) En svo var Stefanía næst því af þeim sem nefndu sæti :-)
Helgin var róleg, við Emil þvældumst um Reykjanesskagann á laugardaginn, leituðum að myndefni og skoðuðum steina af miklum móð (Stefanía mun sjá þann sem við fundum mjög fljótlega). Ég fann rollur með lömb og reyndi að ná myndum af þeim til að túlka árstíð, jarmaði á kindurnar og þær urðu svo hissa að þær hlupu ekki einu sinni í burtu. Passaði mig líka á að hafa Emil lokaðan inni í bíl, því ég er ekki viss um að þær hefðu staðið kyrrar ef hann hefði verið með... en þá hefði ég kannski náð að túlka hreyfingu, fattaði það ekki :-)
Á laugardagskvöldið eftir Eurovision skruppum við Elli í stúdentaveislu þar sem var mikið fjör. Fullt af bollu og maður mátti ekki líta af glasinu án þess að það fylltist. Við vorum þó nokkuð róleg og fórum snemma heim, því Elli var að vinna daginn eftir og ekki sniðugt að vera þunnur þegar maður á að keyra 70 manna bíl :-)
Í gær vorum við Emil svo bara ein heima og slöppuðum af. Ég held að Emil haldi að hann sé köttur. Hann nuddar sér utan í lappirnar á manni, reynir að skríða upp í fangið á manni og liggur þar sem sólin skín á gólfið. Furðuleg hegðun hjá hundi, en alls ekki leiðinleg, nei nei...
Núna er ég stödd í Reykjavík og húsið hoppar reglulega. Greinilegt að sprengingarnar eru byrjaðar aftur hinum megin við götuna. Ætli loftið fari þá ekki að detta ofan á hausinn á mér einu sinni enn...

11:02 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker