þriðjudagur, maí 31, 2005

Langt blogg

Heiðrún var að biðja um gamlar sögur á sínu bloggi og ég ætla barasta að skella inn einni ferðasögu hér... bara fyrir hana. En þið hin megið að sjálfsögðu lesa líka ;-)

Dagur eitt... punktur – Miðvikudagur 14. júní
Hér verður sögð saga af all ævintýralegu ferðalagi sem farið var dagana 14. til 17. júní árið 2000. Ákveðið hafði verið að leggja af stað eftir fjós að morgni en það dróst fram eftir degi þar sem nokkurn tíma tók að græja Valdimar (það var jeppaskrípið okkar). Hann var nefnilega svo hár að tjaldvagninn var alveg á óæðri endanum aftan í honum. Kúlan var því lækkuð og svo settum við krossviðarplötu á pallinn á honum til að koma farangri þar fyrir án þess að hann yrði blautur og rykugur. Að auki eyddum við nokkrum tíma í að laga tengilinn fyrir tjaldvagninn til að rétt ljós kviknuðu aftan á honum.
Eftir allt þetta streð og amstur komumst við skötuhjúin loksins af stað í fríið langþráða. Stress úr sauðburði og útskrift var farið að há okkur verulega og við notuðum tækifærið að stinga af í nokkra daga áður en vinnukonan héldi aftur til Noregs.
Við ákváðum að þræða norðurströndina því við höfðum séð frekar lítið af þeirri leið áður. Ekið var sem leið lá norður fyrir Skaga og ekki leist okkur nú vel á það landsvæði, þótti það nokkuð hrjóstrugt en samt var nú gaman að sjá það. Næst lá leiðin þvert yfir Héraðsvötnin og út í Fljót. Við ákváðum að tjalda áður en við legðum á Lágheiðina en þegar við komum út að Ketilási fengum við þá flugu í höfuðið að gaman væri að kíkja út á Siglufjörð. Við keyrðum þangað í rólegheitum því sannleikurinn er sá að við þorðum ekki að fara hratt. Bæði var hátt niður af veginum og svo var kvöldsólin að angra okkur, blessunin. Siglfirðingar störðu stórum augum á okkur túristana á risajeppa með pínutjaldvagn þar sem við ókum um plássið og horfðum beint upp í loftið. Við vorum nefnilega að skoða snjóflóðavarnirnar í fjallinu. Að fólk skuli vilja búa þarna!
Eftir að hafa skoðað nægju okkar af Siglufirði ókum við aftur til baka og nánast upp á Lágheiðina áður en við fundum góðan stað til að sofa á. Við tjölduðum niðri við á rétt hjá malarnámu. Hitastigið var rétt við frostmarkið og það var frekar erfitt að fara úr og undir sæng, en það hafðist.... brrrr.

Dagur tvö – Fimmtudagur 15. júní
Morguninn eftir var komin sól og blíða og við vöknuðum hress og spræk. Við röltum niður að á til að tannbursta okkur en urðum frá að hverfa vegna sterkrar móðurástar í kríu sem þóttist eiga þarna lögheimili. Við þurftum því að labba aðeins upp með ánni til að geta hreinsað tennurnar án þess að fá gogg í hausinn. Á meðan við vorum að pakka saman tjaldvagninum komu þarna að risastórir malarflutningabílar. Bílstjórarnir ráku upp stór augu þegar þeir sáu túrista þarna uppi í afdal, en við vorum fegin að þeir mættu ekki fyrr í vinnuna. Um leið og við keyrðum af stað fór að rigna en það entist nú ekki lengi.
Við ókum yfir hina gullfallegu Lágheiði, yfir á Ólafsfjörð, í gegnum fjallið til Dalvíkur og þaðan til Akureyrar, með smá stoppi til að borða nesti. Á nestisstaðnum var úrill býfluga á sveimi en hún ákvað fyrir rest að við værum skaðlaus og stakk sér ofan í næstu þúfu við okkur. Á Akureyri var gert stutt stopp til að fara í Rúmfatalagerinn og kaupa handklæði, lak og sokka. Það gleymist alltaf ýmislegt þegar farið er í útilegu. Reyndar gleymdum við ekki sokkunum, okkur vantaði bara svoleiðis. Því næst ákváðum við að kíkja upp að Þormóðsstöðum þar sem ég var í sveit í gamla daga. Þar féll aurskriða fyrir nokkrum árum og dalurinn fór í eyði upp úr því. Við renndum því í suðurátt, nánast eins langt og við komumst, því dalurinn er mjög innarlega í Eyjafirðinum. Ég var undir stýri til að leyfa Kalla að skoða sig um þarna. Þegar við vorum komin vel upp í dalinn lentum við í lítilli holu. Við það kom þessi svaka hávaði úr vélinni á bílnum og þegar ég steig á kúplinguna sáum við að bíllinn hafði drepið á sér. Þetta þótti okkur í meira lagi undarlegt og við fórum út og kíktum ofan í húddið, en við urðum ekki miklu nær við það. Nú voru góð ráð dýr, við stödd í eyðidal í Eyjafirði, á biluðum bíl, með tjaldvagn, á mjóum vegi og nánast ekkert símasamband. Með því að hanga hálfpartinn utan á bílnum náðum við þó sambandi við FÍB og verkstæðið sem var nýbúið að gera upp vélina í bílnum og svo hringdum við í dráttarbílafyrirtæki á Akureyri. Svo var bara að bíða. Fyrir rest birtust mennirnir frá dráttarbílafyrirtækinu á jeppa og þeir drógu okkur út á Akureyri á allt of miklum hraða. Við skildum þó tjaldvagninn eftir á sveitabæ hjá skólabróður mínum því okkur fannst voðalega hallærislegt að láta draga okkur og tjaldvagninn líka þvert í gegnum Akureyri.
Þegar við komumst loks á verkstæðið sem verkstæðið fyrir sunnan benti okkur á, voru náttúrulega allir farnir heim... þeir hætta klukkan fjögur takk fyrir. Þá var ekki annað að gera en að skilja bílinn eftir og labba af stað. Dráttarmennirnir skutluðu okkur á Bílaleigu Akureyrar því það var eini staðurinn sem okkur datt í hug að fara á. Norðurleið var nefnilega í verkfalli þannig að ekki komumst við með henni heim. Við spurðum manninn í afgreiðslunni hvað það mundi kosta okkur að leigja bíl í sólarhring og hann sagði að það væri ógeðslega dýrt. Svo spurði hann hvort við ætluðum vestur í Húnavatnssýslu. Við litum hvort á annað og spurðum hann svo hvernig í ósköpunum hann vissi það. Þá sagðist hann finna það á lyktinni að við værum Húnvetningar. Loksins kveikti Kalli þó á perunni. Þetta reyndist vera skólabróðir hans frá Hvanneyri sem hann hafði ekki séð í yfir tuttugu ár. Hann lánaði okkur bíl til að ná í farangurinn okkar í Valdimar og setti okkur svo upp í bílinn sem keyrir Morgunblaðið, því hann var rétt að fara suður.
Morgunblaðsbíllinn var amerískur pallbíll með frekar háværum hestöflum. Hann var með krúskontról og var það sett á 120. Hann var með kerru í eftirdragi og stundum hélt ég að hún myndi þeytast eitthvað út í móa þegar hann fór í beygjurnar. Þær eru nefnilega ekki gerðar fyrir þennan hraða. Bílstjórinn talaði nokkuð um lögguna, sagðist sjaldan hafa verið hirtur þó hann keyrði svona hratt. Þegar við komum í Langadalinn æpti radarvarinn hástöfum en of seint... löggan setti bláu ljósin á. Eftir það var ferðin ósköp þægileg því krúsið var sett á 90. Fjúff!
Þegar heim kom notuðum við tækifærið til að borða og baða okkur og svo var haldið aftur af stað í ferðalagið á jeppanum hans tengdapabba. Ekki vorum við komin lengra en austur í hina sýsluna, þegar einstæð lambamóðir með tvíburana sína ákvað að grasið væri grænna hinum megin við veginn og flýtti sér því yfir. Ekki varð komist hjá árekstri og annað lambið fór undir bílinn. Það var lán í óláni að höggið varð nógu mikið til að drepa það samstundis.
Áfram var haldið norður í land og í gegnum Akureyri. Við sóttum tjaldvagninn og héldum upp í dal sem ég held að nefnist Stóridalur í Eyjafirði. Þar hreiðruðum við um okkur fyrir nóttina.

Dagur 3 – Föstudagur 16. júní
Um morguninn vöknuðum við af værum svefni við mjólkurbílinn og svo aftur við það að bóndinn á næsta bæ var farinn í girðingavinnu rétt hjá tjaldvagninum. Honum hefur sennilega þótt forvitnilegt að sjá tjaldvagn þarna.
Við byrjuðum daginn á að gera aðra tilraun til að fara upp að Þormóðsstöðum. Í þetta sinn komumst við klakklaust yfir holuna og alla leið upp að bænum. Við skoðuðum ummerkin eftir skriðuna og hryllti við eyðileggingunni. Skriðan fór yfir mikinn hluta túnanna, ekki langt sunnan við íbúðarhúsið, þar ofan í stórt gil og upp úr því hinum megin. Hún eyðilagði rafstöð bæjarins gersamlega og gerði það að verkum að allt rafmagn fór af. Fjósið leit út eins og kýrnar hefðu bara verið látnar út fyrir daginn.
Þessu næst lá leiðin út Eyjafjörð aftur og yfir á Húsavík. Þar stoppuðum við á bensínstöð til að fá kælikubba í kæliboxið. Þeir áttu þau ekki til þannig að við ákváðum að fara á næstu stöð. En þá uppgötvuðum við að mér hafði tekist að læsa lyklana inni í bílnum! Það var hringt á lögguna fyrir okkur því allir símarnir þrír voru líka læstir inni og hún kom eftir langa bið. Lögreglumennirnir tjáðu okkur að þessi bíll væri sá erfiðasti að opna og við urðum nú aldeilis kát við það! Það tókst þó að lokum og við komumst aftur af stað. Við urðum okkur úti um kælikubba án þess að læsa bílnum og svo var haldið af stað eftir ströndinni. Tjörnesið reyndist ágætt og við komum í Ásbyrgi í sól og blíðu. Þar skoðuðum við okkur um í ró og næði, sáum fisk í tjörninni og klifruðum upp að útsýnisstaðnum. Þegar okkur var orðið voða heitt og svört af flugum fórum við til baka í bílinn og héldum sem leið lá á Kópasker. Ekki fannst okkur nú mikið til þess stórbæjar koma og héldum því áfram út fyrir Melrakkasléttu. Raufarhöfn heillaði okkur ekki heldur svo við brunuðum á Þórshöfn og borðuðum þar. Þegar við vorum södd og sæl héldum við áfram og stoppuðum ekki fyrr en í Vopnafirði. Þar tjölduðum við í túninu hjá bónda sem Kalli kannaðist við.

Dagur fjögur – Þjóðhátíðardagur Íslendinga
Við vöknuðum við mikla rigningu (en ekki hvað?) og skreiddumst út til að pakka saman dótinu. Við vorum svo heppin að vera sótt í morgunmat og eftir hann héldum við áfram í áttina að hringveginum. Ekki var mikið að sjá í rigningu og þoku, en landslagið var eyðilegt, lítið nema svartur sandur.
Við þorðum ekki að stoppa mikið við Mývatn, þar sem þar var alveg logn. Við neyddumst þó til þess þar sem bíllinn hélt því allt í einu fram að hann væri læstur að aftan, þ.e.a.s. hásingin. Kalli þurfti því að fara út og kíkja undir hann, en ekkert hafðist út úr því nema að fá nokkrar forvitnar og svangar flugur inn í bílinn.
Meðfram vatninu sáust svört ský sem voru öll á iði. Við vissum hvað þetta var en útlendingsgrey á bílaleigubíl fóru út til að skoða. Þeir voru þó fljótir inn aftur og sátu svo og slógu um sig handleggjum og öðrum útlimum.
Ekki gerðist nú mikið eftir þetta fyrr en við komum að Vaglaskógi. Við ákváðum að skoða okkur um þar og þegar við vorum að beygja heim afleggjarann hoppaði bíllinn. Við skildum ekkert hvað hafði gerst, en héldum helst að við hefðum keyrt yfir stein, þó við gætum ekki séð hann. Það var ekki fyrr en í Eyjafirðinum, þegar við heyrðum í útvarpi að við áttuðum okkur á því hvað þetta hafði verið. Suðurlandsskjálfti hafði teygt anga sína til okkar. Við keyrðum í loftinu heim til að ná fréttunum og hlustuðum á Bylgjuna þar sem hún náðist, en Rás 2 var bara með grátt í vöngum og ekki var Rás 1 skárri. Ríkismiðlarnir ákváðu nefnilega dagskránna ári áður og þá gerðu þeir ekki ráð fyrir náttúruhamförum á þessum tíma.
Þegar heim kom eyddum við hálftíma í að reyna að kveikja á sjónvarpinu (það var svolítið bilað) og þegar það tókst gátum við farið að horfa á fótboltaleik á EM 2000, okkur til mikillar ánægju... eða þannig, en fréttirnar fengu að bíða betri tíma.
Segja má að þetta ferðalag hafi verið nokkuð viðburðaríkt og endað með ósköpum. Við teljum okkur þó hafa haft gott af því, auk þess sem við komumst vel að því hvað það er nú alltaf gott að vera heima.

Lokaorð
Svona fyrir forvitna má kannski segja hvað kom fyrir bílkjánann okkar þegar hann lenti í holunni. Þegar vélin var sett í hann í annað sinn (þetta var í þriðja skiptið sem hún bilaði) hafði einhver verkstæðismaðurinn gleymt að herða eina skrúfu. Þegar bíllinn lenti í holunni datt skrúfan úr og sleit tímareimina! Bíllinn var sem sagt með lausa skrúfu... bókstaflega!

11:53 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker