mánudagur, júní 27, 2005

Kannski blogga allir hinir ef ég byrja...

Hmm, kominn tími á blogg myndi ég halda. Annars eru fáir virkir í bloggheimum núna, hvernig stendur á því?
Ég hef haft mikið að gera í vinnunni, svo mikið að ég hef verið að vinna á kvöldin og um helgar. Það er bara hið besta mál þar sem ég vinn mér inn frídaga með þessu móti. Þar sem ég er fjármálastjóri leyfi ég mér ekki að borga sjálfri mér yfirvinnu, en ég samdi um fleiri frídaga í staðinn. Mér reiknast svo til að ég sé búin að vinna mér inn fjóra frídaga síðustu tvær vikur. Besta mál bara.
Furðulegt hvað manni getur dottið í hug þegar maður er alveg að sofna á kvöldin. Eitt kvöld fyrir nokkrum dögum fór ég að hugsa um dagsetninguna á brúðkaupsdeginum okkar, því fólk er alltaf að spyrja “Af hverju 4. júní? Er það eitthvað sérstakur dagur?” Nei, þetta var ekkert sérstakur dagur... bara laugardagur. En ég fór sem sé að hugsa um dagsetninguna og raðaði tölunum upp í kollinum á mér... svona í staðinn fyrir að telja kindur. 4. júní 2005 – 04. 06. 2005 – 04. 06. 05 – 4. 6. 05 – 4605! Kunnuglegt númer mamma? Já, 4605 er sem sé fyrri hlutinn í nafnnúmerinu hennar mömmu og var símanúmerið okkar hér í Keflavík og seinna mitt númer hér í Keflavík með 1 fyrir framan og svo aftur í Reykjavík með tölunni 551 fyrir framan. Ég tek það fram að dagurinn var ekki valinn út af þessu... nema það hafi þá verið algerlega ómeðvitað af okkar hálfu.
En nóg komið af bulli í bili. Munið eftir prófinu þið sem eigið eftir að taka það.

1:34 e.h.
|

þriðjudagur, júní 14, 2005

Smá próf

Jæja, þá er komið að því að gera eitthvað skemmtilegt :-) Þetta hefur reyndar verið gert áður, en það er svo langt síðan og margt hefur gerst þannig að þetta ætti bara að vera gaman aftur.
Gáið hvað þið þekkið mig vel og takið prófið:

Smellið hér
Gerið svo endilega ykkar eigið próf og athugið hvað fólk þekkir ykkur vel :-)

12:49 e.h.
|

föstudagur, júní 10, 2005

Réttlæti?

Upp er runninn föstudagur og við Emil erum í rólegheitum heima við. Ég skrapp í bæinn í morgun og kíkti aðeins í vinnuna... svona rétt til að setja uppþvottavélina af stað, því þetta er eldhúsvikan mín :-) Reyndar hafði ég annað erindi líka, en fannst sniðugt að segja vinnufélögunum að ég hefði bara komið til að skella í vélina :-)
Ég á svo að vera að vinna núna... og hef reyndar sinnt vinnunni smá, en datt svo í að lesa fréttirnar. Hvers vegna er svona mikið ósamræmi milli dóma eftir því hvað fólk brýtur af sér? Á mbl.is í dag er frétt um konu sem var dæmd í 9 mánaða fangelsi, þar af 6 mánuði skilorðsbundið fyrir að hafa dregið sér fé frá sparisjóði. Aðeins neðar á síðunni er frétt um mann sem var dæmdur í 4 mánaða fangelsi, þar af 2 skilorðsbundið fyrir kynferðisbrot gegn 10 ára stúlku! Hvað á þetta eiginlega að þýða??? Er það verra að stela peningum frá banka en að eyðileggja líf barna??? Ég verð alltaf svo reið þegar ég sé svona... þvílíkt rugl! Mér finnst persónulega að kynferðisbrot gegn börnum séu jafnvel verri en morð. Hvað finnst ykkur?

Svo á visir.is er frétt um mann sem var sakfelldur fyrir líkamsárás en það þótti ekki nauðsynlegt að refsa honum af því að hann hafði þegar verið dæmdur til 20 mánaða fangelsisvistar í Svíþjóð fyrir fíkniefnasmygl. Hvað meina þeir með þessu? Fær hann magnafslátt af því að hann hefur brotið svo mikið af sér?

12:29 e.h.
|

mánudagur, júní 06, 2005

Frú Jenny!

Jæja, þá er ég orðin gift kona! Við Elli giftum okkur á laugardaginn og enginn vissi neitt. Fengum bara prest og tvo votta í heimsókn og svo var farið í að hringja í ættingjana á eftir. Því næst skunduðum við út að borða og skemmtum okkur svo fram eftir nóttu. Sumir eru hissa á okkur að hafa ekki leyft neinum að vera með... en við vorum bæði sammála um að við vildum hafa þetta svona, enda vorum við að gifta okkur fyrir okkur og engan annan og við vildum ekkert umstang.
En annars er ekkert mikið að frétta. Fór til tannlæknis í morgun og hún píndi mig að venju, svo ég er að hugsa um að fara snemma heim í dag. Enda er Emil einn heima og hundleiðist eflaust.
11:47 f.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker