þriðjudagur, júlí 26, 2005

Akureyri

Jæja, fyrst hún Brynja er farin að skammast er best að blogga smá... Það hefur nú reyndar ekki mikið gengið á í mínu lífi frá síðasta bloggi, er alltaf bara ein heima með hundinn því Elli er alltaf að fara á Gullfoss og Geysi... hvað skyldi hann alltaf vera að gera þar? Hmm... :-)
Reyndar fékk hann að elta tvö stærstu skemmtiferðaskipin norður á Akureyri og keyra fólkið úr þeim á Mývatn, og fyrst hann fór á tómum bíl norður á fimmtudagskvöldi og aftur til baka á sunnudegi ákvað ég nú bara að skella mér með og hafa það gott á Akureyri yfir helgi. Ferðalagið norður var mjög ljúft, ég var eini farþeginn í 70 manna bíl og það erfiðasta var að ákveða hvar ég ætti eiginlega að sitja... en ákvað svo bara að sitja í leiðsögumannastólnum við hlið bílstjórans. Þar hafði ég það gott alla leiðina, með lappirnar uppi á mælaborðinu, bjór í ísskápnum við hliðina á mér og klósett afturí þegar ég þurfti að skila bjórnum. Held að bílstjórinn hafi nú bara öfundað mig pínu, því ekki gat hann drukkið bjór og farið á klósettið á leiðinni... hvað þá haft lappirnar uppi á mælaborðinu.
Á Akureyri hitti ég Brynju og Hrönn eins og fram kemur í Brynjubloggi. Ég hitti líka Stínu vinkonu mína sem ég hef ekki séð í mörg ár. Með henni þvældist ég um allan bæ í mesta hita sem ég hef upplifað á Íslandi... úff, það var eiginlega bara alltof heitt.
Á föstudagskvöldinu fórum við hjónin út að borða og svo á pöbbarölt, því það var frí hjá Ella á laugardeginum. Við vörum á djamminu framundir morgun og það var bara mjög gaman. Á laugardeginum vorum við frekar þreytt og slöppuðum bara af og á sunnudeginum beið ég meðan hann skutlaðist á Mývatn og svo fórum við í heimsókn til Lilju frænku, alltaf gaman að koma til hennar. Svo var bara brunað heim aftur og ég auðvitað með lappirnar uppi á mælaborðinu en engan bjór í ísskápnum og þess vegna mikið færri ferðir á klósettið góða afturí. Enda ekkert gaman að fara á klósett á íslenskum þjóðvegum... fékk einn marblett á hvorri leið :-)
Við lentum náttúrulega í Reykvíkingaröð og þurftum að dóla á 30 kílómetra hraða yfir Holtavörðuheiðina og á 50 km/h niður Norðurárdal. Þetta var svo svæfandi hraði að ég fór afturí og pússaði rúðurnar í bílnum og tíndi rusl til að halda mér vakandi. Svo gafst Elli líka upp á dólinu og stoppaði við Grábrók þar sem við ryksuguðum og skúruðum bílinn til að hvíla okkur á þessu furðulega aksturslagi.

Þegar í bæinn kom náði ég í bílinn minn sem hafði verið í pössun hjá Hönnu systur. Það má sko alveg setja hann aftur í pössun hjá henni því hann var alveg tandurhreinn og fínn að utan sem innan... það var ekki einu sinni hægt að finna eitt einasta hundahár inni í honum :-) Og þannig var hann sko ekki áður en ég fór.
Emil var náttúrulega á hóteli yfir helgina og kom þaðan með sár á hausnum. Hefur sennilega lent í einhverjum slagsmálum, enda með unglingaveikina þessa dagana. Algjör slagsmálahundur greinilega :-)
Ekki meira í bili... bless

4:03 e.h.
|

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Kanaríííííííííííííííííííííííííí... aftur!

Á hverjum degi er ég vön að rúlla í gegnum bloggin hjá vinum og ættingjum (ekki beint gaman þessa dagana, fólk er að gera eitthvað annað en að sitja við tölvuna sína) og svo skrepp ég inn á fréttasíðurnar. Þennan hring fer ég nokkrum sinnum á dag, fer eftir því hve mikið er að gera í vinnunni. Í morgun fór ég inn á allar þessar síður og þar var ekkert um að vera frekar en venjulega. Síðan fór ég bara að sinna vinnunni, hundinum, eiginmanninum og svo vinnunni aftur... óvenju mikið að gera þar.
Áðan ákvað ég svo að renna einn blogghring og sá að enginn hafði bloggað, nema á síðustu síðunni. Hún Óla var búin að blogga, ansi djúpt hugsað blogg sem fékk mig til að hugsa heilmikið. Hún endaði svo á að minnast á nýjustu atburðina í London og ég fór að hugsa um hvað Ólympíuleikarnir hefðu með þriðja heiminn að gera... svo ég kíkti inn á fréttamiðlana og fékk bara sjokk. Greinilegt að ég hef ekkert verið að fylgjast með í dag! Hryðjuverkamenn búnir að sprengja lestar og strætó og drepa og slasa fullt af saklausu fólki.
Þetta fá aumingja Bretarnir fyrir að hafa stríðsglaðan Blair við völd (eða á kannski frekar að segja BushsleikjuBlair?) Hvenær kemur röðin að Dönum og Ítölum? Og þar sem við vorum á listanum með Bushsleikjuþjóðunum erum við þá ekki líka í hættu?
Já já, ég veit að það þurfti að koma Hussein frá völdum... en eru þeir ekki búnir að því? Og bjuggust Bandaríkin og Bretar virkilega ekki við því að öfgafullir arabar myndu hefna fyrir allt saklausa fólkið sem hefur verið drepið í Írak? Já já, ég veit líka að það náðist að drepa einhverja hryðjuverkamenn og nokkra hermenn en hvert var hlutfallið af þeim á móti saklausum borgurum?
Öll þessi dráp í heiminum eru út af ofsatrú... bæði íslam og kristni. Heimurinn væri betri staður ef allir væru trúlausir. Eða hvað haldið þið?
Kannski svolítið þungmelt blogg svo ég ætla að bæta einu skemmtilegu við: Við Elli erum að fara til Lanzarote sem er ein af Kanaríeyjunum í október. Verðum í tvær vikur að sóla okkur þar, ætluðum reyndar að vera þrjár en vorum of lengi að hugsa svo við verðum bara að sætta okkur við svona stuttan tíma.

4:01 e.h.
|

This page is powered by Blogger. Isn't yours?

eXTReMe Tracker